Allt að 12 íslenskar bíómyndir í ár?

Útlit er fyrir metár í frumsýningum íslenskra bíómynda, en samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum gætu allt að 12 íslenskar kvikmyndir ratað á bíótjöld í ár.

Þegar hafa verið frumsýndar Fúsi eftir Dag Kára, Blóðberg eftir Björn Hlyn Haraldsson og Austur eftir Jón Atla Jónasson. Væntanlegar eru á árinu auk þeirra; Bakk eftir Davíð Óskar Ólafsson og Gunnar Hansson, Hrútar eftir Grím Hákonarson, Albatross eftir Snævar Sölvason, Webcam eftir Sigurð Anton Friðþjófsson, Reykjavík eftir Ásgrím Sverrisson, Þrestir eftir Rúnar Rúnarsson, Sumarbörn eftir Guðrúnu Ragnarsdóttur, Reykjavik Porno eftir Graeme Maley og Fyrir framan annað fólk eftir Óskar Jónasson. Auk þess verður Everest í leikstjórn Baltasars Kormáks frumsýnd í september.

Bakk: 8. maí

Bakk eftir Gunnar Hansson og Davíð Óskar Ólafsson er væntanleg 8. maí. Gunnar Hansson, Víkingur Kristjánsson og Saga Garðarsdóttir fara með aðalhlutverk í myndinni en önnur helstu hlutverk eru í höndum Þorsteins Gunnarssonar, Ólafíu Hrannar Jónsdóttur, Þorsteins Bachmann, Hönnu Maríu Karlsdóttur, Hallgríms Ólafssonar, Halldóru Geirharðsdóttur og Jóhannesar Hauks Jóhannessonar.

Myndin segir frá tveimur æskuvinum sem ákveða að bakka hringinn í kringum Ísland til styrktar langveikum börnum. Hugmyndin hljómar spennandi í byrjun en fljótlega kemur í ljós að hún er ekki jafn góð og hún virtist í byrjun.

Mystery framleiðir og tökumaður er Árni Filippusson.

Hrútar: lok maí

Hrútar Gríms Hákonarsonar er væntanleg í lok maí en hún verður heimsfrumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Cannes um miðjan maí. Grímar Jónsson hjá Netop Films framleiðir og meðfram­leiðend­ur eru Ditte Mil­sted og Jacob Ja­rek fyr­ir Profile Pict­ur­es í Danmörku. Þá er Þórir Snær Sig­ur­jóns­son einn af fram­leiðend­um mynd­ar­inn­ar. Fram­leiðslu­stjórn er í hönd­um Evu Sig­urðardótt­ur.

Með aðal­hlut­verk fara Sig­urður Sig­ur­jóns­son og Theo­dór Júlí­us­son. Stjórn kvik­mynda­töku er í hönd­um Norðmanns­ins Sturla Brand­th Grøv­len og Kristján Loðmfjörð sér um klipp­ingu. Tónlist er sam­in af Atla Örvars­syni og hljóðhönn­un er í hönd­um Huld­ars Freys Arn­ars­son­ar.

Myndin fjall­ar um tvo sauðfjár­bænd­ur á sjö­tugs­aldri, bræðurna Gumma og Kidda, sem búa hlið við hlið í af­skekkt­um dal á Norður­landi. Fjár­stofn þeirra bræðra þykir einn sá besti á land­inu og eru þeir marg­verðlaunaðir fyr­ir hrút­ana sína. Þrátt fyr­ir að deila sama landi og lífsviður­væri þá hafa bræðurn­ir ekki tal­ast við í fjóra ára­tugi. Þegar riðuveiki kem­ur upp í daln­um gríp­ur um sig mik­il ör­vænt­ing á meðal bænd­anna þar. Yf­ir­völd ákveða að skera niður allt sauðfé til þess að sporna við út­breiðslu sjúk­dóms­ins. Bræðurn­ir standa frammi fyr­ir því að missa það sem er þeim kær­ast og grípa til sinna ráða.

Sigurður Sigurjónsson fer með aðalhlutverkið í Hrútum. Mynd: Sturla Brand Grövlen.
Sigurður Sigurjónsson fer með aðalhlutverkið í Hrútum. Mynd: Sturla Brandth Grövlen.

Albatross: 19. júní

Gamanmyndin Albatross eftir Snævar Sölvason verður frumsýnd 19. júní. Myndin er framleidd af Guðgeiri Arngrímssyni hjá Flugbeittum kuta ásamt Ingvari Þórðarsyni og Júlíusi Kemp hjá Kvikmyndafélagi Íslands. Með helstu hlutverk fara Ævar Örn Jóhannsson, Pálmi Gestsson, Finnbogi Dagur Sigurðsson, Gunnar Kristinsson, Birna Hjaltalín Pálmadóttir, Guðmundur Kristjánsson (Papa Mugg), Ársæll Níelsson, Gabriela Vieira, Gunnar Sigurðsson og Ólafur Halldórsson.

Myndin fjallar um Tómas sem er ástfanginn og ævintýragjarn borgarstrákur sem stefnir að nýjum kafla í lífinu með Rakel kærustunni sinni. Hann eltir ástina út á land og fær vinnu á Golfvelli Bolungarvíkur yfir sumarið. Það renna á hann tvær grímur þegar hann kynnist skrautlegum samstarfsmönnum sínum og ekki tekur betra við þegar hann hittir yfirgengilegan yfirmann þeirra. Stefnt er á að fá stórmót á völlinn yfir sumarið og því öllu tjaldað sem til er. Tómasi líst ekki beint á blikuna en hvað gerir maður ekki fyrir ástina. Hann ákveður að taka slaginn en sumarið tekur aðra stefnu þegar óvænt áföll dynja yfir.

Webcam: 17. júlí

Webcam eftir Sigurð Anton Friðþjófsson er væntanleg 17. júlí. Þetta er gamanmynd um unga stúlku sem byrjar að hátta sig fyrir framan vefmyndavél. Leikstjóri og handritshöfundur er Sigurður Anton Friðþjófsson, Magnús Thoroddsen Ívarsson er framleiðandi. Anna Hafþórsdóttir fer með aðalhlutverk.

Webcam poster

Reykjavík: haust

Reykjavík eftir Ásgrím Sverrisson er væntanleg í haust. Þetta er sætbeiskt rómantískt drama um sambönd og samskipti. Hringur og Elsa eru par í Reykjavík og eiga unga dóttur. Þegar þau ætla að festa kaup á draumahúsinu sínu kemur upp krísa sem leiðir til þess að samband þeirra tekur að gliðna í sundur. Með hjálp vinar síns freistar Hringur þess að bjarga málum áður en það verður of seint.

Með helstu hlutverk fara Atli Rafn Sigurðarson, Nanna Kristín Magnúsdóttir, Guðmundur Ingi Þorvaldsson og Gríma Kristjánsdóttir. Fjöldi annarra leikara kemur fram í myndinni og má þar nefna Hjört Jóhann Jónsson, Völu Kristínu Eiríksdóttur, Margréti Friðriksdóttur, Laufeyju Elíasdóttur, Stefán Hall Stefánsson, Lilju Nótt Þórarinsdóttur, Björn Thors og Friðrik Friðriksson.

Ingvar Þórðarson og Júlíus Kemp hjá Kvikmyndafélagi Íslands framleiða. Sölmundur Ísak Steinarsson, Daníel Gylfason og Dagur Benedikt Reynisson hjá Bobblehead Productions eru meðframleiðendur, tökumaður er Néstor Calvo, Sunna Gunnlaugs gerir tónlist, Ragnar Vald Ragnarsson klippir, Ólöf Benediktsdóttir sér um búninga, Agnar Friðbertsson og Huldar Freyr Arnarson vinna hljóð, Sigurlín Ósk Hrafnsdóttir annast förðun og Níels Thibaud Girerd sér um leikmynd.

Atli Rafn Sigurðarson í Reykjavík eftir Ásgrím Sverrisson.
Atli Rafn Sigurðarson í Reykjavík eftir Ásgrím Sverrisson.

Þrestir: haust

Þrestir eftir Rúnar Rúnarsson er væntanleg í haust. Myndinni er lýst sem ljóðrænu drama sem fjallar um Ara, 16 ára pilt, sem sendur er á æskustöðvarnar vestur á firði til að dvelja hjá föður sínum um tíma. Samband hans við föður sinn er erfitt og margt hefur breyst í plássinu þar sem hann ólst upp. Ari endurnýjar kynnin við Láru, æskuvinkonu sína og þau laðast að hvort öðru.

Með aðalhlutverk fara Atli Óskar Fjalarsson, Rakel Björk Björnsdóttir, Ingvar E. Sigurðsson og Kristbjörg Kjeld. Framleiðendur eru Birgitte Hald, Mikkel Jersin og Rúnar fyrir Nimbus Iceland og Nimbus Danmörku. Meðframleiðendur eru Lilja Ósk Snorradóttir hjá Pegasus og Igor Nola hjá MP Film. Tökumaðurinn Sofia Olsson, klipparinn Jacob Schulsinger og framleiðandinn Mikkel Jersin eru öll skólafélagar Rúnars úr Danska kvikmyndaskólanum, en tvö þau fyrrnefndu gegnu sömu hlutverkum við gerð Eldfjalls, fyrstu bíómyndar Rúnars.

Rúnar Rúnarsson leikstjóri og handritshöfundur.
Rúnar Rúnarsson leikstjóri og handritshöfundur.

Sumarbörn: óvíst

Óvíst er um frumsýningu Sumarbarna eftir Guðrúnu Ragnarsdóttur að sögn framleiðenda sem eru Anna María Karlsdóttir og Hrönn Kristinsdóttir hjá Ljósbandi.

Myndin segir af tvíburasystkinunum Eydísi og Kára sem eru send á Silungapoll vegna heimiliserfiðleika og fátæktar. Börnin trúa því statt og stöðugt að dvölin verði stutt, en biðin veldur þeim síendurteknum vonbrigðum. Dagarnir líða, en Eydís með sinn sterka lífsvilja og lífsgleði yfirstígur hverja hindrunina eftir aðra með ráðsnilld og dugnaði og umhyggju fyrir Kára bróður sínum.

Reykjavik Porno: óvíst

Skoski leikstjórinn Graeme Maley vinnur að kvikmyndinni Reykjavik Porno í samvinnu við framleiðendurna Hlín Jóhannesdóttur og Birgittu Björnsdóttur hjá Vintage Pictures. Myndin segir af ástarsambandi ungs manns og eldri konu, en hún fjallar ekki síður um hvernig við nútímafólk lifum lífi okkar í gegnum skjái, ýmist símaskjái eða tölvuskjái. Með helstu hlutverk fara Ylfa Edelstein, Þuríður Blær Jóhannsdóttir og Albert Halldórsson.

Í samtali við Morgunblaðið í febrúar s.l. sagði Maley, sem hefur unnið við leikstjórn í leikhúsum undanfarin ár, aðallega í Skotlandi, heimalandi sínu, en einnig hér á Íslandi, að þetta sé dramatísk mynd um samtímann.

„Ég gerði hana í hinum gamaldags stíl sem kenndur er við Film-Noir, svo hún er með dökku yfirbragði og þarna er glæpur, andhetja, háskakvendið femme-fatale og annað sem tilheyrir þeim stíl. Yfirbragð myndarinnar er líkt og frá fimmta áratugnum en ég set nútímalíf í Reykjavík inn í þá stemningu. Myndin er um algerlega venjulegt íslenskt fólk sem er að reyna að lifa af, eiga fyrir reikningunum og öðru slíku, rétt eins og við hin.“

Ylfa Edelstein fer með aðalhlutverkið í Reykjavik Porno.
Ylfa Edelstein fer með aðalhlutverkið í Reykjavik Porno.

Fyrir framan annað fólk: jól?

Óskar Jónasson vinnur nú að rómantísku gamanmyndinni Fyrir framan annað fólk eftir handriti sínu og Kristjáns Þórðar Hrafnssonar. Kristinn Þórðarson og Leifur B. Dagfinnsson hjá True North framleiða, en tökur fara fram með hléum fram eftir árinu. Með helstu hlutverk fara Snorri Engilbertsson, Hafdís Helga Helgadóttir, Hilmir Snær Guðnason og Svandís Dóra Einarsdóttir. Klapptré hefur áður sagt frá því að til standi að sýna myndina undir lok árs.

Sagan fjallar um Húbert, sem er mjög félagsfælinn ungur maður og á erfitt með samskipti við fólk almennt og sérstaklega við hitt kynið.  Þegar hann kynnist Hönnu þá bregður hann á það ráð að notast við eftirhermur til að brjóta ísinn með Hönnu. Sambandið þróast en á sama tíma fara eftirhermur Húberts úr böndunum með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

Í spjalli við Fréttatímann í febrúar sagði Óskar frá ferð sinni á Berlínarhátíðina í sama mánuði þar sem hann og framleiðendur ræddu við mögulega samstarfsaðila:

„Þetta er mjög gagnvirkt fyrirkomulag, í rauninni eins og hraðstefnumót. Maður hittir hvern framleiðenda í hálftíma, þar sem farið er yfir framleiðslutengd mál eins og dreifingu og mögulegt samstarf,“ segir Óskar, en það kom honum skemmtilega á óvart hversu mikinn áhuga myndinni var sýndur. „Það hefur verið mikill spenningur fyrir norrænum glæpamyndum og sakamálaseríum undanfarið, en nú er fólk tilbúið fyrir rómantíska gamanmynd frá Skandinavíu.“ Tökur hefjast í vor, en tökuferlið gæti tekið töluverðan tíma, þar sem handritið spannar heilt ár. „Sagan byrjar að vori og árstíðirnar þróast með sögunni.“

Snorri Engilberttson og Óskar Jónasson í stellingum. (Mynd: Fréttatíminn/Hari)
Snorri Engilberttson og Óskar Jónasson í stellingum. (Mynd: Fréttatíminn/Hari)

Rétt er að taka fram að ritstjóri Klapptrés er jafnframt leikstjóri og handritshöfundur kvikmyndarinnar Reykjavík.

Leiðrétting: Kvikmyndarinnar Albatross var upphaflega ógetið en úr því hefur verið bætt.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR