Um sjö þúsund gestir á Stockfish

Á sjöunda þúsund manns sóttu Stockfish hátíðina sem lauk um helgina sem verður að teljast ágætis byrjun.

Fjöldi erlendra gesta sóttu hátíðina heim, bæði úr alþjóðlegu kvikmyndaumhverfi og blaðamenn. Á meðal þeirra voru hinn íslenski Sverrir Guðnason, leikari og Jens Östberg leikstjóri Flugnagarðsins / Blow Fly Park, Óskarsleikstjórinn Rachid Bouchareb og leikkonan, Brenda Blethyn. Einnig komu til landsins norsku leikstjórarnir Unni Straume, Bent Hamer og Eskil Vogt auk Pavel Jech skólameistara hins þekkta FAMU skóla í Tékklandi og Christine Vachon, framleiðanda.

Sigurður Sverrir Pálsson, kvikmyndatökumaður var sérstaklega heiðraður á hátíðinni en hann er hefur filmað alls tólf íslenskar bíómyndir auk fjölda heimildamynda. Auk þeirra voru fjöldamargir fleiri gestir bæði viðstaddir viðburði og sýningar hátíðarinnar.

Sprettfiskurinn 2015, stuttmyndaverðlaun hátíðarinnar fóru til Foxes sem framleidd er af Evu Sigurðardóttur og Askja Films en leikstýrt af Mikel Gurrea. Stuttmyndin fjallar um ungan fasteignarsala sem á rigningarsömu kvöldi í London þarf að sjá um tíu ára son á meðan hann er að reyna að ljúka stórri sölu. Feðgarnir Malcolm og Aron eiga í erfiðum samskiptum en á meðan á þessu gengur eltir dularfullur refur þá um. Í umsögn dómnefndar segir að Foxes sé heilsteypt og einlægt verk sem á erindi við nútímann. „Næmni höfundar fyrir persónusköpun er áþreifanleg, um leið og leikstjórn er sannfærandi og örugg. Í einfaldri sögu er dregin upp mynd af raunveruleika sem ófáir munu kannast við“.

Sex fagfélög í kvikmyndagerð standa að Stockfish – evrópskri kvikmyndahátíð í Reykjavík. Þau eru:  SÍK- Samband Íslenskra kvikmyndaframleiðenda, SKL – Samtök kvikmyndaleikstjóra, FK – Félag kvikmyndagerðarmanna, FÍL – Félag Íslenskra leikara, WIFT – Konur í kvikmyndum og sjónvarpi og FLH – Félag leikskálda og handritshöfunda og skipa fulltrúar þessara félaga stjórn hátíðarinnar. Meðal samstarfsaðila eru Reykjavíkurborg og Evrópustofa.

Fjórar kvikmyndir Stockfish halda áfram í almennum sýningum í Bíó Paradís, hin argentínska Wild Tales / Hefndarsögur sem var leikstýrt af Damián Szifrón og framleidd af Pedro Almodovar. Hún hlaut tilnefningu til Óskarsverðlauna sem besta erlenda myndin. Einnig verður áfram sýnd kvikmyndin sem vann áhorfendaverðlaun hátíðarinnar, What We Do in the Shadows en hún var grínmynd ársins að mati Peter Bradshaw hjá The Guardian. Aðrar myndir sem fara í almennar sýningar eru The Trip to Italy og Flugnagarðurinn – Blowfly Park. Myndin mun jafnframt fara inn í verkefnið Stockfish evrópsk kvikmyndahátíð á hjólum sem verður sett af stað á næstu vikum.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR