spot_img

“Tom of Finland” framlag Finna til Óskars

Tom of Finland eftir Dome Karukoski hefur verið valin framlag Finna til Óskarsverðlaunanna. Ingvar Þórðarson og Sophie Mahlo, sem reka framleiðslufyrirtækið Neutrinos Productions í Berlín, eru meðframleiðendur myndarinnar. Þá semur Hildur Guðnadóttir tónlist myndarinnar og Þorsteinn Bachmann fer með eitt hlutverkanna.

Myndin byggir á ævi Touko Laaksonen, sem varð einn helsti íkon samkynhneigðra undir listamannsheitinu Tom of Finland. Hún hefst þegar hann snýr aftur til Helsinki eftir að hafa gegnt herþjónustu í seinni heimsstyrjöldinni. Þar var hann ofsóttur fyrir kynhneigð sína og neyddur til að giftast konu en uppgötvar síðan frelsi gegnum listsköpun, sér í lagi með teikningum af vöðvastæltum karlmönnum í djörfum stellingum. Verk hans urðu síðan kunn um veröld víða og urðu hluti af mannréttindabaráttu samkynhneigðra í Bandaríkjunum og víðar.

Aleksi Bardy, sem jafnframt skrifar handritið, Miia Haavisto og Annika Sucksdorff hjá Helsinki Film eru framleiðendur. Gunnar Carlsson hjá Anagram Väst í Svíþjóð og Miriam Nørgaard hjá Fridthjof Film í Danmörku eru meðframleiðendur ásamt Ingvari og Sophie í samvinnu við Mike Downey og Sam Taylor hjá Film and Music Entertainment (F&ME) í Bretlandi.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR