Finnsk/íslenska metsölumyndin „Nöldurseggurinn“ frumsýnd 5. mars í Háskólabíói

the grump

Ein vinsælasta mynd Finna frá upphafi, The Grump eða Nöldurseggurinn, verður frumsýnd með viðhöfn í Háskólabíói næsta fimmtudag og verða leikstjóri hennar, Dome Karukoski, og höfundur bókanna sem myndin er byggð á, Tuomas Kyrö, viðstaddir.

Í tilkynningu frá Græna ljósinu sem sýnir myndina segir að heyrst hafi að Karukoski og Kyrö ætli að hefja skrif á handriti framhaldsmyndar The Grump hér á landi.

Hilmar Örn Hilmarsson samdi tónlistina við The Grump og Ingvar Þórðarson og Júlíus Kemp eru meðframleiðendur.

Nöldurseggurinn sló öll aðsóknarmet á síðasta ári í heimalandi sínu. Í myndinni fá áhorfendur að fylgjast með sauðþráum og íhaldssömum bónda á níræðisaldri sem hefur ævaforn gildi í hávegum. Samkvæmt honum voru börn ekki frek í gamla daga og fólk eyddi aldrei peningunum sínum í vitleysu!

Þegar bóndanum mislíkar eitthvað lætur hann það bitna á öllum þeim sem á vegi hans verða, eins og kemur bersýnilega í ljós þegar hann gengur berserksgang, neyddur til að flytja með sitt hafurtask til sonar síns og yfirþyrmandi tengdadóttur í borginni. Tengdadóttirin Liia er framakona sem ansar ekki nafninu „litla fröken“ og lætur ekki segja sér að konur eigi ekki að aka bílum. Jafnframt á sá gamli bágt með að fóta sig á nútímalegu heimili ungu hjónanna og sættir sig illa við stöðugt ónæðið frá farsímum þeirra.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR