spot_img

Sigurjón Sighvatsson um EXXTINCTION EMERGENCY: Lærdómsrík vegferð

Heimildamyndin Exxtinction Emergency eftir Sigurjón Sighvatsson var frumsýnd á RIFF, en verður í sýningum í Bíó Paradís frá 10. október. Þetta er fyrsta verk Sigurjóns sem leikstjóra en hann hefur framleitt yfir 50 kvikmyndir og þáttaraðir á rúmlega 40 ára ferli. Hann ræddi nýlega við Fréttablaðið um myndina.

Segir á vef Fréttablaðsins:

Sigurjón Sighvatsson varð sjötugur í sumar og áratugum eftir að hann haslaði sér völl sem kvikmyndaframleiðandi í Hollywood ákvað hann að leikstýra sinni fyrstu mynd, heimildarmyndinni Exxtinction Emergency. Myndin, sem fjallar um umhverfissamtökin Extinction Rebellion, verður heimsfrumsýnd á Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Reykjavík, RIFF, á sunnudaginn.

„Já, hvað á maður að segja? Oft er þörf en nú er nauðsyn,“ segir Sigurjón þegar hann er spurður hvað hafi orðið til þess að kvikmyndaframleiðandinn hafi tekið upp á því að setjast í leikstjórastólinn.

„Það var nú bara þannig að ég kynntist þessari hreyfingu og þótti þetta áhugavert,“ segir Sigurjón um Extinction Rebellion sem voru stofnuð í Bretlandi 2018 og vöktu strax mikla athygli fyrir aðferðir sínar til að vekja athygli á sinnuleysi stjórnvalda í loftslagsmálum.

Funheitt mál
Sigurjón segist alltaf hafa haft áhuga á loftslagsmálum og vitnar síðan í einn viðmælandann í myndinni. „Við spurðum hann hvað hann gerði í málunum og hann sagði: Ja, ég endurvinn. Og ég segi það sama. Mitt meginframlag hefur verið að endurvinna og keyra rafmagnsbíla undanfarin tíu ár.

Mér fannst ekki síst aðferð þeirra í baráttunni gegn hlýnun jarðar og loftslagsvánni sem yfir okkur vofir áhugaverð og fór að velta þessu fyrir mér. Ég hef líka í rauninni alltaf haft áhuga á svona friðsamlegum hópmótmælum, ef svo má segja. Þannig að ég hugsaði bara með mér að þetta væri ekki bara spennandi heldur líka mikilvægt efni sem brennur á fólki, bókstaflega, sums staðar.“

Nakinn spinnur í neyð
Sigurjóni fannst því tilvalið að nýta krafta sína í faginu og leggja eitthvað til með því að gera mynd um Extinction Rebellion. „Það er bara neyðin kennir nöktum karli að spinna. Því það var bara enginn sem hafði áhuga á þessu þannig að ég hugsaði bara með mér að ég geri þetta bara sjálfur.“

Sigurjón segir að með fókusinn á Extinction Rebellion verði myndin annað og meira en enn ein myndin um loftslagsvána. „Það er kannski búið að gera svolítið mikið af myndum sem stundum virðast keimlíkar. Heimurinn er að hrynja. Allt í steik og menn eiga bara að hætta öllu á morgun.

Ég hugsaði með mér að með því að skoða hreyfinguna væri í rauninni hægt að fjalla um þetta á svolítið annan hátt. Ekki síst af því að hún var rétt að byrja og mér fannst fróðlegt að fylgjast með því og áhugavert að geta verið inni í þessu frá byrjun.“

Fljótur að kveikja
Sigurjón segist hafa orðið var við Extinction Rebellion örfáum mánuðum eftir að hreyfingin varð til vorið 2018 og við gerð myndarinnar hafi hann meðal annars lagt upp með spurninguna um hvernig slík hreyfing verður til.

„Ekki síst mótmælendahreyfing sem leggur sem sagt, kannski í anda Gandhi og Martin Luther King, áherslu á friðsamleg mótmæli. Þau segjast náttúrlega hafa svokallað „nonviolent civil disobedience“ að leiðarljósi.

„Þegar ég var að fara af stað með þetta fann ég að það var enginn áhugi hjá þeim kvikmyndafyrirtækjum sem ég hafði samband við og höfðu verið svolítið í þessum geira vegna þess að oft sérhæfa fyrirtæki sig í ákveðnum tegundum heimildarmynda,“ segir Sigurjón og bendir á að kvikmyndabransinn hafi alltaf verið mjög sérhæfður.

Mikilvæg heimild
„Ekki síst í Hollywood sem byggir á sérhæfingunni og ég áttaði mig á að það vissi enginn í Ameríku neitt um hreyfinguna sem byrjaði í Bretlandi og var þá varla komin til Bandaríkjanna.

Þannig að fólk var ekkert að stökkva á þetta og á meðan leið tíminn og ég ákvað bara að fara í þetta sjálfur. Mér fannst þetta vera það mikilvægt mál og merkileg hreyfing að það væri vert að skrá þetta, eða dokúméntera eins og við segjum á góðri íslensku.“

Sigurjón var kominn af stað og byrjaður að taka viðtöl um mitt ár 2019 og þegar Covid skall á vöknuðu ýmsar spurningar um framhaldið, meðal annars hvort réttast væri að hætta þessu og hvort hreyfingin myndi lifa faraldurinn af. „Mér fannst það svo eiginlega jafn áhugaverð spurning. Hvað gerist? Vegna þess að í október 2018 voru þau strax komin með rosalegan slagkraft. Þannig að við ákváðum bara að halda þessu áfram og nota nútímatæknina og taka viðtölin sem okkur vantaði á Zoom.

Þau sendu okkur líka fullt af efni enda greinilega mjög ástríðufull og kannski þakklát fyrir að einhver skyldi vilja segja frá því sem þau voru að gera. Hugmyndin var í rauninni ekki að ég sjálfur væri að leggja mat á það heldur bara að sýna fram á það sem þau eru að gera og rekja aðeins söguna. Og þá ekki síður að flétta því líka í leiðinni inn hvernig svona samtök verða til og hvernig þau þróast.“

Heppilegur eðlismunur
Sigurjón bendir á að þarna hafi sá eðlismunur sem er á heimildarmyndum og leiknum kvikmyndum verið honum í hag. „Heimildarmyndir eru allt annars eðlis. Þær eru ekki eins afmarkaðar í tíma og rúmi og þegar þú ert að gera leikna bíómynd. Það er auðvitað kostur vegna þess að ég var alltaf að breyta myndinni. Þetta var síbreytilegt verkefni vegna þess að Extinction Rebellion og umhverfismálin sjálf eru á sífelldri hreyfingu.“

Sigurjón segist því hafa getað notað tímann til þess að betrumbæta myndina, skerpa fókusinn og gera hana hnitmiðaðri. „Frekar en að reyna að koma þessu öllu fyrir og þetta er bara útkoman.

Covid breytti ekki bara okkar aðferðum heldur líka öllu fyrir svona hreyfingar vegna þess að kjölfesta þeirra er auðvitað að geta safnast saman. Það er styrkur í fjöldanum þannig að Covid hafði auðvitað ýmis áhrif en þau lærðu líka að laga sig að aðlaga sig Covid og þegar mesta váin er gengin yfir hefur hreyfingin ekki aðeins náð að halda áfram, heldur hefur hún eflst á alheimsvísu. Fyrir utan að hún hefur náð fram ýmsum markmiðum og það stærsta var að ná því fram að Bretland viðurkenndi að það væri neyðarástand í heiminum í loftslagsmálum.“

Lærdómsrík vegferð
„Auðvitað lærir maður mikið af öllu en kannski hefði ég ekkert farið út í þessa vegferð ef ég hefði vitað hvað hún væri mikil vinna og tæki langan tíma þó svo að ég sé í bransanum,“ segir Sigurjón þegar talið berst að ólíkum hlutverkum framleiðanda og leikstjóra. Einhverju sem þvældist að vísu lítið fyrir honum við gerð Exxtinction Emergency.

„Fyrir utan það að ég fjármagnaði myndina sjálfur af því ég vildi ekki vera að rífast við einhverja fjárfesta. Ég hafði bara allt að segja um það hvernig myndin yrði gerð.“

Klassískur núningur milli leikstjóra og framleiðanda núllaðist þannig út með endanlegu ákvörðunarvaldi leikstjórans í stóru sem smáu við gerð Exxtinction Emergency.

„Ég ætla ekki að segja að ég hafi gert fullt af heimildarmyndum en ég hef gert nokkrar sem hafa gengið vel en þar var ég ekki að leikstýra. Ég var svo heppinn að gera til dæmis heimildarmynd eins og Truth or Dare með Madonnu sem gekk gífurlega vel í bíó út um allan heim. Og það var sérstakur tími og sérstakur staður og auðvitað sérstök manneskja.

Framleiðir sem aldrei fyrr
Mér fannst í rauninni bara skemmtilegt og spennandi að takast bara á við enn eitt nýtt hlutverk,“ segir Sigurjón og leggur áherslu á mikilvægi þess að vera alltaf að skipta um hlutverk. „Þótt ég hafi í rauninni alltaf verið í einu grunnfagi,“ segir Sigurjón sem ætlar ekki að láta staðar numið sem leikstjóri.

„Ég er með tvær aðrar í vinnslu núna og með fínt fólk sem meðleikstjóra. Ég held að það sé líklegra til árangurs og kannski fljótlegri leið að vinna með einhverjum sem er þegar með reynslu í greininni sem leikstjóri og er til í að vinna með mér sem meðleikstjóra í krafti hugmyndavinnu minnar, aldurs og fyrri starfa.

Fyrir mig var þetta auðvitað skemmtileg, ný reynsla og auðvitað flott að vera í þessum stól. Ekki síst þegar maður heldur áfram að framleiða en ég er að framleiða fleiri myndir í einu núna en nokkurn tímann áður,“ segir Sigurjón og nefnir þrjár myndir sem verið er að frumsýna þessar vikurnar og hann kemur að, ýmist sem leikstjóri, aðalframleiðandi eða meðframleiðandi; Exxtinction Emergency, Hilma sem Lasse Hallström leikstýrir og Sumarljós og svo kemur nóttin eftir Elfar Aðalsteins.


Rétt er að taka fram að ritstjóri Klapptrés er meðframleiðandi þessarar kvikmyndar.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR