BÍL vill aukin framlög til kvikmyndagerðar, óskert útvarpsgjald og aukna fjárfestingu í skapandi greinum

fjarlagafrumvarpid_2015Bandalag íslenskra listamanna (BÍL) hefur sent umsögn sína um fjárlagafrumvarpið 2015 til fjárlaganefndar, nefndarmenn allsherjar- og menntamálanefndar fengu umsögnina einnig senda. Meðal annars leggur BÍL til að framlag í Kvikmyndasjóð verði aukið um 200 milljónir króna og að innheimtu útvarpsgjaldi verði skilað að fullu til Ríkisútvarpsins.

Einnig kemur fram í umsögninni að BÍL telji mikilvægt að:

…fjárlaganefnd Alþingis sé upplýst um áform LHÍ um háskólanám í kvikmyndagerð, sem hefur staðið vilji til að koma á en aldrei verið fjárhagslegt svigrúm til þess í fjárframlögum til skólans. Í ljósi velgengni íslenskra kvikmynda á seinni árum og jákvæðra efnahagslegra áhrifa kvikmyndagerðar á þjóðarbúið hvetur BÍL fjárlaganefnd til að skoða auknar fjárheimildir til LHÍ fyrir háskólanám í kvikmyndagerð í fjárlagafrumvarpi 2015.

Einnig segir í umsögninni:

Í umsögn BÍL til fjárlaganefndar 2013 var gagnrýnd sú ákvörðun ríkisstjórnarinnar að hverfa alfarið frá fjárfestingaráætlun fyrri ríkisstjórnar, sem m.a. náði til fjárfestinga í skapandi atvinnugreinum. Sú ákvörðun gerir stöðu skapandi greina í frumvarpi til fjárlaga 2015 lítið betri en hún var í frumvarpinu 2014, þó lítillega hafi verið bætt úr við þriðju umræðu fjárlaga 20. og 21. desember 2014. Þ.a.l. verður í þessum kafla umsagnarinnar litið til fjárlaga 2013 og þeirrar áætlunar um eflingu skapandi greina, sem að mörgu leyti gekk eftir og sýndi sig í hækkuðu framlagi til verkefnatengdra sjóða listgreina og hönnunar á fjárlagaárinu 2013. Í ljósi þeirrar áherslu sem lögð er á eflingu skapandi greina í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar („Ríkisstjórnin leggur áherslu á að styðja við skapandi greinar….“) og einnig í ljósi orða forsætisráðherra í áramótaávarpi sínu til þjóðarinnar um sókn í skapandi greinum („ Til framtíðar hafa skapandi greinar alla möguleika á að verða ein af meginstoðum íslensks atvinnulífs…“) lítur BÍL svo á að ákveðin mistök hljóti að hafa átt sér stað við gerð fjárlagafrumvarpsins 2015 og leggur því í umsögn sinni til nokkrar veigamiklar breytingar svo áform ríkisstjórnarinnar nái fram að ganga.

Sjá nánar hér: Umsögn BÍL um fjárlagafrumvarpið 2015 |.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR