RÚV um „Undir trénu“: Ástarsaga úr skandinavíska raunsæiseldhúsinu

Edda Björgvinsdóttir, Steinþór Steinþórsson og Sigurður Sigurjónsson í Undir trénu.

Undir trénu er ástarsaga úr skandínavíska raunsæiseldhúsinu. Spurningar um eðli sambanda, væntingar til maka og fjölskyldu og lífsins sjálfs eru meðal þess sem er velt við og skoðað, og er spurningunum í einhverjum tilfellum svarað af mikilli næmni, en án allrar væmni,“ segir Nína Richter á Rás 2 RÚV meðal annars og gefur myndinni fjóra og hálfa stjörnu.

Í umsögn segir:

Elskuðustu gamanleikarar þjóðarinnar sýna á sér nýjar hliðar undir styrkri leikstjórn Hafsteins Gunnars Sigurðssonar sem hefur með þessari mynd sent frá sér sitt besta verk hingað til.

Agnes og Atli eru par og eiga fjögurra ára gamla dóttur. Í upphafi sögu stendur Agnes Atla að verki um hánótt við að horfa á gamalt kynlífsmynd af sjálfum sér og gamalli kærustu. Í kjölfarið hendir Agnes Atla út. Á meðan Atli berst fyrir umgengnisrétti við dóttur sína upphefjast heiftúðlegar nágrannaerjur þar sem foreldrar Atla eiga í stríði við nágranna sína í næsta húsi.

Einkennandi handbragð

Sagan sem hér er sögð er vandmeðfarin og ekki fyrir hvern sem er að segja eða sýna. Myndin hleypur upp og niður tilfinningalitrófið og strax á fyrstu mínútum er búið að fylla áhorfandann viðbjóði, kæta hann og hræra. Myndin er þannig ferðalag sem kemur sífellt á óvart, en þrátt fyrir það er tekist á við erfiðu málin af augljósri virðingu fyrir persónunum. Hér er engin færibandavinna heldur hvert skref skoðað og útfært með einkennandi handbragði, en að auki er séð til þess að skapandi framlag leikhópsins fái að njóta sín, líkt og mikið hefur verið skrifað um. Margar klisjugildrur þarf að varast og auðvelt að fara út í væmni eða klúran hrottaskap, en höfundar hafa dansað framhjá því öllu og þökk sé góðu flæði í frásögninni kaupir áhorfandinn söguna án minnsta vafa.

Erindið annað og stærra

Það þarf mikla leikni til þess að skrifa marglaga og trúverðugar kvikmyndapersónur sem lenda í jafn sturluðum aðstæðum og hér, fimmaurabröndurum sem eiga líka að vera sannfærandi. Til þess þarf litríka baksögu sem þó má aldrei verða mötuð ofan í áhorfandann með skeið. Þarna bregst mörgum höfundinum bogalistin en Hafsteinn Gunnar og Huldar Breiðfjörð vita nákvæmlega hvað þeir eru að gera. Stóra baksagan, stærsta ástarsagan, einskonar forsenda alls sem á gengur, framkallast smám saman og leggst yfir atburðarásina eins og snjóföl, þannig að í lok sögu er erindið orðið annað og margfalt mikilvægara.

Inga er allar konur

Valið á leikurum myndarinnar er bæði frumlegt og faglega gert. Steinþór Hróar Steinþórsson, best þekktur sem grínarinn Steindi Jr., fer hér á kostum sem karlmaður af þúsaldarkynslóð í átakanlegri lífskrísu. Steindi kemur ánægjulega á óvart, en þetta er í fyrsta sinn sem hann tekur að sér stórt dramahlutverk. Samspil hans og Láru Jóhönnu Jónsdóttur sem leikur Agnesi, barnsmóðurina, er ótrúlega sannfærandi, og kemistrían á milli þeirra og þreytan í sambandinu virðist jafn áþreifanleg og poppkornið í bíóhúsinu. Maður finnur nánast lyktina af pirringnum sem hefur blómstrað óáreittur í skugganum af daglegu amstri og skyldum sem þarf að uppfylla. Edda Björgvinsdóttir í hlutverki Ingu er slíkur senuþjófur þessari mynd, að hún er samstundis orðin að einhverskonar minni í íslenskri kvikmyndasögu. Hún er allar konur, á sama tíma og hún óskar sér að vera allt önnur en hún er. Persónan hatar sjálfa sig svo áþreifanlega, hún er svo gegnsýrð af sektarkennd að það er á köflum erfitt að fylgjast með, en algjörlega ómögulegt að líta undan. Við þekkjum öll þessa Ingu, þessar Ingur eru allt í kringum okkur.

Allir skína, með passlegt pláss

Allar persónurnar í myndinni eiga í baráttu við að gangast upp í fyrirframgefnum hlutverkum á annara forsendum en sínum eigin, hlutverkum sem þau trúa ef til vill ekki alveg að þau geti sinnt. Það sama má hinsvegar alls ekki segja um leikhópinn, en þar er stjarna í hverju horni, með rými til að skína og passlega mikið pláss á dansgólfinu.

Í grunninn er myndin ástarsaga, en ekki í hefðbundnum skilningi. Hún snýst um eitt af þessum mikilvægustu og langlífustu ástarsamböndum sem við eigum á lífsleiðinni, ástinni á sjálfum okkur og mikilvægi þess að sýna eigin tilfinningum virðingu og gefa þeim pláss, svo að ekki fari allt til fjandans.

Sjá nánar hér: Ástarsaga úr skandinavíska raunsæiseldhúsinu

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR