Viðhorf | Ögn um sköpunarferli, orðspor og viðtökur „Blade Runner 2049“

Í sumar spurðist út að sjálfur Hans Zimmer hefði verið fenginn til að leggja til tónlist við Blade Runner 2049, en hugmyndin var að tónlist Jóhanns Jóhannssonar yrði einnig með. Síðsumars kom svo í ljós að Jóhann yrði ekki með en annað tónskáld, Benjamin Wallfisch, bættist við. Hvað gerðist eiginlega?

Tónlist Jóhanns lá fyrir

Samkvæmt heimildum sem ég tel áreiðanlegar mun Jóhann hafa meira og minna lokið vinnslu tónlistar fyrir Blade Runner 2049 eftir tæplega tveggja ára vinnu. Leikstjórinn, Denis Villenueve, mun hafa verið mjög ánægður með tónlist Jóhanns og spilaði hana fyrir leikarana reglulega meðan á upptökum stóð. Þá skilst mér að tónlist Jóhanns sé að finna í kitlu myndarinnar sem kom út í lok síðasta árs.

Villeneuve og Jóhann hafa unnið saman þrjár kvikmyndir áður; Prisoners, Sicario og Arrival. Samstarf þeirra mun hafa verið afar gott. Villeneuve hefur og lagt á það áherslu í viðtölum varðandi þetta mál að hann virði Jóhann mikils og vonist til að eiga með honum frekara samstarf. Hér er tilvitnun frá Al-Arabiya English:

“The thing I will say is that making movies is a laboratory. It’s an artistic process. You cannot plan things. Jóhann Jóhannsson is one of my favorite composers alive today. He’s a very strong artist. But the movie needed something different, and I needed to go back to something closer to Vangelis. Johan and I decided that I will need to go in another direction—that’s what I will say. I hope I have the chance to work with him again because I think he’s really a fantastic composer.”

Með þeim fyrirvara að hér er um getgátur að ræða, bendir varkárt orðalag Villeneuve – sem og það sem fram kemur hér að ofan – til þess að þrýstingur frá framleiðendum hafi spilað inní. Slíkt er bæði gömul saga og ný, í raun ofur venjuleg uppákoma í heimi kvikmyndanna. Kvikmyndir eru samvinnuverkefni, margir koma að hinum skapandi þáttum. Tekist er á um útfærslur, áherslur og hvað eina annað. Hægt er að bollaleggja fram og aftur um þetta en látum það vera í bili; niðurstaðan hefur orðið sú að láta tónlist nýju myndarinnar taka mið af hinni eldri. Það þarf ekki að koma á óvart þó ef til vill hefði verið áhugavert að sjá aðra leið fetaða.

Orðspor og viðtökur

Orðspor upprunalegu myndarinnar byggist að verulegu leyti á ástríðu tiltölulega þröngs hóps aðdáenda; þeir hafa gert hana að íkoni í kvikmyndasögunni. Tónlist Vangelis er afar stór hluti af þessu og ljóst að það yrði snúið að koma í kjölfar hennar. Hinir gallhörðu aðdáendur eru jafnframt sá hópur sem helst þarf að hafa sæmilega sáttan, sé svo ekki getur hann haft verulega neikvæð áhrif á viðtökur myndarinnar. Hér má vísa til þess þegar Star Wars maskínan var endurræst fyrir nokkrum árum. Fenginn var til verksins JJ Abrams sem meðal annars hafði endurræst Star Trek myndaflokkinn með góðum árangri; bæði harðir aðdáendur og nýir áhorfendur urðu kátir. Sama gerðist með Star Wars: The Force Awakens.

Nú hefur komið’ í ljós að aðdáendur hinnar upphaflegu Blade Runner eru einnig sáttir, sem og gagnrýnendur og margir aðrir – en það dugar ekki til. Myndin er að opna langt undir væntingum, en er þó í fyrsta sæti í Bandaríkjunum eftir opnunarhelgina og í öðru sæti á veraldarvísu.

Deadline gerir því skóna í nokkuð ítarlegri umfjöllun hér og hér að það hafi ekki verið skynsamleg ákvörðun að gera mynd sem kosti vel á annað hundruð milljóna dollara fyrir tiltölulega þröngan markhóp (karlar 25 ára og eldri eru stærsti einstaki hópurinn sem sótti sýningar um helgina). Í kynningu hafi og verið gert ráð fyrir því að almenn þekking ríkti á sagnaheiminum, en það hafi verið byggt á misskilningi – sú þekking sé bundin við mun þrengri hóp aðdáenda.

Viðtökur Blade Runner 2049 minna nokkuð á viðtökur Blade Runner sem frumsýnd var 1982. Hún hlaut mikla athygli í kynningu en aðsókn var í besta falli sæmileg. Hér má sjá ýmsar upplýsingar um aðsóknina, meðal annars að hún hafi verið 25. vinsælasta mynd ársins. Dómar voru mun blendnari en nú. Á Wikipedia síðu myndarinnar er farið nokkuð vel í þetta atriði sem og viðtökusögu myndarinnar gegnum árin.

Sjálfur man ég þetta ágætlega. Hreifst af myndinni og skildi ekki afhverju hún var ekki lofuð meira en raun bar vitni. Ég er líka í þeim hópi sem heldur uppá upprunalegu útgáfu myndarinnar með voice-overi Harrison Ford (því var þröngvað uppá Scott og Ford af stúdíóinu). Hinar útgáfurnar eru líka fínar en bötnuðu ekkert sérstaklega við að fjarlægja voice-overið. Kannski heyrði ég það alltaf í síðari útgáfunum. Ekki endilega orðin, heldur andblæinn. Sögnin í hinu sjónræna (og hljóðræna) var og er sterkasti þáttur myndarinnar, það sem var sýnt og það sem var gefið í skyn – heimurinn utan rammans ekki síður en það sem birtist innan hans. Sagan var hinsvegar kunnugleg, gamalt noir vín í nýjum cyberpönk belg.

En aftur að Blade Runner 2049. Annar Íslendingur kemur við sögu myndarinnar, en það er enginn annar en leikarinn Tómas Lemarquis sem fer með lítið hlutverk. Hér er hann með Ryan Gosling:

Margt að gerast hjá Jóhanni

Af Jóhanni er hinsvegar ýmislegt að frétta. Meðal verkefna sem hann vinnur að er kvikmyndin Mandy þar sem Nicholas Cage fer með aðalhlutverk. Leikstjóri er Panos Cosmatos, sonur hins kunna hasarmyndaleikstjóra George Pan Cosmatos, hvers frægðarsól skein skærast á áttunda og níunda áratug síðustu aldar með myndum á borð við The Cassandra Crossing, Cobra, Tombstone og Rambo II. Jóhann vinnur einnig að The Mercy í leikstjórn James Marsh, en þeir unnu saman áður að The Theory of EverythingColin FirthRachel Weisz og David Thewlis fara með aðalhlutverk. Þá er í vinnslu kvikmyndin Mary Magdalene í leikstjórn Garth Davis (Lion) en Rooney Mara, Joaquin Phoenix og Chiwetel Ejiofor fara með helstu hlutverk.

 

Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson er kvikmyndagerðarmaður og ritstjóri Klapptrés.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR