HeimHátíðirBréf frá Mannheim-Heidelberg

Bréf frá Mannheim-Heidelberg

-

Fullur salur í Heidelberg.
Fullur salur í Heidelberg.

Við Ingvar Þórðarson framleiðandi fylgdum Reykjavík á kvikmyndahátíðina í Mannheim og Heidelberg og það var mikil skemmtun og góð. Þetta er gamalgróin hátíð, 65 ára gömul og því með elstu hátíðum heimsins. Hún leggur áherslu á nýjar alþjóðlegar kvikmyndir, uppgötvanir. Heimamenn á báðum stöðum láta sig sannarlega ekki vanta og sýna innlifun og áhuga.

Reykjavík var sýnd fimm sinnum á hátíðinni, þrisvar í Mannheim og tvisvar í Heidelberg. Sýningar voru afar vel sóttar, yfirleitt pakkfullur salur. Í Heidelberg voru tveir salir í risastóru tjaldi, hvor tekur um 600 manns. Í Mannheim eru salirnir nokkru smærri, taka um 300 manns hvor. Um 2000 manns munu því hafa séð myndina á hátíðinni.

Og ekki er hægt að kvarta yfir viðtökunum. Hláturinn er alltaf sýnilegasta viðbragðið og á honum var enginn skortur. Inntakið komst vel yfir. Kæruleysislegt komment um unga menn í Þýskalandi og notkun þeirra á tveimur uppþvottavélum, sem hent var inn í samtal framarlega í myndinni, kom sterkt inn.

Spurt og svarað (Q&A) var í forsal eftir hverja sýningu og alltaf mjög skemmtilegt. Umsjónarmenn mjög góðir og vel að sér, einn þeirra, Stefan Uhrik frá Tékklandi, hafði komið til Íslands fyrir nokkrum árum og gert sjónvarpsþátt um íslenska kvikmyndagerð. Hann bað að heilsa öllum.

Áhorfendur spurðu margs – en stundum var bara nóg að sjá hóp af breiðum brosum, það sagði sína sögu. Leikur, handrit, taka og tónlist fengu lof í bak og fyrir, sumir gesta komu að máli við okkur eftirá og spurðu ítarlega útí þá þætti sem og annað. Mikið var spurt um aðstæður til kvikmyndagerðar á Íslandi sem og Ísland almennt, greinilegt var þó að ýmsir þekktu til landsins, sumir höfðu jafnvel dvalist þar til lengri eða skemmri tíma, aðrir voru á leiðinni í heimsókn. Þá var áberandi að margir, bæði áhorfendur sem og gestir hátíðarinnar, voru meðvitaðir um íslenskar kvikmyndir og velgengni þeirra undanfarin ár.

Ungur piltur sem þýtt hafði myndina á þýsku fyrir hátíðina var sérstaklega umhugað um kvikmyndatilvísanirnar. Hann nefndi að þar sem hann hefði rennt yfir myndina nokkrum sinnum hefði hann komið auga á fjölda „páskaeggja“ (easter eggs), misdulinna tilvísana sem finna má hér og hvar í myndinni. Ég hafði sérstaklega gaman af því að hann skyldi nefna DVD hylkið af Faust eftir Murnau, sem Tolli otar að Hring framarlega í myndinni um leið og hann býður honum vinnu og pening gegn því að hætta með búðina og koma og vinna fyrir sig. Þetta var svona obskúrt grín sem mér hafði verið ráðlagt að klippa út þar sem enginn myndi ná því, en ég hélt því inni – sagði að ég myndi að lokum hitta einhvern nörd sem hefði spottað þetta og haft gaman af. Hann var semsagt sá fyrsti! En þetta leiðir reyndar hugann að því að mig langar að gera á einhvern hátt grein fyrir öllum vísununum í myndinni, einbeittum kvikmyndaunnendum til gamans.

Undir lok hátíðarinnar barst þessi líka fíni dómur um myndina frá vefritinu Titel Kulturmagazine, skrifaður af Didier Calme. Læt fylgja með sýnishorn í lauslegri þýðingu:

Það er hægt að segja að þetta drama um samskiptavandamál gæti átt sér stað næstum hvar sem er, en þó með sértækum áherslum: Íslendingar skera sig klárlega frá öðrum nútíma Evrópumönnum hvað kímnigáfu varðar. Hún er hrekkjótt, lágstemmd og lúmsk og þessi gagnrýnandi hér naut hennar í botn.

Og síðar:

Náttúruleg sköpunargáfa kraumar í Reykjavík Ásgríms Sverrissonar líkt og hin alltumlykjandi norðurljós, sem kannski eru hér myndlíking fyrir bláa tóninn í La Nuit americaine eftir Francois Truffaut. Þó ekki væri nema þess vegna gæti myndin skemmt þýskum, frönskum og öðrum evrópskum bíógestum. Og kannski má af henni læra þegar upp er staðið. Það er ekki nauðsynlegt að hafa það á íslensku til að skilja að þetta reddast allt að lokum.

Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson er kvikmyndagerðarmaður og ritstjóri Klapptrés.

ÞAÐ NÝJASTA Á KLAPPTRÉ

Fáðu nýjasta efnið á Klapptré í pósthólfið þitt tvisvar í viku, á mánudögum og fimmtudögum.

Þú getur afskráð þig hvenær sem er.

NÝJUSTU FÆRSLUR