Hvernig koma skal kvikmyndaarfinum hratt og örugglega inn í nútímann

Erlendur Sveinsson forstöðumaður Kvikmyndasafns Íslands.
Erlendur Sveinsson forstöðumaður Kvikmyndasafns Íslands.

Fyrir hönd Kvikmyndasafns Íslands þakka ég fyrir framgöngu og ábendingar Félags íslenskra kvikmyndatökustjóra varðandi ýmis atriði sem hafa þarf í huga þegar unnið er að endurgerð kvikmynda í stafrænu formi.

Sjálfur var ég viðstaddur atburðinn sem vitnað er til í bréfi ÍKS þegar Sigurður Sverrir Pálsson, kvikmyndatökustjóri, samstarfsfélagi minn og vinur í heila starfsævi, var heiðraður.

Ég átti þátt í tilraun okkar við að útvega þær sýningarkópíur sem óskað var eftir til sýningar honum til heiðurs í Bíó Paradís með takmörkuðum árangri. Þar kom að vísu fleira til en léleg sýningareintök og á ég þá við sýningarvél bíósins sem uppfyllir ekki þær kröfur sem kvikmyndasöfn gera til sýningavéla þegar sýna skal varðveislueintök safnmynda.

Ég tel rétt að það komi fram að Kvikmyndasafnið var ekki viðriðið endurgerð kvikmyndanna Land og synir og Kaldaljós sem gert er að umtalsefni í bréfinu. Undirritaður hefur hins vegar stýrt fyrir hönd Kvikmyndamiðstöðvar og Kvikmyndasafns Íslands björgun 16 kvikmynda úr innilokun þeirra í kvikmyndavinnustofum í London og var liður í því björgunarstarfi að semja niður skuldir með því að láta skanna myndirnar í 2K HD upplausn á einni ljósstillingu og þannig losa þær úr höftum en leysa jafnframt úr vanda í sambandi við skönnun sem ekki er á færi Íslendinga.

6 bretti með frumefni 12 kvikmynda sem voru fastar í laboratoríum í London.
6 bretti með frumefni 12 kvikmynda sem voru fastar í laboratoríum í London.

Það vill nú svo skemmtilega til að 12 frummyndir bárust frá London inn á gólf Kvikmyndasafnins í dag, skömmu áður en mér barst bréf ÍKS og það á 6 brettum sem vega samtals um tvö og hálft tonn. Fyrr í vetur komu 4 myndir og tilheyrandi efni þeirra líka frá London.

Því hvernig sem á allt er litið þá skiptir höfuð máli að halda áfram að varðveita frumefni kvikmynda okkar í kæli- og frystigeymslum Kvikmyndasafnsins. Ég er t.d. sannfærður um það að þessi tveggja káa Spirit skönnun verður álitin ekki nógu góð er fram líða stundir. Á henni eru ákveðnir annmarkar þrátt fyrir að kostnaður við þessa framkvæmd sé hátt í 20 milljónir en þá kemur fleira til, geymsluskuldir, flutningsgjöld o.fl. Í þessum bunka var Gullsandur Ágústs Guðmundssonar, sem nú hefur verið litgreind eftir eftir að hafa verið skönnuð í London og lítur bara prýðilega út. Það þarf líka að yfirfæra hljóð kvikmyndanna í stafrænt form og nú erum við á nippunni með það. Það gekk t.d. ekki þrautalaust í tilviki Gullsandsins að töfra hljóðið út úr perfsegulböndunum sem til allrar hamingju hafa varðveist en það er alls ekki alltaf tilfellið og er þá ekkert hljóð að hafa annað en af hljóðfilmunegatífinu.

Kvikmyndasafnið tók að sér að fylgja eftir litgreiningu og hljóðvinnslu Morðsögu Reynis Oddssonar allt til enda sem einnig var skönnuð í London í tveimur káum og er hún nú sama sem tilbúin til sýningar á DCP og á eftir að vekja mikla athygli.

Við erum stödd með þessa framkvæmd á síðasta ári fjárveitingar til skönnunar kvikmyndaarfsins sem var hluti fjárfestingaráætlunar ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur en ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar lét standa óhaggaða þrátt fyrir að fjárfestingaráætlunin í kvikmyndagerðinni væri slegin út af borðinu að öðru leyti.

Á þessu lokaári fjárveitingarinnar höfum við beint sjónum okkar til Danmerkur því það er efst á verkefnalista okkar að losa frumefni kvikmynda okkar úr prísund í erlendum laboratoríum þar sem því er mikil hætta búin, já glötunin vís eins og nú virðist vera tilfellið með frumnegatíf Atómstöðvarinnar. Við erum núna búin að losa um Nýtt líf og semja burt skuldir af þeirri mjög svo vinsælu kvikmynd og ná skönnunarverði niður með því að senda aðra vinsæla kvikmynd þangað út til skönnunar í eins konar tvenndarpakka, sem er Með allt á hreinu. Hún fór út úr safninu í dag í þremur stórum pappakössum, skömmu áður en 2,5 tonnin frá London komu í hús. Þannig að það er sitthvað að gerast í þessum efnum sem hægt er að gleðjast yfir og ÍKS hefur kannski ekki velt fyrir sér.

Með allt á hreinu fullpökkuð og tilbúin til sendingar til Danmerkur.
Með allt á hreinu fullpökkuð og tilbúin til sendingar til Danmerkur.

Við komumst ekkert áfram með endurgerð íslenska kvikmyndaarfsins í stafrænu formi svo að vit verði í og markmiðum ÍKS og okkar verði náð nema að við festum kaup á nýjum skanner fyrir Kvikmyndasafnið. Með því náum við árangri hvað varðar gæði og langbestri nýting fjármuna sem er ekki lítið atriði þegar heildarkostnaðurinn er mikil, já mjög mikill.

Íslensk þjóð verður að hafa ráð á því að eiga einn skanner sem kostar kannski ekki nema eitthvað í líkingu við einn myndarlegan trukk á þjóðvegum landsins eða kannski grjótflutningabíl Vegargerðarinnar og myndi duga okkur til að flytja kvikmyndaarfinn á 90 km hraða inn í nútímann og þaðan áfram inn í framtíðina. Það er því tillaga mín sem ég mun rökstyðja enn frekar í viðræðum mínum við yfirboðara mína í ráðuneyti kvikmyndanna að við gerum hlé á útlögðum kostnaði fyrir skönnun kvikmynda á næsta ári en einbeitum okkur að því að festa kaup á skanner og uppbyggingu þekkingar til að nýta hann til fulls.

Að vel athuguð máli erum við búin að finna verkfærið og fá í það tilboð, gott tilboð. Það kom á laugardaginn var.

Ef staðið yrði við samning sem gerður var milli menntamálaráðuneytisins og sjónvarpsins árið 2007 um að gera úttekt á sjónvarpsmyndaarfinum með skönnun hans í huga og aðgengi fyrir almenning mynd það verkefni eitt og sér duga fyrir skannerkaupum ef kvikmyndasafninu væri falið verkið sem yrði lang hagkvæmast fyrir sjónvarpið og þjóðina.

Skönnun kvikmynda eftir það væri síðan margfalt ódýrari og öruggari heldur en ef við yrðum að senda alla kvikmyndaarfleifðina út yfir Atlantshafið, á staði þar sem við gætum ekki fylgst með framgangi verksins og gleymum því ekki að það þarf að skanna meira en bíómyndir. Heimildarmyndirnar þurfa sömu umönnun og þar er nú víða pottur brotin, týnd negatíf o.s.frv.

Það er ekki út í loftið sagt að skönnun sjónvarpsmyndasafnsins myndi borga upp skannerinn því við erum búin að greina magn þessa kvikmyndasjóðs og hljóðspólna út frá ákveðnum forsendum og þar með vinna það verk sem átti að klárast á tveimur mánuðum árið 2007 og er forsenda þess að hægt sé að ræða konkret um kostnað við þetta þjóðþrifamál.

Í bréfi ÍKS eru listuð upp nokkur atriði sem félagið leggur áherslu á að höfð séu í huga við endurnýjun kvikmyndaarfsins. Við hjá Kvikmyndasafninu og Kvikmyndamiðstöð erum mjög vel meðvituð um öll þessi atriði. Svo er hitt að um er að ræða tvo megin þætti á þessari vegferð:

1) Skönnun

2) Litgreining og hljóðvinnsla og yfirfærsla í DCP sýningarformat fyrir þær myndir sem sýna á í kvikmyndahúsi, aðrar ekki.

Fyrst um sinn verður það skv. minni sýn verkefni Kvikmyndasafnsins að annast um skönnunina og skráningu hinna stafrænu skráa og tryggingu fyrir varðveislu þeirra til framtíðar í svokölluðu ODA kerfi sem við erum búin að koma okkur upp og gerir ráð fyrir varðveislu í 50 ár og jafnvel miklu lengur. Við höfum jafnframt verið að búa okkur undir þetta fjölþætta stafræna verkefni með ýmsu móti, t.d. uppsetningu miðlægs netþjóns (server), aðlögun skráningarkerfis að stafræna heiminum, fyrirkomulagi á geymslu harðra diska o.s.frv.

Litgreiningin verður hins vegar áfram í höndum hinna sérhæfðu listamanna í einkageiranum þó svo að Kvikmyndasafnið stefni að því að ná ákveðnum tökum á þeim verkþætti í framtíðinni líka til eigin nota. Það er óhjákvæmilegt og í samræmi við það sem er að gerast í kvikmyndasöfnunum erlendis. Það er hins vegar í sambandi við litgreininguna sem kemur til kasta kvikmyndatökumannsins þegar búið er að skanna efnið á einu ljósi þannig að öllum upplýsingum sé til skila haldið í sem allra mestri upplausn.

Hann verður að eiga þess kost að fylgjast með litgreiningunni og hafa áhrif á hana. Hljóðvinnslan er einnig þess eðlis að hún vinnst úti í bæ og þar þarf hljóðmeistari myndarinnar að koma við sögu. Það er samt skemmtilegt að segja frá því að Kvikmyndasfnið er með umtalsverða þekkingu og reynslubolta á sviði hljóðvinnslu sem m.a. nýttist við lagfæringu hljóðrásar Morðsögu.

Það eru spennandi umbreytingatímar framundan og fyllsta ástæða til að óska okkur öllum velfarnaðar og mikillar visku til að breyta rétt svo útkoman verði okkur öllum til mikils sóma, valdhöfunum, Kvikmyndastofnunum og eintaklingunum sem skópu arfleifðina og bera hana áfram á höndum sér.

Erlendur Sveinsson
Erlendur Sveinsson
Höfundur er forstöðumaður Kvikmyndasafns Íslands.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR