spot_img

Bandalag íslenskra listamanna gagnrýnir niðurskurð harðlega

Bandalag íslenskra listamanna hefur skilað umsögn til fjárlaganefndar Alþingis um frumvarp til fjárlaga árið 2023. Þar segir að verulega sé gengið á sjóði menningar og listsköpunar í fjárlögum, listamannasjóðirnir séu skornir niður sem nemur á bilinu 5-30 prósent.

Vísir greinir frá:

Ákvörðun um ríflega þrjátíu prósenta niðurskurð til Kvikmyndasjóðs er kölluð óskiljanleg, kallað er eftir Þjóðaróperu og krafist skýringa á „andlitslausu“ ráðstöfunarfé menningar- og viðskiptaráðuneytis í málaflokknum.

Niðurskurður til kvikmyndasjóðs hefur verið harðlega gagnrýndur og sjónum beint að 35 prósenta endurgreiðslu frá ríkinu, sem Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra stóð fyrir og er aðeins á færi svokallaðra kvikmyndarisa að nýta sér. Bandalag íslenskra listamanna segja niðurskurðinn jafnframt í hróplegri andstöðu við nýsamþykkta kvikmyndastefnu.

„Það er í raun alveg óskiljanleg ákvörðun að láta það gerast í kjölfar velgengni íslenskrar kvikmyndagerðar og mikilvægi listgreinarinnar í fyrirsjáanlegri framtíð. Sjálfstæð íslensk kvikmyndagerð hefur mikla þýðingu fyrir okkur hér heima fyrir, við að skrásetja okkar eigin samtíma og endurspegla hann okkur til gleði og aukins skilnings. En ekki síður gerir öflug íslensk kvikmyndagerðin okkur kleift að taka þátt í alþjóðlegu umhverfi á okkar eigin forsendum og skapa okkur sjálfstæða rödd í alþjóðlegu umhverfi. Óskiljanleg ákvörðun,“ segir í umsögninni.

„Andlitslaust ráðstöfunarfé“

Þá þurfi að gera grein fyrir því fjármagni sem í dag er stærsti útgjaldaliður samninga og styrkja við listir og menningu sem kallað er „andlitslaust“ ráðstöfunarfé ráðuneytisins. Nokkrar listgreinar láti sér nægja litla sneið af ráðstöfunarfé í þeim kafla málaflokksins. Sá útgjaldaliður hækkar um 10 prósent milli ára, bandalagið kveðst hafa óskað eftir greiningu á slíkum útgjöldum en sú eftirgrennslan hefur ekki borið árangur.

Loks er ítrekað hve illa margir listamenn hafi komið undan þeim samkomutakmörkunum sem faldurinn sett á störf þeirra, en bent á að listamenn séu líklega sá hópur sem fljótastur er að ná vopnum sínum vegna þess hve akur listarinnar er kvikur og lifandi.

„Allar greinar listarinnar eru ekki bara verkfæri í öflugu framtíðarhagkerfi, þar sem verðmætasköpun mun byggja á hugmyndum og mannviti, laða að ferðamenn og hvetja til nýjunga og efla frjósama hugsunar – listin er fyrst og fremst okkar dýrmætasta verkfæri til að auðga mannlíf, dýpka skilning og tala máli mennskunnar. Á því er ekki vanþörf á þessum tímum.“

HEIMILDVísir
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR