“Elle” eftir Paul Verhoeven opnunarmynd Franskrar kvikmyndahátíðar 2017

Franska kvikmyndahátíðin fer fram dagana 27. janúar – 10. febrúar í Reykjavík og 28. janúar – 3. febrúar á Akureyri. Sýndar verða 11 myndir, 10 franskar og ein kanadísk. Að hátíðinni standa Franska sendiráðið og Alliance française í Reykjavík, í samstarfi við Háskólabíó, Institut français og kanadíska sendiráðið.
Opnunarmynd hátíðarinnar er nýjasta kvikmynd Pauls Verhoevens, Elle (2016). Hún tók þátt í keppni á Cannes kvikmyndahátíðinni 2016 og var tilnefnd af Frakklands hálfu til Óskarsverðlauna sem besta erlenda myndin. Aðalleikkona myndarinnar, Isabelle Huppert hefur nú þegar hlotið fern verðlaun fyrir leik sinn, meðal annars Gotham verðlaunin í New York.
Í umsögn Ásgríms Sverrissonar, sem valdi myndina á lista yfir bestu myndir síðasta árs, segir:
Hugtök eins og “djörf ” og “áleitin” ná ekki almennilega utan um þessa kraftmiklu rakettu sem hættir ekki að koma á óvart. Isabelle Huppert er stórkostleg í hlutverki konu sem er nauðgað af ókunnum manni sem ryðst inná heimili hennar. Hvernig hún bregst við er það sem gerir myndina svo áhugaverða. Paul Verhoeven, sá gamli stríðsjálkur, er hvergi af baki dottinn. Sjón er sögu ríkari.
Fræðast má frekar um hátíðina hér.
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR