Breskir gagnrýnendur hrifnir af „Ófærð“

ófærð logoMargt í Ófærð jafnast á við það sem best var gert í þáttum á borð við Brúna og Glæpinn, þótt efnistökin séu ef til vill hefðbundnari og kvenhlutverkin ekki jafn bitastæð, að mati breskra sjónvarpsgagnrýnenda sem fylgst hafa með þáttunum upp á síðkastið.

Þetta kemur fram á vef RÚV. Þar segir ennfremur:

Ófærð, eða Trapped eins og þáttaröðin heitir í Bretlandi, er á dagskrá BBC 4 á laugardagskvöldum en sá tími er yfirleitt lagður undir norrænar sakamálaseríur. Að jafnaði horfa yfir milljón manns á þættina og Ófærð hefur ekki síður slegið í gegn hjá gagnrýnendum, meðal annars þeim sem hafa sérhæft sig í að skrifa um leikið sjónvarpsefni og þá ekki síst norræna þætti.

Framandi á jákvæðan hátt

„Ég er mjög hrifin. Það er líklega nákvæmara að segja að ég sé orðin ánetjuð,“ segir Caroline Frost, gagnrýnandi hjá Huffington Post í Bretlandi. Undir það tekur Alison Graham hjá Radio Times.

„Mér finnst skemmtilegt að við sjáum Ísland ekki oft í sjónvarpi. Þetta er ekki land sem allir þekkja. Við sjáum ekki þætti um landið og ég man ekki til þess að hafa séð drama frá Íslandi. Það má því segja að Ófærð sé framandi á mjög framandi á mjög jákvæðan hátt.“

Minnir á Glæpinn og Brúna

Frost segir þættina hafa rétta samsetningu glæpsins og hins persónulega. „Það er ákveðið hryggjarstykki í frásögninni, morðgátan, en það er margt fleira, eins og fjölskyldan, samskiptin við náungann, samkennd með umheiminum; allt þetta sem var svo vel gert í Brúnni og Glæpnum. Öll þessi atriði eru fyrir hendi hér líka.“

Graham segir Ófærð þó vera mun hefðbundnari þáttaröð en hinar tvær. „Það er engin sterk aðalkvenpersóna. Við höfum séð Glæpinn og Brúna og þar eru mjög sterkar og margbrotnar kvenpersónur, sem er í sjálfu sér óhefðbundið, en í Ófærð eru það fyrst og fremst karlar sem ráða ferðinni.“

Skjátexti skerpir einbeitinguna

Hún bætir við að það sé ekki kvöð að þurfa að horfa á þætti með skjátexta, þvert á móti.  „Ég held að það sé reynsla okkar allra að við tökum betur eftir ef við þurfum að lesa skjátexta. Ég get ekki staðið og straujað meðan ég horfi á Ófærð. Ég þarf að horfa á skjáinn því ég tala ekki íslensku. Ég þarf að vita hvað er í gangi og skjátextar skerpa einbeitinguna og ég þarf að hafa alla athyglina á þættinum.“

Vill sjá fleiri þætti frá Íslandi

Frost bendir á að myrkrið og einangrunin sem hafi verið svo áberandi í Glæpnum og Brúnni sé orðið enn meira áberandi í Ófærð.  „Ég hef öðlast aukna virðingu fyrir fólki sem býr við þessar aðstæður. Í London kvörtum við ef það rignir í fjóra daga í röð. Þá hugsum við að guðirnir hafi snúist gegn okkur. En þetta varpar ljósi á þessa lífshætti. Ég er heilluð af því hvernig fólki tengist hvert öðru.

Ég hef heyrt að það sé íslenskt orð yfir þá ofsagleði sem allir finna til þegar vorið kemur og allir stökkva upp einsa og kálfar að vori og birtan fer að aukast. Þessar breytingar heilla mig. Mig langar mikið að sjá fleiri þætti frá Íslandi.“

Sjá nánar hér: Enskir gagnrýnendur ánetjaðir Ófærð | RÚV

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR