Morgunblaðið: Tíu bestu íslensku myndirnar 2016

Morgunblaðið birti lista Hjördísar Stefánsdóttur gagnrýnanda blaðsins yfir bestu íslensku myndir ársins á gamlársdag.

Þar segir:

Kvikmyndaárið 2016 var mjög gott þegar litið er til íslenskra kvikmynda. Hjördísi Stefánsdóttur, kvikmyndagagnrýnanda Morgunblaðsins, hugnaðist þessar tíu myndir best.

1. Eiðurinn „Myndin er raunsæ og vísar í viðvarandi samfélagsmein án þess byggja um of á sönnum atburðum. Íslenskur veruleiki og persónuleg reynsla aðstandenda er uppspretta átakanlegs skáldskapar sem getur gengið nærri og snert strengi í hjörtum áhorfenda.“

2. InnSæi – The Sea Within „InnSæi minnir áhorfendur á að heimurinn er undraverður og að hann verður seint kortlagður til hlítar. Mannfólkið þarf að virða eigin takmarkanir í hraða og amstri samtímans.“

3. Sundáhrifin „Falleg kvikmyndataka, litríkt myndmál og ljúf tónlist leggjast á eitt við að miðla vængstífðri rómantík þar sem óvænt straumhvörf og hrífandi slembilukka tvinna saman örlög persóna.“

4. Svarta gengið „Kári varðveitir með myndinni dýrmæta arfleifð þjóðarinnar og dregur líkt og í fyrri verkum sínum upp lifandi lýsingu af einstakri persónu sem svo sannarlega á erindi við komandi kynslóðir.“

5. Baskavígin „Það er með ólíkindum að hægt sé að gera svona viðamiklu og flóknu efni góð skil í rúmlega klukkutíma frásögn en það tekst með miklum ágætum í Baskavígunum.“

6. Child Eater „Ægivald myrkursins nýtur sín einnig í sviðsmynd og lýsingu svo allt leggst á eitt og úr verður vel heppnuð, bráðfyndin og ógnvekjandi hrollvekja.“

7. Reykjavík „Myndin er því í grunninn afar tilvistarspekileg en hún er einnig ósmár óður til kvikmynda og glúrið tilkall til sögustaðarins Reykjavíkur því í þeirri smáu höfuðborg getur samdráttur fólks endað í kynlegum uppákomum þar sem fyrrverandi makar eða önnur óvænt fjölskyldutengsl geta sett örlagarík strik í reikninginn. … Þegar upp er staðið er Reykjavík mynd sem kemur skemmtilega á óvart með mannlegum ástríðum og glettilegu gríni.“

8. Njósnir, lygar og fjölskyldubönd „Myndin er í senn mjög áhugaverð og stórmerkileg söguleg heimild sem sýnir hvernig átök styrjalda stórvelda geta af sér meinvörp sem eitra út frá sér yfir á afskekkt annes óháðra smáríkja og öfugt, hvernig illvígar fjölskylduerjur geta óvænt ratað inn á fjarlægari vígstöðvar.“

9. Garn/Yarn „Garn er pólitísk mynd um listir, hugheila samstöðu og löngu tímabærar tilfærslur.“

10. The Show of Shows „The Show of Shows er eins og söguleg og blæbrigðarík kviksjá sem hringsnýst sífellt hraðar og virðist alltaf vera við það að verða hamslausir órar. Stórbrotnar myndfléttur myndarinnar eru framúrstefnulegt meistaraverk.“

Rétt er að taka fram að ritstjóri Klapptrés er jafnframt leikstjóri og handritshöfundur kvikmyndarinnar Reykjavík.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR