Morgunblaðið um “Sundáhrifin”: Straumhvörf og hrífandi slembilukka

Sundáhrifin eftir Sólveigu Anspach verður opnunarmynd RIFF í ár.
Sundáhrifin eftir Sólveigu Anspach var opnunarmynd RIFF í ár.

Hjördís Stefánsdóttir skrifar um Sundáhrifin Sólveigar Anspach í Morgunblaðið í dag, en myndin er frumsýnd á RIFF en verður svo tekin til sýninga í Bíó Paradís. Hjördís gefur myndinni fjóra og hálfa stjörnu og segir að í henni bjóðist “áhorfendum að flandra um með persónum í töfrandi söguheimi þar sem einlægar tilfinningar ráða för og duttlungafullt háttalag leiðir tíðum til spaugilegra árekstra.”

Umsögn Hjördísar fer hér:

Opnunarmynd RIFF í ár er svanasöngur ástríðufullu kvikmyndagerðarkonunnar Sólveigar Anspach. Í henni býðst áhorfendum að flandra um með persónum í töfrandi söguheimi þar sem einlægar tilfinningar ráða för og duttlungafullt háttalag leiðir tíðum til spaugilegra árekstra. Myndin segir af Samir (Samir Guesmi), hæglátum og hávöxnum byggingarkranastjóra um fertugt sem sér hina smágerðu og snaggaralegu Agathe (Florence Loiret Caille) tilsýndar á litlu kaffihúsi í Montreuil, einu stærsta úthverfi Parísar. Þar lætur Agathe karlrembusvín sem stígur í vænginn við hana hafa það óþvegið með miklum tilþrifum og Samir fellur í stafi. Hann kemst að því að Agathe er sundkennari í hverfissundlauginni og skráir sig í einkatíma. Honum gengur þó brösuglega að vinna ástir hennar og áður en hann veit af er hún flogin til Íslands á alþjóðlega sundkennararáðstefnu. Blindaður af ást veður Samir á eftir henni, staðráðinn í að fanga hug hennar og hjarta sama hvað það kostar. Myndin var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Cannes fyrr á árinu og vann þar til verðlauna í flokknum Directors’ Forthnight. Síðan hefur hún ratað víða og hlotið góðar viðtökur. Eftir að RIFF lýkur verður hún sýnd í Bíó Paradís.

Sólveig greindist með krabbamein rúmlega hálffertug en í stað þess að leggja hendur í skaut sér og gefast upp byggði hún á þessari erfiðu reynslu og gerði fyrstu hálfsjálfsævisögulegu frásagnarkvikmynd sína, Hertu upp hugann! (1999). Þessi straumhvörf mörkuðu vatnaskil á ferli hennar því áður hafði hún helgað sig gerð heimildarmynda en í framhaldinu vann hún meira beggja blands. Óvænt tímamót tóku einnig að setja þematískan svip á efnistök mynda hennar sem margar hverjar segja af persónum sem allt í einu eru á flæðiskeri staddar en í stað þess að bugast kasta þær ham sínum eða endurfæðast og finna lífi sínu nýjan farveg. Sólveig teygaði drífandi brött af lífsins skál svo lengi sem dugði en krabbameinið varð hennar bani á síðasta ári um það leyti sem hún lauk tökum á Sundáhrifunum. Eftir stendur kvikmyndaarfleifð hennar þar sem tilvistarspekileg mannleg samkennd og súrrealísk glettni renna saman í hrífandi sagnaseið. Í söguheimum hennar verður hið hvunndagslega að töfrandi ævintýrum þar sem slembilukkan ræður för og árekstrar andstæðna leiða oft til óvænts samruna.

Sólveig og skáldið Didda hafa starfað náið saman í gegnum tíðina. Dramatíska frásagnarmyndin Stormviðri (2003) var fyrsta eiginlega samstarfsverkefni þeirra og fyrir leikstjórn hennar hlaut Sólveig heiðursverðlaun í Cannes og Didda fékk Edduverðlaun fyrir leikinn í aðalhlutverkinu. Líf og persóna Diddu sjálfrar urðu svo kveikjan að ævintýrum söguhetjunnar Önnu í næstu myndum þeirra Sólveigar, Skrapp út (2008) og Queen of Montreuil (2012). Persónur Agathe og Samir voru kynntar til leiks í þeirri síðarnefndu þótt þær hafi ekki orðið hvor á vegi annarrar fyrr enn íSundáhrifunum. Þar lætur Anna þeim skötuhjúum sögusviðið eftir þótt hún setji sterkan svip á framvinduna af hliðarlínunni. Þessi þríleikur er eins konar flæðandi sagnasveigur þar sem frásagnirnar kallast á og tengjast þótt söguþræðir þeirra og umgjörð myndi einnig sjáfstæðar einingar. Handrit myndanna vann Sólveig í samstarfi við Jean-Luc Gaget og þau, ásamt Diddu, hafa því myndað eins konar söguheimsteymi þar sem skilin milli skáldskapar og sjálfsævisögulegrar tjáningar persóna eru glettilega óljós.

Í Queen of Montreuil sótti Anna Agathe heim en í Sundáhrifunum er því öfugt farið og Reykjavík verður miðja atburðarásarinnar. Þetta sést best á því hvernig útsýni yfir ólíkt borgarlandslag breytist frá yfirlitsmyndum úr byggingarkrana Samir í Montreuil til svipmynda úr Hallgrímskirkjuturni. Anna hefur enn á ný vent kvæði sínu í kross og er ekki lengur á jónureykjandi flandri á erlendri grundu heldur orðin borgarráðsfulltrúi í Reykjavík – það er að minnsta kosti annan hvern dag á móti félaga sínum Frosta (Frosti Jón Runólfsson) sem lítillega hefur komið við sögu í fyrri myndunum. Agahte virðist hafa náð að rísa til lífs og leiks á ný úr viðjum sorgarhamsins sem bugaði hana áður. Nú lætur hún ekki fisja sér saman, fer ófeimin ótroðnar slóðir og hefur tekið upp hispurslausan munnsöfnuð í anda Önnu. ÍQueen of Montreuil urðu þáttaskil á högum Agathe þegar hún horfðist í augu við sæljón úr baðkarinu heima hjá sér en í Sundáhrifunum verða þau þegar hún tekst á við vankaðan ástsjúkan Samir í froðubaði heima hjá Diddu.

Persónugallerí myndarinnar endurspeglar mannlíf í öllum sínum sérkennilega fjölbreytileika. Einlæg tjáning sjálfmenntaðra lífsins leikara fellur vel að frammistöðu fagmenntaðra mótleikara. Eins og áður er leikur Florence Loiret-Caille einstaklega tilbrigðaríkur og spannar litríkan skala allt frá bljúgri viðkvæmni til taumlausrar örvæntingar og þaðan yfir í pönkaðan uppsteyt á meðan leikur Samir einkennist meira af lágstemmdara látbragði. Falleg kvikmyndataka, litríkt myndmál og ljúf tónlist leggjast á eitt við að miðla vængstífðri rómantík þar sem óvænt straumhvörf og hrífandi slembilukka tvinna saman örlög persóna. Þær eru allar að reyna að finna sig og fóta í lífinu en súrrealískar tilraunir þeirra til hamskipta og endurfæðinga bera ávöxt í ýmiskonar vatnsböðum og þær sýna hvernig árekstrar andstæðra menningarheima geta hjálpað persónum við að brjótast út úr viðjum vanans og finna sér nýjan farveg í lífinu.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR