Tökur á „Ófærð 2“ hafnar 

Ólafur Darri Ólafsson og Baltasar Kormákur við tökur á Ófærð 2. (Mynd: RÚV)

Tökur á Ófærð 2 hófust á Siglufirði um helgina. RÚV heimsótti tökuliðið og ræddi við helstu aðstandendur og leikara.

Í frétt RÚV segir meðal annars:

„Það er ótrúlega gaman að vera kominn aftur til Siglufjarðar og við byrjum í mjög góðri senu. Það er mjög óhugnanlegt að byrja með 40 dauðar rollur, en einhversstaðar verður maður að byrja,“ segir Baltasar Kormákur, leikstjóri og framleiðandi. „Það er verið að mótmæla virkjanaframkvæmdum og hugsanlega byggingu álvers. Og það er komið hérna á torgið á Siglufirði og bændur eru brjálaðir. Og þetta setur af stað atburðarrás sem ekki fær séð fyrir endann á.“

[…]

Ólafur Darri Ólafsson, sem leikur Andra, eina aðalpersónu þáttanna, segir það þakklátt og skemmtilegt að bregða sér aftur í hlutverk Andra. Hann sé búinn að kynnast honum betur, sem og hinum persónunum.

„Manni líður svolítið eins og fjölskyldan sé að koma saman aftur. Það er æðislegt,“ segir hann. „Við höfum gert þetta áður. Þetta er sjúklega erfitt. Þetta er eins og að hlaupa mjög, mjög langt maraþon, alveg extralangt. En þetta er ótrúlega skemmtilegt og ég held að við séum öll rosalega stolt af því sem við gerðum í fyrsta skipti með Ófærð 1 og ég held að við ætlum okkur að gera enn betur í þetta skipti.“

[…]

Sigurjón Kjartansson er handritshöfundur Ófærðar, en auk hans skrifa Yrsa Sigurðardóttir, Clive Bradley og Margrét Örnólfsdóttir.

„Við förum kannski aðeins um víðari völl heldur en bara þennan bæ. Förum dálítið upp í sveitir í nágrenninu. Og dálítil Íslandssaga sem við erum að fara að sjá,“ segir Sigurjón. „Og nóg af hörmungum, dauða og skelfingu.“

Sjá nánar hér: „Nóg af hörmungum, dauða og skelfingu“ 

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR