Haukur Már: Í Austur eru allir hundar

Rammi úr Austur eftir Jón Atla Jónasson.
Rammi úr Austur eftir Jón Atla Jónasson.

Haukur Már Helgason á blogginu OK Eden skrifar um Austur Jóns Atla Jónassonar og segir hana meðal annars „mynd af helvíti, en það er mikilvægt að ruglast ekki á myndum og veruleika. Nei, þú ferð ekki til helvítis þó þú horfir á myndina. En þú klárar kannski ekki poppkornið þitt á meðan heldur.“

Haukur Már segir ennfremur:

Allar persónur myndarinnar eru ótalandi. Í hvaða skilningi? Samræðurnar eru af sama toga og þær sem ég heyrði í fyrsta sinn í vegamyndinni Salt (Bradley Rust Gray 2000): „Ertu ekki góður bara?“ Að tungumálið í kjálkavöðvaminninu sé fært um að tjá tilfinningar og greiða úr ótal blæbrigðum þeirra er það sem greinir mannlega tilveru frá dýrum. Því laskaðri sem þessi geta er, því minna er af manneskjunni. Dýrið sem stendur eftir þegar manneskjunni er flett frá getur verið naut eða úlfur eða mús eða hamstur. Dýr eru alls konar og misyndisleg. Í Austur eru allir hundar. Misyndislegir hundar.

Ég var mjög impóneraður yfir tökum og klippingu. Jón Atli þenur myndavélina, reynir á næmi hvaða myndflögu sem hann notar með lágmarkslýsingu. Í sterkri senu stendur Ólafur Darri utan við húsið sitt og við sjáum bara baklýsta, skeggjaða silúettuna af honum í einu drjúgu, óklipptu skoti – fínlegt, djarft og öflugt. Á köflum fannst mér myndin meira í ætt við Bergman en Pasolini – þessi bið, þessi dvöl í tíma, og þessi gláka eða nærsýn karakteranna á eigin tilveru.

Ef maður vill máta Austur við kvikmyndasöguna á annað borð myndi hún þó ef til vill passa best inn í Dekalóg-röðina frá Kieslowski. Austur er klukkutími að lengd, sem býður svolítið upp á slíka syrpu. Möguleg röð væru syndirnar sjö, sem Kieslowski tók aldrei fyrir: ef leikstjórinn ynni mynd við hverja þeirra yrði hann hins vegar að velja hvort Austur væri um reiði eða losta. Sem gæti verið hægar sagt en gert.

Sjá nánar hér: Austur | OK EDEN

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR