Áhugaverðast á RIFF 2017

Dagskrárbæklingur RIFF er kominn út (en dagskráin enn ekki komin á vef RIFF, fjórum dögum fyrir hátíð). Ásgrímur Sverrisson fór í gegnum bæklinginn og tíndi út það áhugaverðasta. Þó skal hafa í huga að margt spennandi getur leynst víða í dagskránni og ekki nema sjálfsagt að taka sénsinn.

(Lýsingar á myndum fengnar frá RIFF, stundum skýt ég inn eigin athugasemdum).

Faces PlacesAgnés Varda og JR
Ný mynd frá Agnès Varda telst ávallt til tíðinda og þessi fékk mjög góðar viðtökur á Cannes í vor. Varda og JR eiga það sameiginlegt að hafa mikla ástríðu fyrir myndum. Agnès valdi kvikmyndir. JR valdi að búa til ljósmyndagallerí undir berum himni. Þegar þau hittust árið 2015 ákváðu þau strax að gera kvikmynd saman í Frakklandi, langt frá öllum borgum.

VetrarbræðurHlynur Pálmason
Opnunarmynd RIFF. Frumsýnd í Locarno í lok sumars og hlaut þar fern verðlaun. Umsagnir hafa verið gegnumgangandi mjög góðar. Segir frá bræðrum sem búa í einangraðri verkamannabyggð. Yngri bróðirinn lendir í deilum við vinnufélagana og stigmagnandi útskúfun hans í framhaldinu reynir á samstöðu bræðranna. Þegar eldri bróðirinn virðist hafa unnið ástir draumastúlku þess yngri fer óhefluð atburðarás af stað. Saga um skort á ást og löngun eftir því að vera elskaður og þráður.

BPM (Beats per Minute) – Robin Campillo
Hvað þarf til að berjast gegn heimsfaraldri? Þekkingu, hugrekki og þrautseigju en líka heilbrigt magn af gálgahúmor og háværri tónlist og kynlífi til að byggja upp sálina. Myndin fjallar um alnæmis aðgerðarsinna í París á 10. Áratugnum. Myndin hlaut Grand Prix verðlaunin í Cannes.

Sámi BloodAmanda Kernell
Elle Marja er 14 ára samísk stelpa, upplifir kynþáttafordóma í heimarvistarskólanum sínum fer hana að dreyma um annað líf. Til að öðlast það þarf hún að verða önnur manneskja og slíta tengslin við menningu sína. Myndin vann Europa Cinemas Label og FEDEORA verðlaunin.

BrexitanniaTimothy George Kelly
Brexitannia dregur upp félagsfræðilega mynd af Bretlandi eftir söguleg úrslit Brexit-kosninganna árið 2016. Fyndin, en á köflum ógnvekjandi og fordómalaus sýn á hina nýju lýðskrums – pólítík sem tröllríður vestrænum lýðræðisríkjum.

Tom of FinlandDome Karukoski
Sönn saga um hvernig finnski listamaðurinn Touko Laaksonen hlaut alþjóðlega frægð fyrir teikningar sínar af óþvinguðum, stoltum og vöðvastæltum hommum. Hann merkti myndirnar með nafninu „Tom of Finland“. Myndirnar urðu vinsælar víða og settu aukinn kraft í hreyfingu samkynhneigðra. Myndin vann FIPRESCI verðlaunin í Gautaborg og er framlag Finnlands til Óskarsverðlauna sem besta erlenda myndin. Ingvar Þórðarson er einn meðframleiðenda, Hildur Guðnadóttir semur tónlistina og Þorsteinn Bachmann fer með hlutverk í myndinni.

Irma VepOlivier Assayas
Ein af allra áhugaverðustu myndum Assayas, sýnd í tilefni heimsóknar hans hingað. Gerð 1996. Leikstjóri, sem má muna fífil sinn fegurri, ákveður að endurgera Les Vampires eftir Louis Feuillade. Hann ræður hasarmyndaleikkonu frá Hong Kong, sem talar enga frönsku, í hlutverk í þáttunum. Á tökustað ríkir óreiða og leikkonan kynnist þar leynimakki, egóistum og konu í búningadeild sem er skotin í henni.

Clouds of Sils MariaOlivier Assayas
Þessi næst nýjasta mynd Assayas (gerð 2014) er ekki síður sterk og áleitin. Sýnd í Bíó Paradís á sínum tíma. Maria Enders (Juliette Binoche) er beðin að leika í endursviðsetningu á leikritinu sem gerði hana fræga fyrir tuttugu árum. Ung Hollywood stjarna (Chloë Grace Moretz) á að leika gamla hlutverkið hennar Mariu. Maria stendur skyndilega andspænis óþægilegri spegilmynd sjálfrar sín. Myndin hlaut tilnefningu til Gullpálmans. (Vert er að geta þess að meðan á RIFF stendur sýnir Bíó Paradís nýjustu mynd Assayas, Personal Shopper með Kristin Stewart í aðalhlutverki en Stewart fer einnig með annað aðalhlutverkið í Clouds of Sils Maria.)

Aki Kaurismaki – yfirlitssýningar
Finnskar myndir eru í fókus þetta árið á RIFF og í tilefni af því fara meðal annars fram yfirlitssýningar á myndum meistarans Aki Kaurismaki (sem einmitt fékk heiðursverðlaun RIFF fyrir nokkrum árum). Þetta eru allt meistaraverk og nauðsynlegt að sjá – jafnvel aftur: Í Hamlet Goes Business (1987) segir af ótrúlegum ævintýrum kaldlynds en viðkvæms ungs manns. Myndin er einstakur óður til verka Shakespeare. Á meðan grætur Ófelía í horni baðherbergis síns. Hver mun bera sigur af hólmi og hverjir munu kveljast í þessari klassísku b-mynd? Það er ekki okkar að dæma… Henri Boullenger vill deyja í I Hired a Contract Killer (1990) og eftir misheppnaðar tilraunir til sjálfsmorðs, ákveður hann að ráða leigumorðingja til verksins. Meðan hann bíður morðingjans gerir hann þau mistök að tala í sig kjark til að eiga stefnumót við konu í fyrsta sinn. Hamingjan er handan við hornið, en því miður reynist ekki hægt að rjúfa samninginn við leigumorðingjann. Jean Pierre Leaud fer algerlega á kostum. Í The Match Factory Girl (1989) fer Kati Outinen með hlutverk Iris, stúlku sem vinnur í verksmiðju og er misnotuð af öllum í kringum hana, allt frá stjúpföður hennar til atvinnurekandans. En þrátt fyrir mótlæti í grimmum heimi sætti Iris sig ekki við örlög sín þegjandi – hún leitar hefnda.

Borg vs. McEnroeJanus Metz
Árið 1980 bíður heimurinn eftir því að sjá besta tennisspilara heimsins, Björn Borg, vinna sinn fimmta Wimbledon-titil. Aðeins 24 ára er Borg útkeyrður og haldinn kvíða. Helsti andstæðingur hans, hinn tvítugi John McEnroe, er ákveðinn í að taka við Wimbledon-titli fyrrum hetju sinnar. Þetta er saga um tvo menn sem urðu stórstjörnur og hvað það kostaði þá. Hinn íslensk/sænski Sverrir Guðnason leikur Borg, Shia LaBeouf er McEnroe. Myndin hefur fengið fína dóma, t.d. hjá The Guardian.

Werner Herzog – yfirlitssýningar
Herzog er einn af risum kvikmyndanna og kemur hingað sem heiðursgestur. Hann heldur meistaraspjall í Háskólabíói, laugardaginn 30. september kl. 14. Athygli vekur að selt er inná viðburðinn – sem jafnframt er styrktur af Goethe Institut – og kostar miðinn 2.200 kr. en þetta er í fyrsta sinn sem RIFF selur sérstaklega inná meistaraspjall. Í tengslum við komu hans verða sýndar myndirnar Aguirre, Wrath of God (1972), eitt af helstu meistaraverkum kvikmyndasögunnar; Fitzcarraldo (1982) og heimildamyndirnar Grizzly Man (2005), Into the Inferno (2016 – meðal annars tekin upp á Íslandi) og Lo and Behold: Reveries of the Connected World (2016).

MiracleEgle Vertelyte
Þessi splunkunýja mynd frá Litháen var sýnd á nýliðinni Toronto hátíð og meðframleidd af góðum kunningjum mínum frá Búlgaríu. Irena er á barmi gjaldþrots. Hún er eigandi svínabús sem stendur vart undir sér, í pínulitlum bæ sem áður var undir kommúnistastjórn. Hún fær aðstoð úr óvæntri átt þegar myndalegur Bandaríkjamaður birtist og virðist vera svar við öllum hennar bænum.

Íslenskar stuttmyndir I-IV
Sýningar á nýjum íslenskum stuttmyndum hafa verið fastur liður á dagskrá RIFF og þar hefur verið hægt að skanna grasrótina í íslenskri kvikmyndagerð, upprennandi fólk sem síðar tekst á við stærri verkefni. Á síðari árum hefur dagskrárstjórn þessa liðs þó verið nokkuð ábótavant; of margar myndanna hafa ekki átt þangað erindi, en vissulega fín verk innan um. 23 myndir eru sýndar í fjórum hollum að þessu sinni, man ekki til að þau hafi verið svona mörg áður en það kann þó að vera. Myndir eftir konur eru áberandi (9 af 23, nær 40%) og sýnir að þær eru að gera sig gildandi í auknum mæli. Þeirra á meðal eru Elsa María Jakobsdóttir sem sýnir Atelier, útskriftarmynd sína frá Danska kvikmyndaskólanum; Þóra Hilmarsdóttir sýnir Frelsun, Vala Ómarsdóttir sýnir Mamma ætlar að sofna; Eva Sigurðardóttir sýnir Cut; Munda Tinnu Hrafnsdóttur verður sýnd á Kvikmyndahátíðinni í Varsjá á næstunni og Ugla Hauksdóttir sýnir útskriftarverk sitt frá Columbia University, How Far She Went.

Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson er kvikmyndagerðarmaður og ritstjóri Klapptrés.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR