spot_img

Heimildamyndin „Svartihnjúkur“ í hópfjármögnun á Karolina Fund

svartihnjúkur stillHeimildamyndin Svartihnjúkur-stríðssaga úr Eyrarsveit, segir frá árekstri íslenskrar sveitakyrrðar og hrikaleik heimstyrjaldarinnar síðari. Á heimasíðu Karolina Fund  fer nú fram hópfjármögnun vegna verkefnisins.

Hjálmtýr Heiðdal hjá Seylunni stýrir verkefninu, sem er langt komið í vinnslu og aðeins lokahnykkurinn eftir. Myndin er að mestu fjármögnuð með sölu til RÚV, styrk frá Kvikmyndamiðstöð og nokkrum öðrum aðilum.

Hjálmtýr segir þó lokasprettinn eftir; fjármagn skorti til að kaupa erlent safnaefni, kvikmyndir sem teknar eru hér á landi í stríðinu og sýna vel hvað Ísland var mikilvægt í baráttunni um Atlantshafið. Fundist hafi mikið af girnilegu kvikmyndaefni sem ekki hefur sést hér áður, en þetta myndefni sé fremur dýrt og hafi sprengt fjárhagsáætlun verkefnisins. Til að bregðast við þessu var ákveðið að reyna að safna fyrir myndefninu með hjálp almennings, hægt er að taka þátt í söfnuninni hér.

Myndinni er lýst þannig:

Íslenskir bændur voru rifnir úr hversdagslegum búverkum til þess að fara á fjöll að leita að týndri herflugvél. Lýsingar þeirra á hrikalegri aðkomu og líkburði hafa lifað meðal sveitunga þeirra fram á þennan dag.

Margvíslegar sögusagnir hafa spunnist um afdrif bresku flugmannanna og við kynnumst því hvernig íslensk þjóðtrú leitast við að útskýra ógnirnar og afleiðingar þeirra.

Líflína andstæðinga nasistaherjanna byggðist á birgðaflutningum skipalestanna sem m.a. komu við í Hvalfirði. Verkefni flugmannanna sem fórust við Svartahnjúk var að leita að kafbátum og herskipum Þjóðverjar sem reyndu að granda flutningaskipunum á leið yfir Atlantshafið.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR