Guðmundur Arnar um „Hjartastein“: Veröld sem minnkar og þrengist með aldrinum

Guðmundur Arnar Guðmundsson (Ljósmynd: Fréttablaðið/Anton Brink).

Fréttablaðið ræðir við Guðmund Arnar Guðmundsson leikstjóra og handritshöfund Hjartasteins um myndina og hugmyndirnar bakvið hana.

Viðtalið, sem Magnús Guðmundsson tekur, fer hér:

Ég eiginlega þurfti að skýra Hjartastein eitthvað og vissi satt best að segja ekki hvað ég ætti að gera. Þannig að ég fór bara á Google og leitaði þar að orðum sem mér fannst passa og enginn hefði notað áður. Svo fann ég þetta og ég hélt að þetta væri orð svo ég valdi það bara,“ segir Guðmundur Arnar Guðmundsson, leikstjóri og höfundur myndarinnar Hjartasteinn, sem var frumsýnd í vikunni við góðar undirtektir, og bætir við: „Þegar við vorum svo að fara í framleiðsluna þá var alltaf verið að spyrja mig út í þennan titil, ég hafði aldrei þurft að svara fyrir hann áður, og fólk var alltaf að koma með aðrar hugmyndir. En mér fannst þetta vera rétta nafnið enda búinn að venjast þessu. Svo fattaði ég að það eru þessar andstæður í myndinni, hún er bæði fyndin og dramatísk – hörð og hlý – þannig að þetta orð nær vel utan um hana. Þegar ég benti fólki á þetta þá hættu allir að hafa orð á þessu og biðja mig að breyta nafninu,“ segir Guðmundur og hlær glaðlega.

Samkvæmur sjálfum sér
Guðmundur segir að áhugi hans á listum hafi fyrst verið almennur og að hann hafi verið frekar leitandi í þeim efnum. „Fyrst var það ljósmyndun og svo skrif en líka leiklist og myndlist þannig að ég var orðinn svolítið ringlaður með hvað ég ætti að gera. Þá áttaði ég mig á því að kvikmyndagerð sameinaði þetta allt. Það var eiginlega ein mynd sem varð þess valdandi að ég kveikti á þessu, Fallen Angel eftir Wong Kar-Wai, algjörlega geðveik mynd sem ekkert margir hafa séð en ég kolféll fyrir henni. Áttaði mig á því að kvikmyndin væri minn miðill og það sem ég vildi gera.“

Stuttmyndin Hvalfjörður varð síðar fyrsta verk Guðmundar sem vakti eftirtekt en hann segir að áður en hann gerði hana hafi komið nokkrar æfingamyndir. „Ég var í myndlistarnámi í Listaháskólanum á þessum tíma og var að gera tilrauna­vídeó þar. Hvalfjörður var svo fyrsta alvöru verkefnið, fyrir utan eina stuttmynd sem ég gerði í Danmörku sem ég var ekki ánægður með og sýndi aldrei. Mér fannst þar að ég hefði ekki verið samkvæmur sjálfum mér, tók ákvörðun út frá ráðleggingu framleiðanda, en hefði betur staðið með sjálfum mér. Það angraði mig svo mikið að hafa gert mistök sem voru byggð á óöryggi að ég setti þessa mynd bara ofan í skúffu og hún fær að dúsa þar.“

Frelsi og fordómar
Guðmundur Arnar var að hluta til alinn upp úti á landi og hann segir að sá tími hafi haft mikil áhrif á hann og leitt til kveikjunnar að Hjartasteini en myndin er tekin á Borgarfirði eystri. „Ég er fæddur og uppalinn í Reykjavík en fluttist svo sex ára til Þórshafnar og var þar í tæp tvö ár og svo alltaf á sumrin. Stjúpfaðir minn, sem nú er látinn, var frá Þórshöfn og hann var mín tenging þangað og Hjartasteinn byggir að einhverju leyti á mínum uppvaxtarárum á Þórshöfn. Hún er svona innblásin af fjölskyldu minni og vinum þar en á sama tíma skáldverk.

Þórshöfn er líklega sá staður sem hafði mest áhrif á mig þegar ég var krakki, ég kom frá Reykjavík sem var gjörólíkt samfélag og krakkarnir einhvern veginn allt öðruvísi. Munurinn lá kannski í því að í Reykjavík var maður bara með sínum jafnöldrum en svo kem ég til Þórshafnar og þar voru allir saman óháð aldri, einfaldlega vegna þess að við vorum svo fá í það heila. Á Þórshöfn bjuggum við krakkarnir við alveg svakalegt frelsi, vorum að stela hestum, veiða og í alls konar ævintýrum þar sem bærinn og sveitin í kring var bara okkar leikvöllur.

En á meðan samfélagið bauð upp á allt þetta frelsi fyrir okkur krakkana þá var það rosalega þungt fyrir suma fullorðna. Ég tók eftir því þó svo ég væri bara krakki, að hluta af fullorðna fólkinu leið ekkert sérstaklega vel þarna. Og maður sá að veröld þess var öll miklu takmarkaðri og þrengri. Mamma mín varð einhleyp á þessum tíma og þá var hún bara allt í einu orðin hóra bæjarins, útmáluð fyrir það eitt að vera einhleyp, dæmd af mörgum í samfélaginu. Þannig að þetta var líka dálítið eins og að fara aftur í tímann. Þannig að á sama tíma og við krakkarnir nutum þessa rosalega frelsis þá sá ég veröld unglinganna minnka og þrengjast eftir því sem þau urðu eldri.“

Hjartasteinn segir frá tveimur góðum vinum, strákum sem eru að komast á unglingsárin, þegar annar þeirra finnur ákveðnar tilfinningar til vinar síns. „Á þessum tíma var samkynhneigð alls ekki samþykkt og margir opinberlega á móti samkynhneigðum. Þetta var afstaðan sem maður lærði hjá fullorðna fólkinu en ég held að þetta sé svo sannarlega mikið breytt, blessunarlega. Fólk sættir sig ekki við þessa fordóma lengur. En samt er það því miður enn þá þannig að vinahópurinn skiptir máli, eða öllu heldur, það skiptir máli hverja þú umgengst. Þegar ég spjalla við þessa ungu krakka sem ég hef unnið með segja þau mér að fordómarnir séu víða til staðar enn þá í ákveðnum hópum þó svo flestir séu búnir að brjótast undan þeim enda samfélagið miklu opnara. Það breytir því ekki að fyrir marga einstaklinga er það enn þá mjög stórt skref að koma út úr skápnum, og mikið vandamál. Það að vera öðruvísi en aðrir og falla ekki í normið er enn erfitt.“

Draumur og vinna Guðmundur segir að þegar hann var að leita sér að viðfangsefni hafi æskuvinur hans vitjað hans í draumi. „Hann kom til mín og þessi draumur var allur mjög sjónrænn og raunverulegur og þetta var í fyrsta skipti sem mig dreymdi hann eftir að hann dó. Í draumnum erum við staddir á Þórshöfn og hann leiðir mig í gegnum bæinn og réttir mér kort sem hann er búinn að teikna af bænum. Svo förum við bara að leika okkur og erum í þessu frelsi æskunnar. Þegar ég vaknaði af þessum draumi þá fannst mér hann vera eitthvað svo táknrænn og fór mikið að hugsa um þennan tíma í lífi mínu. Og þá komu allar þessar senur til mín, það var eins og einhver flóðgátt hefði opnast og ég byrjaði að skrifa. Flóðið var svo rosalegt að handritið varð allt of langt, fyrsta uppkastið var þrjú hundruð blaðsíður og ég var í miklum vandræðum með að skera þetta niður því mér fannst þetta svo gaman. Þetta var fyrir tíu árum svo þetta er búið að vera langt og skemmtilegt ferðalag.“

En skyldi Guðmundur þá sjá fyrir sér að halda áfram að vinna með líf sitt og drauma sem yrkisefni í næstu verkefnum? „Það er auðvelt fyrir mig að nota mitt eigið líf sem ákveðinn grunn, eins og ég gerði í Hjartasteini. Maður byrjar þar en svo vaxa verk og breytast í ferlinu. Persónurnar eignast sitt eigið líf á leiðinni og heimurinn verður sjálfstæðari eftir því sem maður vinnur sögusviðið meira. Það er líka ástæðan fyrir því að mér fannst Borgarfjörður eystri henta sögunni betur en Þórshöfn sem hefur breyst mikið frá því að ég var þar sem gutti. Mig langar líka til þess að hrósa Borgfirðingum. Fólkið þar er yndislegt og reyndist okkur vel. Þessi staður er sannkallaður demantur.

Og já, ég læt drauma og innsæi alveg hiklaust ráða för og mér finnst það hreint út sagt vera bæði þægilegt og einfalt. Vegna þess að þegar ég geri það þá hef ég meiri orku til að vinna, en alltaf þegar ég er eitthvað meira í hausnum að rembast við að fá einhverja vitræna hugsun og vinna mínar hugmyndir þannig þá missi ég áhugann á þeim hægt og rólega. Málið er að ég held að ég sé smá latur að eðlisfari nema þegar ég er að gera nákvæmlega það sem mig langar til þess að gera. Annars nær letin tökum á mér.“

Source: visir.is

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR