Íslendingur meðal framleiðenda afganskrar kvikmyndar, lokahnykkur í fjármögnun stendur yfir

Anton Máni Svansson framleiðandi.
Anton Máni Svansson framleiðandi.

Afganska kvikmyndin Wolf and Sheep er nú í fjármögnun og verður það fyrsta myndin frá þvísa landi sem leikstýrt verður af konu. Anton Máni Svansson hjá Join Motion Pictures er einn framleiðenda myndarinnar, sem meðal annars leitar framleiðslufjár gegnum hópfjármögnun.

Anton Máni segir þetta fyrstu afgönsku „art-house“ myndina frá upphafi. Ung baráttukona að nafni Shahrbanoo Sadat er höfundur verksins en hún var aðeins tvítug er hún var valin með þetta verk inní leikstjórnarsmiðju Cannes kvikmyndahátíðarinnar og er þar af leiðandi yngsti leikstjórinn frá upphafi smiðjunnar til að hljóta þann heiður. Í dag er hún 24 ára og er loks að nálgast þann áfanga að koma myndinni í tökur en áætlað er að hefja þær í maí á næsta ári að sögn Antons Mána.

Danskur aðalframleiðandi myndarinnar, Katja Adomeit hjá Adomeit Film (meðframleiðandi á Turist, aðalframleiðandi á t.d. The Weight of Elephants),  hefur fengið framleiðendur frá nokkrum löndum til liðs við sig. Verkið hefur nú þegar fengið nokkra þróunarstyrki víðsvegar frá sem og framleiðslustyrk frá Danska sjóðnum en þó vantar enn talsvert uppá til að hægt sé að setja verkefnið af stað. Til að freista þess að klára dæmið fer nú fram söfnun meðal almennings á hópfjármögnunarsíðunni Pozible.com. Markmið er að safna eitt hundrað þúsund dollurum og eru nú 20 dagar til stefnu.

Anton Máni segir markmiðið að fá sem mest af íslensku kvikmyndagerðarfólki inní verkið en fjöldi þess ráðist af endanlegu íslensku framlagi.

Nánar um verkefnið hér.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR