59% áhorf á lokaþætti „Ófærðar“ 

ófærð logoRúmlega helmingur landsmanna horfði á línulega dagskrá á RÚV bæði á laugardags- og sunnudagskvöld, þegar Söngvakeppnin og lokaþættir Ófærðar voru á dagskrá. Þetta fer nærri því að vera mesta áhorf í heild yfir eina helgi síðan rafrænar mælingar hófust árið 2008, að sögn Skarphéðins Guðmundssonar, dagskrárstjóra RÚV.

RÚV greinir frá:

Á laugardagskvöld var RÚV með beina útsendingu frá úrslitum Söngvakeppninnar 2016. Samkvæmt bráðabirgðatölum frá Gallup mældist meðaláhorf 54% og uppsafnað áhorf 68% á útsendinguna, sem er mun meira en áhorf á úrslitin í fyrra.  Hlutdeild RÚV á útsendingartíma Söngvakeppninnar var 96%, sem þýðir að 96% þeirra sem voru að horfa á dagskrá sjónvarpsstöðvanna á meðan keppnin var í loftinu horfðu á hana.

Í gærkvöldi var svo komið að lokaþáttunum í spennuþáttaröðinni Ófærð.  Tæplega 59% meðaláhorf mældist á lokaþáttinn og uppsafnað áhorf var 62%. Þá er ekki talið  með upptekið áhorf í dag og næstu daga. Þátturinn var með 95,5% hlutdeild í áhorfi landsmanna á beina útsendingu.  Með vinsældum síðustu þátta er ljóst að Ófærð er vinsælasta leikna þáttaröðin sem sýnd hefur verið í íslensku sjónvarpi frá því að umræddar mælingar hófust.

„Það er mikið gleðiefni að sjá svona sterk viðbrögð þegar við bjóðum upp á vandað og fjölbreytt íslenskt dagskrárefni,“ segir Skarphéðinn. „Sjálfur hef ég ekki upplifað aðra eins eftirvæntingu fyrir nokkurri sjónvarpshelgi og þessari; fyrst úrslitin í Söngvakeppninni og svo hinn margumtalaði tvöfaldi lokaþáttur af Ófærð sem ég leyfi mér að segja að sé nú þegar orðinn að sögulegum sjónvarpsviðburði. Fyrir utan þá staðreynd að annað innlent efni, sem boðið var upp á um helgina, fékk einnig fínasta áhorf. Þær verða því varla skýrari vísbendingarnar um hvað íslenskir áhorfendur vilja sjá, vandaða íslenska dagskrá.“

Sjá nánar hér: 59% áhorf á Ófærð og 54% á Söngvakeppnina | RÚV

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR