Tíu bestu alþjóðlegu kvikmyndirnar 2016

Hér eru tíu bestu alþjóðlegu bíómyndir ársins 2016 að mati Ásgríms Sverrissonar.

1. FRANCOFONIA (Alexander Sokurov)

Stórbrotin esseyjumynd um tímann og minnið og gleymskuna og forgengileikann. Útgangspunkturinn er Louvre og það sem safnið geymir. Sokurov, sem sjálfur kemur fram í myndinni í litlu en mikilvægu hlutverki, segir safnið ekki ađeins hjarta Frakklands heldur heimsins. Þráðurinn er spunnin kringum hernám Þjóðverja á Frakklandi í seinni heimsstyrjöldinni. Stjórnandi Louvre og Þjóðverjinn sem settur var yfir hann hummuðu fram af sér að fylgja skipunum frá Berlín um að hafa uppá öllum verkunum sem komið var í skjól fyrir innrásina og björguðu þannig ómetanlegum verðmætum frá ræningjahöndum líkt og raunin varð víða annarsstaðar í Evrópu. En þetta er minnst línuleg frásögn heldur hugleiðing þar sem hinn rússneski meistari framkallar stórkostlegt sjónarspil með fjölbreyttum tengingum, vísunum og óvæntum útúrdúrum. Hér er töframáttur kvikmyndalistarinnar til sýnis.

2. THE WITCH (Robert Eggers)

Mögnuð hrollvekja, eins og sprúðlandi óvættur úr forneskju en um leið beint úr núinu, fersk og ágeng eins og harðger jurt að vori. Sögusviðið er Nýja England á sautjándu öld þar sem dularfullir kraftar sækja að guðhræddri fjölskyldu sem hefur verið vísað frá stærra samfélagi vegna öfgatrúar. Vonin felst í unglingsdótturinni, þetta er hennar þroskasaga og leit að frelsi frá djöflum forpokunar og kyrrstöðu.

3. ELLE (Paul Verhoeven)

Hugtök eins og „djörf “ og „áleitin“ ná ekki almennilega utan um þessa kraftmiklu rakettu sem hættir ekki að koma á óvart. Isabelle Huppert er stórkostleg í hlutverki konu sem er nauðgað af ókunnum manni sem ryðst inná heimili hennar. Hvernig hún bregst við er það sem gerir myndina svo áhugaverða. Paul Verhoeven, sá gamli stríðsjálkur, er hvergi af baki dottinn. Sjón er sögu ríkari.

[/su_divider]

4. THE REVENANT (Alejandro G. Iñárritu)

Enginn má undan líta í þessari harðneskjulegu og kraftmiklu en ægifögru hrakningasögu. Leonardo Di Caprio leikur skinnaveiðimann í óbyggðum Bandaríkjanna snemma á 19. öld. Illvíg birna gerir hann óvígan og í ofanálag horfir hann á son sinn myrtan af einum félaga sínum. Hann ver restinni af myndinni í að leita morðingjans en til þess þarf hann að berjast við ofurefli óvæginnar náttúru og mannlegrar grimmdar. Iñárritu hefur þennan einstaka hæfileika að skapa heim sem maður ekki bara trúir á, heldur gengur inní algjörlega.

5. STEVE JOBS (Danny Boyle)

Jú Danny Boyle, meistari myndmáls og takts, er leikstjórinn – en þetta er ekki síður mynd handritshöfundarins Aaron Sorkin, þessa magnaða dramatista. Portrett af harðstjóra, sjáanda og þverhaus, teiknað upp í kringum þrjá atburði í ævi herra Eplis og samnefnds apparats sem hann skóp – en það sem situr eftir er hvernig hann glímir við spurninguna um hverskonar manneskja hann ætlar að vera. Frábærlega gert af allra hendi.

6. SPOTLIGHT (Tom McCarthy)

Spotlight er náskyld frænka All the President’s Men þar sem sagt var frá því hvernig þverir blaðamenn afhjúpuðu Watergate hneykslið – en hér viðfangsefnið önnur sönn saga, barnaníðingar innan kaþólsku kirkjunnar. Það voru blaðamenn Boston Globe sem náðu að kveikja áhuga almennings (og laganna varða) á þessari viðurstyggð og kannski það sárasta að þetta fékk að grassera með margra vitorði árum saman. Blaðið hafði meira að segja fjallað um þetta löngu áður án þess að nokkra eftirtekt vekti. En myndin er, líkt og frænkan, lágstemmd og afar vel byggð. Skýrt kemst yfir hvernig rannsóknarvinnu og endalausa þolinmæði þarf til að ná utan um það sem er að gerast og hvernig samfélagið vill í raun ekkert af þessu heyra.

7. ROOM (Lenny Abrahamson)

Svo miklu skiptir hvernig kvikmyndir hreyfa sig. Fyrirfram kveið maður því svolítið að horfa á mynd um mæðgin sem eru lokuð inní litlum kofa (svo árum skiptir) af einhverjum sýkopata. En viti menn, myndin ólgar af lífi og krafti þrátt fyrir nöturlegt viðfangsefnið. Leikararnir, bæði Brie Larson sem leikur móðurina og jafnvel enn frekar Jacob Tremblay sem leikur son hennar og þekkir ekki annan heim, eru hreint afbragð. Handritið mjög þétt og leikstjóranum tekst vel að halda bítinu uppi þannig að úr verður saga um lífsgleði og -vilja.

8. 45 YEARS (Andrew Haigh)

Par sem komið er á efri ár (leikin af þeim bresku meistaraleikurum Charlotte Rampling og Tom Courtenay) undirbýr brúðkaupsafmælið sitt. Þau lifa hæglátu lífi á eftirlaunum í lilu þorpi. Maðurinn fær þær fréttir að lík gamallar kærustu – fyrir samband hans við Rampling – hafi fundist í Ölpunum, þar sem hún hvarf. Þessi uppákoma hefur óvæntar afleiðingar í för með sér og leiðir til endurmats á öllum þeirra tíma saman. Þetta er látlaus mynd og hófstillt en engu að síður sterk og grípandi. Haigh er einn áhugaverðasti leikstjóri Breta af yngri kynslóð – og viti menn, kominn til Ameríku að gera næstu mynd…

9. LOVE AND FRIENDSHIP (Whit Stillman)

Whit Stillman, sá dásemdar leikstjóri sem gerir alltof fáar myndir, er hér í fínu formi í þessari Jane Austen aðlögun. Það á ekki síður við um Kate Beckinsale sem fer á kostum sem hjónabandsmiðlari með eigin hagsmuni í forgangi. Mikið er talað þó allt sé einhvernveginn ósagt látið en blasir engu að síður við, svakalega hnyttið og uppátækjasamt sprell. Mikið gaman.

10. HELL OR HIGH WATER (David Mackenzie)

Nútíma vestri um tvo bræður sem stunda bankarán einhversstaðar mitt í allri ógæfunni sem er Trumpland Ameríku og tvær löggur sem eru á eftir þeim. Bræðurnir – Chris Pine og Ben Foster – eru reyndar með dálítið plott í gangi sem skal ekki minnst frekar á. Jeff Bridges er eldri löggan, algerlega unaðslegur – og félagi hans, leikinn af Gil Birmingham, ekki síðri. Andrúmsloftið er þrungið hnignun og eyðileggingu, Ameríka suðurríkjanna er eyðimörkin ein, hvort sem er innvortis eða útvortis. En hér er sagt frá af sannfæringu og leikgleði.

Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson er kvikmyndagerðarmaður og ritstjóri Klapptrés.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR