spot_img

Ása Helga leitar að ungri leikkonu vegna stuttmyndar

Ása Helga Hjörleifsdóttir leikstjóri.
Ása Helga Hjörleifsdóttir leikstjóri.

Ása Helga Hjörleifsdóttir leitar nú að ungri leikkonu til að fara með eitt af aðalhlutverkum stuttmyndarinnar Vetur, nótt sem tekin verður upp í janúar. Prufur verða haldnar 16., 17., og 18. desember í húsnæði Kvikmyndaskóla Íslands á Grensásvegi 1. Áhugasömum er bent á að hafa samband við casting.vetur@gmail.com

Áætlaðar tökur eru 3 dagar á bilinu 12.-16. janúar 2015 í Reykjavík. Ása Helga segir þetta nokkuð myrka en ljúfsára og á köflum fyndna sögu sem gerist öll á einni nóttu í Reykjavík, í lífi Maríönnu (33) og Védísar dóttur hennar (9 ára), þegar Védis flækist inn í dramtískt augnablik í lífi móður sinnar án þess í raun að skilja það.

Vintage Pictures (Hlín Jóhannesdóttir og Birgitta Björnsdóttir) framleiða myndina.

Maríanna verður leikin af Laufey Elíasdóttur, en leitað er að mótleikkonu hennar, stelpu á aldrinum 8-11 ára. Védísi er lýst sem klárri – á köflum langt á undan mömmu sinni, sem er ekki alltaf mjög raunsæ. „Védís er því kannski nokkuð melankólísk, en ekki síður glettin.“

Ása Helga lauk MFA prófi í kvikmyndagerð frá Columbia háskóla í New York vorið 2012. Hún hefur skrifað, leikstýrt og klippt fjölda stuttmynda og ber þá helst að nefna útskriftarmynd hennar Ástarsögu, sem sýnd hefur verið á yfir 40 hátíðum, unnið til fjölda verðlauna og komist í lokaúrtak fyrir Óskarverðlaunin 2013 í flokki útskriftarmynda úr kvikmyndaskólum.

Ása vinnur nú að sinni fyrstu mynd í fullri lengd, en það er hennar aðlögun á Svaninum eftir Guðberg Bergsson. Handrit Ásu að Svaninum hefur hlotið verðlaun og viðurkenningar á ýmsum vígstöðum, og hefur fengið vilyrði um framleiðslustyrk frá Kvikmyndasjóði Íslands fyrir árið 2016.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR