365 miðlar dregur sig útúr Eddunni, stjórn ÍKSA leiðréttir rangfærslur Jóns Gnarr

Sigurvegarar Eddu 2015.
Sigurvegarar Eddu 2015.

365 miðlar hafa hætt þátttöku í Edduverðlaununum. Jón Gnarr, framkvæmdastjóri dagskrársviðs 365, segir í samtali við Kjarnann að ástæðan sé að RÚV hafi haft 70 prósent vægi í dómnefnd Edduverðlaunanna meðan 365 beri helming kostnaðar vegna veitingu þeirra og að 365 hefði lagt fram ýmsar tillögur um að auka vægi almennings í kjöri á verðlaunahöfum en þær tillögur hafi ekki hlotið brautargengi. Stjórn ÍKSA hefur sent frá sér tilkynningu þar sem bent er á að allt sem Jón nefnir sé rangt.

Kjarninn skýrir frá ákvörðun 365 miðla hér og hérna má lesa ummæli Jóns.

Yfirlýsing stjórnar ÍKSA er sem hér segir:

1. Að RÚV hafi 70% vægi í dómnefnd Edduverðlauna.

Verk  sem send eru inn í Edduverðlaunin fara í gegnum tvær kosningar og engin dómnefnd starfar á vegum Eddunnar. Látum það liggja á milli hluta og skoðum hverjir kjósa.

Í fyrsta lagi eru öll innsend verk metin af fjórum valnefndum Eddunnar. Ein valnefndin tilnefnir leikið efni, önnur sjónvarpsefni, þriðja heimildamyndir og sú fjórða tilnefnir einstaklinga til fagverðlauna Eddunnar. Sjö aðilar eiga sæti í hverri valnefnd, alls 28 manns. Valnefndarmenn sitja aðeins eitt ár í senn og hægt er að skoða hverjir sitja í valnefndunum á vefsíðunni eddan.is. Það er fjarstæðukennt að 70% valnefndarmanna séu á einhvern hátt tengd RÚV.

Í öðru lagi þá kjósa svo meðlimir Akademíunnar á milli tilnefndra verka, þ.e.um það hver hlýtur Edduna í hverjum flokki fyrir sig. Meðlimir akademíunnar eru 562 talsins, allt íslenskt fagfólk úr kvikmynda- og sjónvarpsbransanum. Öllum er séð fyrir opnum og óheftum aðgangi að öllum verkunum meðan á kosningu stendur.

Akademíuaðildin er með öllu einstaklingsbundin og ekki tengd fyrirtækjum og hvernig Jón tengir 70% aðildarfélaga ÍKSA við RÚV er beinlínis óskiljanlegt. Félagsskrá ÍKSA er aðgengileg á vefsíðunni eddan.is. Til gamans má geta að þeir aðildarfélagar ÍKSA sem eru með skráð RÚV netföng eru 22 talsins en þeir sem eru með skráð netföng hjá 365 miðlum eru 19 talsins.

2. Að 365 beri helming kostnaðar vegna veitingu Edduverðlauna.

Aðildar- og innsendingargjöld 365 á síðasta ári námu 15% af heildarrekstrargjöldum ÍKSA.

Að auki keyptu 365 miðlar útsendingarrétt frá verðlaunahátíðinni og ef sá kostnaður er tekin með nam framlag 365 alls 33% af heildarrekstrarkostnaði ÍKSA.

3. Að 365 hafi lagt fram ýmsar tillögur um að auka vægi almennings í kjöri á verðlaunahöfum sem ekki hafi hlotið brautargengi.

Engin slík tillaga (hvað þá ýmsar) hafa verið lagðar fram af 365. Fagráð Eddunnar, þar sem fulltrúar 365 hafa setið, tekur allar ákvarðanir um fyrirkomulag Edduverðlaunanna. Allar fundargerðir Fagráðs eru opinberar og aðgengilegar á eddan.is.

Rétt er að vekja athygli á því að Edduverðlaunin eru fagverðlaun en ekki vinsældarkosning og fyrirkomulag Eddunnar er sambærilegt við fyrirkomulag annarra verðlaunahátíða um allan heim, svo sem Óskarsverðlaunanna.

Í þessu sambandi viljum við líka vekja athygli á því að til skamms tíma voru ein verðlaun Eddunnar kosin í almennri símakosningu áhorfenda, þ.e. sjónvarpsmaður ársins. Aðeins eru tvö ár síðan þessu var breytt úr almenningskosningu í fagkosningu, að kröfu 365. Rökin voru þau að það væri fag að vera sjónvarpsmaður/þáttastjórnandi en ekki vinsældarkosning og jafnframt að áskriftarsjónvarp gæti aldrei unnið vinsældarkosningu meðal alls almennings.

Með vinsemd,

Hilmar Sigurðsson, formaður ÍKSA. Brynhildur Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Eddunnar.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR