Steinunn Ólína verðlaunuð fyrir hlutverk sitt í „Rétti“

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir í þáttaröðinni Réttur 3.
Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir í þáttaröðinni Réttur 3.

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir vann um nýliðna helgi til FIPA verðlaunanna sem besta leikkona í aðalhlutverki fyrir leik sinn í sjónvarpsþáttaröðinni Réttur, sem var nýlega sýnd á Stöð 2. FIPA hátíðin verðlaunar sjónvarpsþætti á hverju ári og fór fram í 29. sinn 19.-24. janúar í Biarritz í Frakklandi.

Baldvin Z leikstjóri þáttaraðarinnar var viðstaddur og veitti verðlaununum viðtöku. Fyrstu tveir þættirnir af Rétti voru sýndir á hátíðinni og þá var fyrsti þátturinn af Ófærð, sem er nú í sýningum á RÚV, sýndur á lokakvöldi hátíðarinnar. Steinunn Ólína leikur einnig  aukahlutverk í Ófærð.

Réttur hóf göngu sína um miðjan október á Stöð 2. Red Arrow International sér um sölu og dreifingu þáttaraðarinnar erlendis. Réttur, sem er framleidd af Sagafilm, keppti við 10 alþjóðlegar sjónvarpsþáttaraðir, þeirra á meðal hina bresku River, sem sænski leikarinn Stellan Skarsgård hlaut hlaut FIPA verðlaun fyrir sem besti leikari í aðalhlutverki.

Sjá nánar hér: Steinunn Ólína valin besta leikkonan á FIPA hátíðinni | Kvikmyndamiðstöð Íslands

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR