Ýmsar nýjungar kynntar við tökur á „Tryggð“

Ásthildur Kjartansdóttir leikstjóri og Elma Lísa Gunnarsdóttir leikkona við tökur á Tryggð (Mynd: Lilja Jónsdóttir).

Kvikmyndin Tryggð í leikstjórn Ásthildar Kjartansdóttur er nú hálfnuð í tökum. Myndin er byggð á skáldsögunni Tryggðarpantur eftir Auði Jónsdóttur sem kom út árið 2006 og var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna sama ár. Framleiðendur eru þær Eva Sigurðardóttir fyrir Askja Films ásamt Ásthildi og fyrirtæki hennar Rebella Filmworks. Þær hafa kynnt til sögunnar ýmsar nýjungar í upptökuferlinu.

Jöfn kynjahlutföll, græn vottun og teymisfjármögnun

Fyrir það fyrsta eru kynjahlutföll í starfsliðinu jöfn. Sama máli gegnir með aukaleikarahópinn. Eva segir Askja Films hafa lengið staðið fyrir áherslu á kvikmyndir um og eftir konur og alltaf stefnt að því að kynjahlutfall tökuliðs væri jafnt. Hún segir jafnframt fyrirtækið hafa þróað sitt eigið kerfi til að tryggja að kynjakvótanum væri fylgt í framleiðslunni á Tryggð. Hér að neðan má sjá hópmynd af tökuliðinu sem Lilja Jónsdóttir tók.

Starfslið Tryggðar er skipað konum og körlum til helminga (Mynd: Lilja Jónsdóttir).

Þá var ákveðið áður en tökur hófust að sækja um alþjóðlega “græna” vottun fyrir kvikmyndaframleiðsluna frá BAFTA Albert í Bretlandi og Hamburg Film Institute í Þýskalandi. Verður Tryggð því fyrsta íslenska kvikmyndin sem hlýtur slíka vottun að sögn Evu. Til að mynda eru allar plastflöskur og einnota pappamál sniðgengin svo dæmi séu tekin. Í staðinn fá allir starfsmenn myndarinnar fjölnota kaffibolla og vatnsflöskur. Einnig hefur gripið um sig hjólreiðabylgja meðal tökuliðsins.

Loks skal nefna að tökulið og aðal leikarar taka virkan þátt í að fjármagna verkið í gegnum svokallaða teymisfjármögnun (crew funding) sem var kynnt í gegnum fyrirtækið Big Couch í sumar á opnum fundi (sjá frétt Klapptrés um þetta hér). Eva lýsir teymisfjármögnunaruppstillingunni svo:

  • Allir í tökuliði, eftirvinnslu og aðal leikarar, ásamt framleiðendum og leikstjóra taka þátt.
  • Allir víkja ákveðnum prósentum af launum sínum, en auðvitað eru launin mis há. Allir víkja sömu prósentutölu.
  • Allir fá smá eignarhlut í myndinni, þ.e. prósentur í gróða, sem að reiknast út frá hversu marga daga þau unnu og á hvað háum launum.
  • Víkjandi gjöld verða greidd til allra á ‘sama tíma’ eða í svokallað ‘favoured nations’, þ.e. peningurinn dreifist á alla sem taka þátt í crew funding á sama tíma, en það er mismikið sem fólk fær útfrá því hvað launin voru há.
  • Fyrirtækið Big Couch sér um samskipti við crewið, og sér svokallað ‘Collection Account Management Agency’ um greiðslur á víkjandi greiðslum og svo þegar það er upp greitt, greiðslu á gróða í samrými við eignarhlut. 

Um söguna

Tryggð segir frá Gísellu, fertugri konu sem býr ein í húsi ömmu sinnar í Vesturbæ Reykjavíkur. Þegar hún missir vinnu sem blaðamaður ákveður hún að leigja erlendum konum, þeim Marisol, Abebu og Lúnu, sjö ára dóttur Abebu, herbergi í húsinu sínu. Sambúðin gengur vel til að byrja með en versnar smám saman þegar Gísella setur stöðugt nýjar reglur fyrir leigjendur sína.

Leikarar, starfslið og aðrir sem að koma

Elma Lísa Gunnarsdóttir fer með hlutverk Gísellu, en önnur stærstu hlutverk myndarinnar eru í höndum óreyndra leikkvenna, þeirra Raffaellu Brizuelu Sigurðardóttur í hlutverki Marisol, Enid Mbabazi í hlutverki Abebu og Claire Hörpu Kristinsdóttur í hlutverki Lúnu. Með önnur hlutverk fara m.a. Theodór Júlíusson, Sólveig Guðmundsdóttir, Sveinn Ólafur Gunnarsson og Valur Freyr Einarsson.

Ásgrímur Guðbjartsson sér um kvikmyndatöku, Ragna Fossberg sér um förðun, Helga Jóakimsdóttir sér um búninga, Stígur Steinþórsson er leikmyndahönnuður og Andri Steinn Guðjónsson klippir.

Myndin er fjármögnuð með styrk frá Kvikmyndamiðstöð Íslands og endurgreiðslu frá Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, ásamt því að RÚV hefur forkeypt sýningarrétt. Sena sér um dreifingu á íslandi.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR