SVARTUR Á LEIK verði miðjan í þríleik

Leikstjórinn Óskar Þór Axelsson segir tímann loks réttan til ráðast í ekki eina, heldur tvær framhaldsmyndir af Svartur á leik. Myndin á tíu ára afmæli og er mætt aftur í bíó.

Fréttablaðið greinir frá:

Eins og þetta er oft þá raðast stjörnurnar bara einhvern veginn rétt upp og það er þannig í þessu tilviki,“ segir Óskar Þór Axelsson um ákvörðunina um að ráðast í forleik og eftirleik á Svartur á leik, sem fagnar nú tíu ára afmæli.

Myndin var hans fyrsta í fullri lengd sem leikstjóra og byggðist á samnefndri skáldsögu Stefáns Mána. Myndin fylgir eftir Stebba psycho sem rekst á æskuvin sinn Tóta frá Ólafsvík sem býður honum vinnu. Fyrr en varir er Stebbi flæktur inn í ofbeldisfullan heim eiturlyfja og glæpa.

„Einhvern tímann ekkert svo löngu eftir að myndin kom út þá fékk ég þessa hugmynd. Að hætta að horfa til þess að gera framhald um persónurnar, heldur að horfa á þetta þannig að aðalpersónan sé í raun undirheimarnir,“ útskýrir Óskar um nýju myndirnar tvær sem stefnt er á að komi út 2024 og 2025.

„Að láta þetta ekki snúast um Stebba eða Tóta heldur um sögu undirheimanna. Svartur á leik snerist um það þegar undirheimarnir misstu sveindóminn. Hættu að vera saklausir og urðu skipulagðari með harðari glæpum og þyngri dómum. Nú langar mig að segja söguna alla, frá því þegar undirheimarnir byrjuðu að mótast og til dagsins í dag.“

Óskar útskýrir að fyrri myndin muni tengjast þeim atburðum þegar fyrsti eiturlyfjadómurinn féll hér á landi árið 1975. „Þar ertu með upphafið á níunda áratugnum. Pönkið, Bubbi og spíttið, þegar allt verður harðara,“ útskýrir leikstjórinn.

„Í framhaldsmyndinni af Svartur á leik færum við okkur í nútímann. Stóra fíkniefnamálið eins og við kölluðum málið á sínum tíma er komið í dvergstærð miðað við fíkniefnamál nútímans. Nú eru undirheimarnir miklu skipulagðari, erlendir glæpahringir vaða uppi og þetta er miklu meiri iðnaður og meiri fíkniefnaframleiðsla hér heima. Við horfðum upp á aftöku hér í Rauðagerðismálinu í fyrra.“

Þannig muni persónur myndanna þriggja tengjast en persónur líkt og Jói Faraó, sem brá fyrir í Svartur á leik, muni til að mynda gegna lykilhlutverki í fyrstu myndinni. „Þá verður aðalmaðurinn í seinni myndinni mögulega litli frændi Tóta eða einhver yngri. Þannig að við horfum á þetta sem þríleik þar sem við erum búnir að gera miðjumyndina. Þetta er alveg eins og Star Wars sem byrjaði á kafla fjögur,“ segir Óskar hlæjandi.

Aðspurður segir Óskar að rithöfundurinn Stefán Máni muni koma að handritsgerð við nýju myndirnar og liðsinna teyminu, sem er það sama og skrifaði handritið að upprunalegu myndinni. Óskar segist hafa verið með þríleikinn í maganum í nokkur ár. Aðspurður segist hann vera óhræddur við að fylgja velgengni Svartur á leik loksins eftir.

„Það eru liðin nokkur ár og maður er kominn með svolítið hungur. Það hefði líklega ekki verið sniðugt að fara í þetta strax, heldur leyfa þessu að malla í nokkur ár. Mér finnst líka eitthvað fallegt og rétt við það að þríleikurinn muni spanna 40-45 ár, frá upphafi níunda áratugarins til dagsins í dag. Það er eitthvað ljóðrænt við þetta.“

 

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR