Íslenskar kvikmyndir í kreppu?

Gunnar Smári Egilsson og Hlín Agnarsdóttir ræða um inntak íslenska kvikmynda við Brynju Þorgeirsdóttur í Djöflaeyjunni.
Gunnar Smári Egilsson og Hlín Agnarsdóttir ræða um inntak íslenska kvikmynda við Brynju Þorgeirsdóttur í Djöflaeyjunni.

Gagnrýnendur Djöflaeyjunnar, Hlín Agnarsdóttir og Gunnar Smári Egilsson, ræddu um íslenskar kvikmyndir í þætti kvöldsins í tilefni þess að á dögunum voru alls sex íslenskar kvikmyndir í sýningum á bíóunum. Þátturinn sendi þau að sjá allar þessar myndir (Borgríki 2, Afann, Algjöran Sveppa 4, Vonarstræti, París norðursins og Grafir og bein). Þeim fannst heilt yfir frekar lítið til þessara mynda koma, nefndu flatar persónur, áberandi karllæga sýn og að handrit væru almennt ekki nógu áhugaverð.

Hlín sagði eftirlíkingar eða eftirhermur af því sem við höfum séð í bíómyndagerð á undanförnum áratugum áberandi. Hún taldi vanta uppá pælingar um íslenskan veruleika og spurði:

„Afhverju eru þessir menn sem eru að búa til kvikmyndir, ekki að búa til myndir sem eru um okkur hér og nú?“

Gunnar Smári sagði gallann við flestar þessara mynda vera handritið.

„Við hljótum að velta því fyrir okkur hversvegna þessum myndum er hleypt af stað ef handritin eru svona götótt, ef persónur eru svona flatar og ef handritin hafa svona litla skírskotun til okkar tíma, ef spenna milli persóna er svona léleg, plottið svona götótt eins og á við um sumar, ef að gamanmyndirnar eru svona ófyndnar.“

Hlín sagði hryllilega lélegar kvenmyndir áberandi og lítið um almennileg kvenhlutverk. Gunnar Smári tók undir og sagði kvikmyndabransann á Íslandi „voðalegan strákaheim“.

Hlín sagði Vonarstræti standa uppúr:

„Þar leyfa höfundarnir sér að fara á djúpið og skapa persónur. Þó ekki hafi allt heppnast í þeirri mynd þá var verulega ánægjulegt að vera í bíó og horfa á þessar persónur og þær sögur sem fóru þar fram.“

Þáttarstjórnandinn, Brynja Þorgeirsdóttir, spurði hversvegna ástandið væri svona. Gunnar Smári taldi Kvikmyndamiðstöð Íslands vera í einhverskonar kreppu.

„Hún ætti að leggja línurnar, hvað hún ætli sér að gera, hvernig hún ætli að þroska íslenska kvikmyndagerð, aðstoða fólkið við að komast yfir á næsta þrep.“

Hlín sagðist telja skynsamlegt að íslenskir kvikmyndagerðarmenn sæktu meira í okkar arf.

„Þá á ég ekki aðeins við sagnaarfinn heldur einnig íslenskar skáldsögur. Skáldsagan liggur miklu nær kvikmyndaforminu heldur en nokkurntíma leikhúsinu, en samt eru það leikhúsin sem taka að sér að leikgera íslenskar skáldsögur. Ég held að ungir íslenskir kvikmyndagerðarmenn gætu lært mjög mikið af því að lesa meira.“

Í lok innslagsins fóru þau hinsvegar lofsamlegum orðum um heimildamyndina Salóme eftir Yrsu Roca Fannberg.

Sjá má spjall þeirra hér.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR