spot_img

Greining | 2014 næstbesta ár í aðsókn á íslenskar myndir síðan mælingar hófust

Íslenskar kvikmyndir áttu einstaklega gott ár í kvikmyndahúsunum 2014 og hefur samanlögð aðsókn ekki verið hærri síðan árið 2000, en þá komu flestir að sjá innlendar myndir frá því mælingar hófust 1996. Þá er markaðshlutdeild innlendra mynda hærri en nokkru sinni fyrr. Vonarstræti trónir á toppnum og er jafnframt stærsta kvikmynd ársins í bíóunum, hvort sem litið er til tekna eða aðsóknar.

Alls seldust 148.146 miðar fyrir kr. 196.952.859,- á árinu og er það 11% af aðsókn ársins (13,3% af tekjum), sem er hærra en nokkru sinni fyrr síðan mælingar hófust.

Þrjár íslenskar kvikmyndir röðuðu sér á topp 20 listann yfir tekjuhæstu myndir ársins. Þar er fremst í flokki Vonarstræti sem var tekjuhæsta kvikmynd ársins en hún halaði inn tæpar 70 milljónir króna í tekjur og var jafnframt sú kvikmynd sem hlaut mesta aðsókn með tæpa 48.000 gesti. Þá var kvikmyndin Algjör Sveppi og Gói bjargar málunum í 8. sæti með rétt rúmar 37 milljónir króna í tekjur og rúmlega 32.600 manns í aðsókn þegar þetta er ritað, en myndin er enn í sýningu. Afinn hafnaði í 17. sæti með rúmar 22 milljónir króna í tekjur og tæpa 15.000 gesti. Þess má geta að engin íslensk kvikmynd náði inn á topp 20 listann á árinu 2013.

Þær níu íslensku kvikmyndir sem sýndar voru á árinu voru með 13,3 prósent af markaðinum í tekjum talið en samtals höluðu íslenskar kvikmyndir inn tæpar 197 milljónir króna á árinu 2014. Hvað aðsókn varðar voru íslenskar myndir með 11 prósent af heildaraðsókn en rúmlega 148.000 gestir sóttu kvikmyndahúsin til að sjá íslenska framleiðslu. Þetta er umtalsvert betra en á árinu 2013 þar sem sjö íslenskar myndir voru einungis með 3,6 prósent af markaðinum í tekjum talið og enn minna í aðsókn.

Hér að neðan má sjá listann yfir aðsókn og tekjur á íslenskar kvikmyndir 2014. Athugað að röðun á listann er eftir aðsókn, sem breytir röðinni lítillega miðað við þann lista sem FRÍSK sendir frá sér þar sem miðað er við tekjur.

Aðsókn á íslenskar kvikmyndir 2014

MYNDDREIFINGTEKJURAÐSÓKN
VonarstrætiSena69.677.709 kr.47.982
Algjör Sveppi og Gói bjargar málunum*Samfilm37.064.927 kr.32.623
AfinnSamfilm22.185.100 kr.14.904
Harrý og Heimir: Morð eru til alls fyrstSena15.865.538 kr.12.233
Lífsleikni GillzSamfilm14.146.055 kr.12.165
París norðursinsSena15.392.060 kr.11.479
Borgríki 2: Blóð hraustra mannaMyndform15.532.350 kr.11.024
Grafir og beinSena4.481.680 kr.3.617
Hross í oss**Sena2.607.440 kr.2.119
196.952.859 kr.148.146

*Enn í sýningum. **Eingöngu aðsókn og tekjur 2014, myndin var frumsýnd 2013. | Heimild: FRÍSK.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR