„Fúsi“ fær þrennu í Lübeck, „Hrútar“ með ein verðlaun

fúsiFúsi eftir Dag Kára hlaut þrenn verðlaun á Norrænum kvikmyndadögum í Lübeck í Þýskalandi sem lýkur á morgun. Hrútar Gríms Hákonarsonar, sem verið var að tilnefna til Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna, vann ein verðlaun.

Fúsi vann til áhorfendaverðlauna hátíðarinnar og Interfilm kirkju verðlauna hátíðarinnar auk þess sem Gunnar Jónsson hlaut sérstök heiðursverðlaun fyrir leik sinn í myndinni. Bæði Dagur Kári og Gunnar Jónsson voru viðstaddir hátíðina og veittu verðlaununum viðtöku.

Hrútar, sem var opnunarmynd hátíðarinnar, hlaut verðlaun frá baltneskri dómnefnd hátíðarinnar fyrir framúrskarandi norræna kvikmynd. Grímar Jónsson framleiðandi var viðstaddur hátíðina og veitti verðlaununum viðtöku.

Ekkert lát er á verðlaunafjöld íslenskra kvikmynda á alþjóðlegum vettvangi. Fúsi hefur þannig unnið til níu alþjóðlegra verðlauna og Hrútar hafa hlotið 14 slík.

Alls er heildarfjöldi alþjóðlegra verðlauna sem íslenskar kvikmyndir hafa fengið á þessu ári kominn í 71. Til samanburðar unnu íslenskar myndir alls 34 alþjóðleg verðlaun 2014 og 33 verðlaun 2013. Nánari upplýsingar eru hér.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR