Ilmur Kristjánsdóttir heiðursgestur Northern Wave hátíðarinnar

Ilmur Kristjánsdóttir verður heiðursgestur Northern Wave 2016. Hér í þáttaröðinni Ófærð (Mynd: RVK Studios).
Ilmur Kristjánsdóttir verður heiðursgestur Northern Wave 2016. Hér í þáttaröðinni Ófærð (Mynd: RVK Studios).

Alþjóðlega kvikmyndahátíðin Northern Wave verður haldin helgina 21.-23. október næstkomandi í Frystiklefanum í Rifi. Þetta er í níunda sinn sem hátíðin er haldin en hingað til hefur hún farið fram í Grundarfirði. Með auknum ferðamannastraumi reyndist erfitt að fá nægt gistipláss fyrir gesti hátíðarinnar í Grundarfirði og var hún því færð í Snæfellsbæ.

Í Frystiklefanum er rekið bæði gistiheimili og leikhús og aðstaðan þykir henta vel hátíð sem Northern Wave, segir Dögg Mósesdóttir, sem skipulagt hefur hátíðina frá upphafi. Gestir munu gista í nokkrum bæjarfélögum á svæðinu en boðið verður upp á skutlþjónustu á milli staða.

„Í ár hefur verið lögð mikil áhersla á að búa til skemmtilega dagskrá fyrir börn en hátíðin fer fram um vetrarfríhelgi grunnskólabarna. Boðið verður upp á sérstakar dagskrá mynda fyrir börn og hreyfimyndanámskeið en afraksturinn verður sýndur á hátíðinni. Þá verða sýndar skrípómyndir á 8mm sýningarvél en börnum verður boðið að prófa að þræða vélina sjálf. Hægt er að skrá börn á hreyfimyndanámskeiðið með því að senda tölvupóst á info@northernwavefestival.com eða hringja í síma 770-0577.“

Sýndar verða yfir sextíu alþjóðlegar stuttmyndir, íslensk tónlistarmyndbönd og erlend. Einnig býður hátíðin upp á tónleika, fyrirlestur og hina árlegu fiskiréttasamkeppni. Fiskiréttakeppnin hefur slegið í gegn en þar fá bæjarbúar tækifæri til að flagga því góða hráefni sem framleitt er á staðnum, þ.e.a.s. fiskinum og keppa sín á milli um besta fiskiréttinn eða súpuna.

„Í ár langar okkur til að hvetja fólk í veitingarrekstri á svæðinu til að koma með rétti. Hrefna Rósa Sætran dæmir í keppninni en í verðlaun er dekurgjafabréf fyrir tvo á Hótel Búðir að verðmæti 53.900 og gjafabréf fyrir tvo út að borða á Fisk- eða Grillmarkaðinn. Skráning fer fram á heimasíðu hátíðarinnar www.northernwavefestival.com eða á info@northernwavefestival.com,“

segir Dögg.

Nokkrir tónlistarmenn munu spila á hátíðinni og fylgja þannig eftir tónlistarmyndböndum sínum en nú þegar hefur Védís Hervör, Futuregrapher, Chryptochrome og Bláskjár staðfest að þau munu spila á hátíðinni. Heiðursgestur hátíðarinnar verður leikkonan Ilmur Kristjánsdóttir. Ilmur mun sitja fyrir svörum á hátíðinni og ræða sína reynslu af kvikmyndagerð sem leikkona, en líka sem handritshöfundur.

Sjá nánar hér: Ilmur verður heiðursgestur Northern Wave kvikmyndahátíðarinnar – Skessuhorn

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR