BÍL um RÚV: Ríkisútvarpið verði styrkt

RÚV loftmyndStjórn BÍL hefur sent menningarmálaráðherra eftirfarandi ályktun um málefni Ríkisútvarpsins:

Bandalag íslenskra listamanna beinir þeim eindregnu tilmælum til menningarmálaráðherra fyrir hönd ríkisstjórnarinnar að Ríkisútvarpið verði styrkt svo sem verða má, jafnt í rekstrarlegu sem menningarlegu tilliti, svo tryggt verði að það fái staðið af metnaði undir lagalegu hlutverki sínu á vettvangi almannaþjónustu og menningar. Listamenn líta svo á að RÚV sé hornsteinn menningar og  lista í margbreytilegri fjölmiðlaflóru landsmanna og því nauðsynlegt að stjórnvöld standi við bakið á stjórnendum RÚV í viðleitni þeirra við að bæta rekstrarskilyrði stofnunarinnar. Stjórnvöld þyrftu sannarlega einnig að beita sér fyrir málefnanlegri og faglegri umræðu um framtíð og heill þessarar lífæðar íslenskrar menningar.

Rétt eins og siðmenntað samfélag deilir ekki um gildi og mikilvægi þjóðarbókhlöðu, þjóðminjasafns, þjóðleikhúss og þjóðarlistasafns ættu tilvist og gildi þjóðarútvarps ekki að vera sífellt þrætuepli ráðamanna sem koma og fara. Bandalag íslenskra listamanna krefst þess að stjórnvöld meti RÚV út frá menningarlegum og þjóðfélagslegum gildum og búi stofnuninni þá fjárhagsumgjörð sem tryggir vöxt og viðgang mennta- og menningarmiðstöðvarinnar sem RÚV var er og verður.

Ríkisútvarpið er eini fjölmiðillinn sem sinnir íslenskri listsköpun á markvissan og skipulagðan hátt í öllum sínum miðlum og eini fjölmiðillinn sem samofinn er menningarsögu þjóðarinnar í bráðum 90 ár. RÚV býr yfir ómetanlegum heimildum um þá sögu, sem nú er leitast við að varðveita ásamt því að auðvelda aðgengið með því að miðla henni til þjóðarinnar á rafrænu formi.

Allt frá því RÚV var breytt í opinbert hlutafélag hefur RÚV mátt berjast fyrir tilverurétti sínum. RÚV er í raun eini fjölmiðillinn sem er óháður peningaöflum einkaframtaksins hvað eignarhald varðar og hefur m.a. þess vegna sérstakan sess í hugum þjóðarinnar. Þrátt fyrir áralanga baráttu hefur RÚV lagt sig fram um að sinna skyldum sínum gagnvart íslenska tungumálinu og hefur þannig lagt lóð á vogarskálarnar í menntun þjóðarinnar. RÚV sinnir þannig baráttumálum mennta- og menningarmálaráðuneytis, sinnir skyldum sínum samkvæmt lögum um fjölmiðil í almannaþjónustu og leitast við að starfa í samræmi við menningarstefnu stjórnvalda sem samþykkt var á Alþingi 2013.

RÚV hefur fyrir löngu sannað sig sem ein mikilvægasta menningarstofnun þjóðarinnar allt frá upphafi, uppeldisstofnun okkar mestu lista- og fræðimanna, stofnun sem verðskuldar vernd og virðingu þeirra sem tímabundið halda á stjórnartaumum. Nú er mál að linni. RÚV er þjóðareign. Stjórnvöldum ber að meðhöndla þjóðareignir af virðingu.

Sjá nánar hér: Ályktun stjórnar BÍL um málefni RÚV |

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR