„Jói í göngunum“, heimildamynd um íslenskt graffití í vinnslu

Starfslið myndarinnar ásamt viðfangsefninu (í miðju). Frá vinstri: Jóhannes, Óskar Bragi, Björgvin, Jói, Hallur og Helga.
Starfslið myndarinnar ásamt viðfangsefninu (í miðju). Frá vinstri: Jóhannes, Óskar Bragi, Björgvin, Jói, Hallur og Helga.

Björgvin Sigurðarson og Hallur Örn Árnason vinna nú að heimildamyndinni Jói í göngunum sem fjallar um graffití á Íslandi í gegnum sögu Jóa, klósettvarðar í undirgöngunum við Klambratún. Þeir leita stuðnings við verkefnið á Karolina Fund.

Jóhann Jónmundsson, eða Jói eins og hann er kallaður, vann í undirgöngunum við Klambratún frá 1993 – 2005. Á þessum tíma reis hip hop menningin sem hæst hér á landi og báru veggir ganganna þess augljós merki með mikilli aukningu graffitis. Göngin voru á þessum tíma einn vinsælasti graffiti staður landsins.

Á þessum tíma reis hip hop menningin sem hæst hér á landi og báru veggir ganganna þess augljós merki með mikilli aukningu graffitis. Göngin voru á þessum tíma einn vinsælasti graffiti staður landsins.

Þá, líkt og nú, var graffiti almennt bannað í Reykjavík. Þrátt fyrir það fékk Jói fljótlega áhuga á graffitilistinni eftir návígið við hana í göngunum. Jói fór til sinna yfirmanna og fékk það í gegn að undartekning á reglunni yrði gerð í Hlíðargöngunum og graffiti leyft.

Eina skilyrðið var að hann myndi þjóna hlutverki nokkurs konar listráðunautar, ofan á aðrar starfskyldur sínar. Jói átti að gæta þess að göngin væru snyrtileg og að graffiti myndirnar samrýmdust almennu velsæmi. Jói skyldi mála yfir allt krot og myndir sem að talist gætu klám eða satanískar af einhverjum toga.

Fljótlega eftir að Jói hóf störf fór hann að taka ljósmyndir af graffitiverkum ganganna í þeim tilgangi að til væru einhverjar heimildir um þessa tegund myndlistar. Hann lét prenta myndirnar út, flokkaði þær í möppur til varðveislu og bar allan kostnað af því sjálfur. Safn Jóa telur í dag um 500 ljósmyndir og er af mörgum talið ein heildstæðasta heimild um graffitilist í Reykjavík frá þessum tímum.
Ris Jóa sem listráðunautar undirganganna geriðst á sama tíma og ris graffitimenningar á Íslandi og fljótlega eftir að bylgjan fór að dala í kjölfar þúsaldarmótanna gleymir borgin þessu hlutverki Jóa og hann er færður til í starfi.

Í myndinni heyrum við frá fjölmörgum af fremstu graffitilistamönnum landsins sem að tala um hvað það var sem að heillaði þau við graffiti og hvers vegna graffiti er listform sem að rambar á barmi þess að vera vandalismi.

Þetta er fyrsta heimildamynd Björgvins en áður gerði Hallur myndina Bannað að vera fáviti um rokkhátíðina Eistnaflug. Sú mynd var frumsýnd var á Reykjavík Shorts&Docs hátíðinni í ár.

Myndin var kynnt sem verk í vinnslu á Skjaldborgarhátíðinni 2013 en stefnt er að frumsýningu sumarið 2016.

Síða myndarinnar á Karolina fund er hér.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR