Ólafur Egill: „Eiðurinn“ byggir á persónulegri reynslu

Ólafur Egill Egilsson ræðir baksvið kvikmyndarinnar Eiðurinn í samtali við Fréttablaðið í dag. Ólafur skrifaði handrit myndarinnar í samvinnu við Baltasar Kormák, en verkið byggir á hans eigin reynslu.

Í viðtalinu segir m.a.:

Eiðurinn segir frá hjartaskurðlækninum Finni sem áttar sig á að dóttir hans er komin í neyslu og að nýr kærasti hennar er þekktur dópsali.

Sagan að baki handritinu er persónuleg, kveikjan er háski yngri systur Ólafs sem fór villur vegar á unglingsárum sínum.

„Ég þurfti að koma þessari sögu frá mér. Í fyrstu reyndist það erfitt, það var sársaukafullt að vinna með þetta efni, en smám saman léttist róðurinn, verkið eignaðist sjálfstætt líf og eigin forsendur burtséð frá lífi mínu eða minna nánustu,“ segir Ólafur því handritið er skáldverk þótt það byggi vissulega á raunverulegri reynslu hans. „Eftir því sem leið á þessi tæpu þrjú ár sem það tók að fullmóta handritið hætti það að vera eitthvað sem ég setti upp á leiksviði hugans með nánustu aðstandendum í aðalhlutverkum.“

Fjarlægðin nauðsynleg
Ólafur segir að þótt það sé erfitt, þá sé líka ákveðin lækning fólgin í því að setja erfiða reynslu í orð, koma henni frá sér eins og sagt er. „Maður getur hugsað sína hluti þúsund sinnum í hringi og verið engu nær því að sjá þá í réttu ljósi en þegar maður setur þá niður á blað, fer að vinna með þá sem sögu, þá öðlast maður stundum nýtt sjónarhorn og fjarlægð. Fjarlægðin er nauðsynleg, ef vel á að takast til, maður verður að ná hlutlausri sýn á sjálfan sig. Það er ekki hægt að halda í fegraða mynd af sér, gjörðum sínum eða afstöðu. Það gengur ekki upp, hvorki í handritsgerð né lífinu reyndar. Mín reynsla af því að skrifa þetta handrit var sú að ég náði fjarlægð á sjálfan mig en um leið ákveðinni innsýn, kannski á hluti sem ég vissi en gat ekki viðurkennt, innst inni vitum við öll hvað er satt.“ segir Ólafur.

Viðtalið er mun lengra og ítarlega, það má sjá hér: visir.is

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR