spot_img

“Hrútar” tilnefnd til Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna

european film academy logoHrútar Gríms Hákonarsonar er tilnefnd til Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna sem kvikmynd ársins. Þetta er í fyrsta sinn í áratugi sem íslensk kvikmynd kemst í þann hóp.

Ásamt Hrútum eru tilnefndar Youth eftir Paolo Sorrentino (flestar tilnefningar, alls 6), Dúfa sat á grein og hugleiddi tilveruna eftir Roy Andersson, Mustang eftir Deniz Gamze Ergüven, The Lobster eftir Yorgos Lanthimos og Victoria eftir Sebastian Schipper.

Allar þessar myndir hafa farið sigurför um alþjóðlegar kvikmyndahátíðir á árinu. Hrútar og Mustang hafa sankað að sér alls 13 verðlaunum hvor þegar þetta er skrifað, Victoria 11 en hinar færri.

Íslenskar kvikmyndir og Evrópsku kvikmyndaverðlaunin

Magnús Þráins Bertelssonar er eina íslenska kvikmyndin sem áður hefur hlotið tilnefningu sem besta myndin, en það var 1989 (Þráinn fékk einnig tilnefningu fyrir besta handrit).

Þá hlutu Tinna Gunnlaugsdóttir og Helgi Skúlason tilnefningar 1988 fyrir leik sinn í Í skugga hrafnsins eftir Hrafn Gunnlaugsson. Tinna fyrir bestu leikkonu, Helgi fyrir aukahlutverk. Helgi hlaut reyndar tvær tilnefningar þetta árið, hin var fyrir aukahlutverk í Veiviseren (Leiðsögumanninum) eftir norska leikstjórann Nils Gaup.

Sigríður Hagalín var einnig tilnefnd 1991 sem leikkona ársins í Börnum náttúrunnar eftir Friðrik Þór Friðriksson. Heimildamyndin Hið frábæra undur eftir Baldur Hrafnkel Jónsson og Sigurbjörn Aðalsteinsson var síðan tilnefnd 1993.

Tveir Íslendingar hafa hreppt verðlaun; Hilmar Örn Hilmarsson og Björk. Árið 1991 hlaut Hilmar Örn verðlaun fyrir bestu tónlist í Börnum náttúrunnar og árið 2000 var Björk valin besta leikkonan fyrir aðalhlutverk sitt í íslensku minnihlutaframleiðslunni Dancer in the Dark eftir Lars von Trier. Björk hlaut einnig áhorfendaverðlaun sem besta leikkona auk þess sem myndin var valin besta myndin og Lars von Trier hlaut áhorfendaverðlaun sem besti leikstjóri.

Evrópsku kvikmyndaverðlaunin verða veitt í Berlín þann 12. desember næstkomandi. Það er Evrópska kvikmyndaakademían sem veitir þau.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR