Friðrik Þór: Breyta þarf vali mynda á Evrópsku kvikmyndaverðlaununum

Friðrik Þór FriðrikssonScreen International fjallar um Evrópsku kvikmyndaverðlaunin (EFA) á vef sínum og ræðir þær breytingar sem orðið hafa á þeim, auk þess að velta upp spurningum um frekari breytingar. Miðillinn ræðir meðal annars við Friðrik Þór Friðriksson sem er gagnrýninn á kosningafyrirkomulagið og framleiðandann Mike Downey sem jafnframt er varaformaður Evrópsku kvikmyndaakademíunnar.

EFA tekur pólitíska afstöðu

Pólska leikstýran Agnieszka Holland var skipuð stjórnarformaður Akademíunnar í ársbyrjun 2014 og hún hefur meðal annars lagt áherslu á að Akademían tæki afstöðu í pólitískum álitamálum. Á verðlaunaveitingunni, sem fram fór í Sevilla á Spáni síðastliðið laugardagskvöld, var meðal annars vakin athygli á aðstæðum Úkraínska leikstjórans Oleg Sentsov, sem nýlega var ákærður fyrir hryðjuverkastarfsemi og dæmdur í 20 ára fangelsi í Rússlandi. Ásakanirnir á hendur honum eru taldar upplognar af mörgum.

Helstu myndir ekki með

Þá vekur sérstaka athygli að tvær af helstu evrópsku myndum ársins, Gullpálmamyndin Dheepan eftir Jacques Audiard og Son of Saul eftir Laszlo Nemes sem hlaut Grand Prix í Cannes, voru ekki tilnefndar. Ástæðan er þó ekki sú að þær komu ekki til greina heldur ákváðu framleiðendurnir að senda þær ekki inn. Ástæðan er meðal annars sögð sú að þeir vildu ekki spilla fyrir möguleikum myndanna gagnvart væntanlegum Óskarsverðlaunum.

Val mynda verður að breytast

Um 3,300 meðlimir EFA velja verðlaunamyndirnar hverju sinni. Flestir þeirra koma frá Frakklandi og Þýskalandi. Friðrik Þór Friðriksson leikstjóri og framleiðandi er einn þeirra sem telur að breyta þurfi fyrirkomulaginu. Hann telur meðal annars að þetta sé ástæða þess að Hross í oss Benedikts Erlingssonar, sem hann framleiddi, var ekki tilnefnd á sínum tíma þrátt fyrir mikla velgengni á hátíðum um allan heim. Friðrik segir:

“Þarna eru þúsundir manna frá Þýskalandi, Frakklandi, Spáni og Ítalíu. Þetta er einfaldlega ekki sanngjarnt. Ef Akademían á að virka til að velja bestu myndirnar þarf að gera breytingar.“

Friðrik bætir því við að hann sé mjög glaður með að Hrútar Gríms Hákonarsonar (sem hann framleiddi ekki) hafi verið tilnefnd sem besta evrópska myndin.

Mike Downey varaformaður EFA, sem meðal annars hefur meðframleitt fjölda íslenskra kvikmynda, þar á meðal Engla alheimsins, Kaldaljós, Fálka, Næsland og Astrópíu, viðurkennir að stærri löndin dómineri valið en bendir einnig á að á síðasta ári hafi Ida eftir Pawel Pawlikowski, svart-hvít pólsk mynd, unnið aðalverðlaunin.

Sjá nánar hér: The changing face of the European Film Awards

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR