Viðhorf | Handritin heim!

Margrét Örnólfsdóttir handritshöfundur og formaður Félags leikskálda og handritshöfunda.
Margrét Örnólfsdóttir handritshöfundur og formaður Félags leikskálda og handritshöfunda.

Íslenskir handritshöfundar er hvorki stór hópur né hávær. Við leggjum yfirleitt gífuryrðin í munn persónanna sem við sköpum og látum það nægja. En manni getur nú sárnað.

Búið er að kynna tilnefningar til Edduverðlaunanna og þar vekur athygli að í handritsflokkinum eru tilnefnd tvö kvikmyndahandrit og eitt handrit að menningar- og skemmtiþætti, nánar til tekið hinum bráðskemmtilega og prýðisvel skrifaða þætti Orðbragð.

Orðbragð fær alveg sérstök persónuleg verðlaun frá mér og mínu heimili en valnefnd Eddunnar og ábyrgðarmönnum Eddunnar sendi ég þrjú stór spurningamerki??? Hvernig er hægt að setja í sama flokk handrit að leiknum kvikmyndum eða leiknu sjónvarpsefni og handrit að þætti eins og Orðbragði? Þarna er stór eðlismunur á.

Nánast allt sem framleitt er fyrir sjónvarp eða hvíta tjaldið byggir á einhvers konar handriti, sama hvort um er að ræða matreiðsluþátt, einfaldan viðtalsþátt þar sem maður talar við mann, heimildamynd, tíu þátta dramatíska sjónvarpsþáttaröð og allt þar á milli. En það er ekki sama handrit og handrit. Að baki handriti að kvikmynd eða leikinni sjónvarpsþáttaröð liggur alla jafna margra ára flókin vinna sem krefst ákveðinnar þekkingar og færni höfundarins eða höfundanna.

Orðbragð eru vandaðir og vel heppnaðir þættir og engum blöðum um það að fletta að þar er unnin mikil og góð handritsvinna en það er engan veginn hægt að leggja það að jöfnu við höfundaverk á borð við handrit að heilli kvikmynd eða sjónvarps-mynd/-þáttaröð.  Til að mynda má benda á að talsverður hluti Orðbragðs byggir á viðtölum eða innleggjum frá viðmælendum, þar sem gera má ráð fyrir að lítil eða engin handritsvinna liggi að baki.

Við sem höfum gert handritsskrif að starfsgrein okkar hljótum að furða okkur á því að „hátíðin okkar“ skuli ekki gæta fagmennsku og standa meiri vörð um sérstöðu okkar, þessarar litlu en talsvert afkastamiklu stéttar á Íslandi. Hvergi annars staðar, á sambærilegum hátíðum víða um heim, myndi það gerast að í flokki handrita væri blandað saman því sem oft er kallað epli og appelsínur en mætti allt eins kalla epli og kjötbollur.

Það er eilífðarbarátta handritshöfunda heimsins að fá að njóta sannmælis, að höfundarréttur sé virtur, að þeirra sé getið í kynningu á verkum þeirra, að það gleymist ekki að tilvist lokaafurðarinnar byggir á höfundaverki og frumsköpun þeirra – handritinu. Megum við ekki að minnsta kosti fá að hafa þennan flokk í friði og baða okkur í eltiljósinu svona einu sinni á ári, við hátíðlegt tækifæri. Handritin heim!

Margrét Örnólfsdóttir
Margrét Örnólfsdóttir
Margrét Örnólfsdóttir er handritshöfundur og formaður FLH, Félags leikskálda og handritshöfunda.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR