DV um „Undir trénu“: Hláturinn og samviskubitið

Steindi jr. og Lára Jóhanna Jónsdóttir í Undir trénu.

„Undir trénu snertir á flestum þeim mannlegu tilfinningum sem til eru. Maður hlær, verður sorgmæddur, verður vandræðalegur, fyllist óhug og meira segja ógleði,“ segir Kristinn H. Guðnason í DV.

Úr umsögn:

Undir trénu dansar ekki aðeins á línunni heldur tekur stór stökk yfir hana. Myndin er svo fyndin á köflum að fólk skellir upp úr, jafnvel í miðjum atriðum sem ættu annars ekki að vekja kátínu. En síðan koma atriði sem eru svo sorgleg og erfið að maður fær samviskubit yfir því að hafa hlegið að þeim fyndnu. Þetta er tragi-kómedía af ýktustu sort.

Undir trénu er í raun tvær sögur sem tvinnast saman. Önnur fjallar um parið Atla og Agnesi sem standa frammi fyrir skilnaði þegar Agnes telur sig hafa komist að framhjáhaldi Atla. Sambandsslitin eru erfið í ljósi þess að þau eiga saman dóttur á leikskólaaldri.

Hin sagan er deila foreldra Atla við nágranna sína í Hvassaleitinu. Kveikja deilunnar er tré sem stendur í garði þeirra og skyggir á pall grannanna. Fyrir misskilning stigmagnast þessi deila uns ekki verður aftur snúið. Deilan er knúin áfram af konunum á meðan karlarnir kóa með. Hér er því um augljósa tilvísun í Brennu-Njáls sögu og deiluna milli Hallgerðar og Bergþóru.

Edda og Lára hreyfa við manni

Atli er leikinn af Steinþóri Hróari Steinþórssyni (Steinda Jr.) og foreldrar hans, sem hann flytur inn á, eru leiknir af Eddu Björgvinsdóttur og Sigurði Sigurjónssyni. Þetta eru allt saman landsþekktir gamanleikarar sem settir eru í dramatískar aðstæður. Yfir fjölskyldunni hvílir skuggi hvarfs eldri bróður Atla, sem allir vita þó að fyrirfór sér. Þetta leggst sérstaklega þungt á móðurina Ingu sem maður sér strax að er mjög skemmd persóna. Faðirinn Baldvin ber harm sinn í hljóði og hann er sú persóna sem reynir að stilla til friðar í báðum sögum myndarinnar.

Nágrannarnir Konrad og Eybjörg, leiknir af Þorsteini Bachman og Selmu Björnsdóttur, eru nýgiftir og glíma einnig við sín vandamál, það er að reyna að eignast barn þrátt fyrir að vera komin á aldur.

Atli fær flestar mínútur enda er hann lykilpersóna í báðum sögunum. Inga er hins vegar sú persóna sem vekur mesta athygli enda er Edda leikkona sem krefst þess að fólk taki eftir henni. Hún leikur þetta hlutverk af stakri snilld og maður finnur vel til með henni. Jafnframt skilur maður að hún er ekki í jafnvægi og trúandi til alls.

Senuþjófur myndarinnar er hins vegar Agnes sem er leikin snilldarlega af Láru Jóhönnu Jónsdóttur sem hefur ekki verið þekkt fyrir kvikmyndaleik hingað til. Framan af myndinni er hún algerlega stjörf, viðbragð við framhjáhaldi sem virðist algerlega mannlegt en sést þó sjaldan í kvikmyndum. Þegar á líður lemur hún frá sér og Lára leikur það jafn vel og stjarfleikann.

Niðurstaða

Undir trénu snertir á flestum þeim mannlegu tilfinningum sem til eru. Maður hlær, verður sorgmæddur, verður vandræðalegur, fyllist óhug og meira segja ógleði. En bíó af þessu tagi á heldur ekki að vera auðvelt. Maður finnur vel til með flestum persónunum og það var mjög líklega takmarkið allan tímann.

Sjá nánar hér: Hláturinn og samviskubitið – DV

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR