Ingvar Þórðarson um „Lof mér að falla“ og leynivopn Íslands

Ingvar Þórðarson og Júlíus Kemp.

Ingvar Þórðarson framleiðandi ræðir við vef Norræna sjóðsins um verkefnin framundan, Lof mér að falla, Lifun (Imagine Murder) og önnur sem eru í þróun. Hann segir markmið þeirra Júlíusar Kemp hjá Kvikmyndafélagi Íslands það sama og frá byrjun; að segja sterkar sögur, gjarnan byggðar á raunverulegum atburðum, uppgötva hæfileikafólk og rækta það.

Baldvin Z. er nú að klára tökur á Lof mér að falla, fjórða verkefninu með þeim Ingvari og Júlíusi (hin eru stuttmyndin Hótel Jörð, Órói og Vonarstræti). Lof mér að falla er byggð á sönnum atburðum og segir frá vinkonunum Magneu og Stellu hvers líf tekur stakkaskiptum þegar þær kynnast. Stella dregur Magneu inní heim eiturlyfja sem hefur alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir stúlkurnar. Fimmtán árum síðar hittast þær á nýjan leik.

„Baldvin er frábær leikaraleikstjóri og við erum mjög stoltir að hafa fengið til liðs við hann úrval íslenskra leikara, þar á meðal Þorstein Bachmann, Ólaf Darra Ólafsson og Láru Jóhönnu Jónsdóttur, en einnig tvær ungar afbragðs leikkonur, Elínu Sif Halldórsdóttur (Magnea ung) og Eyrúnu Björk Jakobsdóttur (Stella ung),“ segir Ingvar.

Sena mun dreifa myndinni hér á landi næsta haust, en kostnaðaráætlun nemur um 400 milljónum króna. Solar Films í Finnlandi meðframleiða en Kvikmyndafélag Íslands hefur starfað með þeim um árabil. Myndin er styrkt af Kvikmyndamiðstöð, RÚV og Norræna sjóðnum.

Leynivopn Íslands

Ingvar og Júlíus vinna einnig að undirbúningi kvikmyndarinnar Lifun (Imagine Murder) sem Eagle Egilsson (Egill Örn Egilsson) mun leikstýra. Jón Atli Jónasson gerir handritið sem byggt er á Geirfinnsmálinu. Ingvar segir Jón Atla hafa rannsakað þetta efni um árabil ásamt þýskum rannsóknarlögreglumanni sem kominn sé á eftirlaun. Nýir fletir á málinu verði settir fram í myndinni.

Hinn íslensk/sænski Sverrir Guðnason, sem nú fær frábæra dóma fyrir frammistöðu sína í Borg vs McEnroe mun fara með lykilhlutverk ásamt Þorsteini Bachmann.

„Eagle Egilsson er leynivopn Íslands,“ segir Ingvar. „Hann flutti til Bandaríkjanna fyrir 30 árum og hefur unnið þar sem leikstjóri og tökumaður á mörgum af stærstu þáttaröðunum, þar á meðal CSI: Miami. Nú snýr hann heim til að leikstýra sinni fyrstu íslensku mynd.“

Damon Albarn, forsprakki Blur og Gorillaz og góðkunningi Ingvars til margra ára, mun einnig taka þátt í verkefninu. Kostnaður nemur um 500 milljónum króna og verður myndinni dreift á Norðurlöndunum af Scanbox. Vonir standa til að hefja tökur á næsta ári.

Sjá nánar hér: Icelandic Film Co Hires stellar cast for Let Me Fall, musician Damon Albarn for Imagine Murder

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR