spot_img

Greining | „Vonarstræti“ er stærsta mynd ársins 2014

Aðsóknartekjur í kvikmyndahúsum árið 2014 voru nokkurn veginn á pari miðað við árið 2013 en aðsókn dróst saman um 2,3% miðað við 4% árið áður. Íslenskar kvikmyndir gerðu það gott á árinu og var tekjuhæsta mynd ársins íslensk. Markaðshlutdeild íslenskra mynda var 13,3%, sem er hæsta hlutfall frá því mælingar hófust.

Aðsóknartekjur 2014 voru kr. 1.485.618.475 sem er lækkun upp á 0,4 prósent – eða rúmlega sex milljónir króna, miðað við tekjur á árinu 2013.

2,3% fækkun gesta

Gestir kvikmyndahúsa árið 2014 voru 2,3 prósent færri en árið 2013, eða 1.344.569 manns árið 2014 miðað við 1.375.723 á árinu 2013. Þeim sem sækja kvikmyndahús hefur almennt farið fækkandi síðustu ár, en ef til vill má skýra fækkun gesta á síðasta ári með því að HM í knattspyrnu fór fram á árinu, en vegna þess ákváðu bandarísku kvikmyndastúdíóin að gefa út færri stórar myndir en ella síðasta sumar.

Meðalverð á bíómiða var um 1.105 kr., sem er innan við tveggja prósenta hækkun frá árinu á undan. Hækkun á meðalverði bíómiða og hlutfallsleg minni breyting á tekjum á móti aðsókn skýrist að miklu leyti af fjölda íslenskra kvikmynda sem frumsýndar voru árið 2014, en íslenskar kvikmyndir eru með hærra miðaverð en erlendar myndir. Einnig dró úr aðsókn á kvikmyndir sem voru sýndar í þrívídd og eru með hærra miðaverð. Meðalverð bíómiða á Íslandi er sambærilegt við meðalverð bíómiða í Bandaríkjunum (áætlað að lágmarki 8,15 bandaríkjadalir á árinu 2014), þrátt fyrir að hér sé einn hæsti virðisaukaskattur á bíómiða í heiminum (var 25,5 prósent 2014).

Íslenskar myndir nutu velgengni

Íslenskar kvikmyndir gerðu það gott á árinu og var tekjuhæsta mynd ársins íslensk. Þrjár íslenskar kvikmyndir röðuðu sér á topp 20 listann yfir tekjuhæstu myndir ársins. Þar er fremst í flokki Vonarstræti sem var tekjuhæsta kvikmynd ársins en hún halaði inn tæpar 70 milljónir króna í tekjur og var jafnframt sú kvikmynd sem hlaut mesta aðsókn með tæpa 48.000 gesti. Þá var kvikmyndin Algjör Sveppi og Gói bjargar málunum í 8. sæti með rétt rúmar 37 milljónir króna í tekjur og rúmlega 32.600 manns í aðsókn þegar þetta er ritað, en myndin er enn í sýningu. Afinn hafnaði í 17. sæti með rúmar 22 milljónir króna í tekjur og tæpa 15.000 gesti. Þess má geta að engin íslensk kvikmynd náði inn á topp 20 listann á árinu 2013.

Þær níu íslensku kvikmyndir sem sýndar voru á árinu voru með 13,3 prósent af markaðinum í tekjum talið en samtals höluðu íslenskar kvikmyndir inn tæpar 197 milljónir króna á árinu 2014. Hvað aðsókn varðar voru íslenskar myndir með 11 prósent af heildaraðsókn en rúmlega 148.000 gestir sóttu kvikmyndahúsin til að sjá íslenska framleiðslu. Þetta er umtalsvert betra en á árinu 2013 þar sem sjö íslenskar myndir voru einungis með 3,6 prósent af markaðinum í tekjum talið og enn minna í aðsókn.

Risastór opnunarhelgi þriðju Hobbitamyndarinnar undir lok árs

Önnur tekjuhæsta kvikmynd ársins er lokakaflinn um Hobbitann, The Hobbit: The Battle of the Five Armies, sem náði þeim ótrúlega árangri að hala inn yfir 50 milljónir króna og var með rúmlega 40.000 manns í aðsókn á einungis einni viku. Þá afrekaði hún það að vera með stærstu opnunarhelgi sögunnar í íslenskum kvikmyndahúsum, í tekjum talið, eftir frumsýninguna þann 26. desember sl. Sú þriðja vinsælasta, Guardians of the Galaxy, var jafnframt vinsælasta kvikmyndin í Bandaríkjunum á árinu 2014.

Hér má sjá listann yfir 10 tekjuhæstu kvikmyndir ársins 2014:

MYNDDREIFINGTEKJURAÐSÓKN
VonarstrætiSena69,677,709 kr.47,982
The Hobbit: The Battle of the five Armies*Myndform50,757,536 kr.40,345
Guardians of The GalaxySamfilm49,336,045 kr.40,948
The Secret Life of Walter MittySena41,791,088 kr.37,944
The Hobbit: The Desolation of SmaugMyndform40,766,490 kr.32,162
Algjör Sveppi og Gói bjargar málunum*Samfilm37,064,927 kr.32,623
Interstellar*Samfilm36,804,751 kr.32,936
Dumb and Dumber To*Myndform34,945,080 kr.34,231
The Hunger Games: Mockingjay Part 1*Myndform33,532,515 kr.29,919
The Lego MovieSamfilm30,647,785 kr.34,197

* Þýðir að viðkomandi mynd er enn í sýningum. | Heimild: FRÍSK.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR