spot_img

Átta ný framleiðslufyrirtæki til liðs við SÍK, ný stjórn kjörin

Aðalfundur Sambands íslenskra kvikmyndaframleiðenda, SÍK, var haldin á dögunum. Átta kvikmyndaframleiðendur hafa gengið til liðs við SÍK, sem ber vott um þá miklu grósku sem nú er í íslenskri kvikmyndagerð.

Fyrirtækin átta eru RVK Studios, Go to sheep, Akkeri Films, Compass Films, Fenrir Films, Norður, Mystery Ísland og Gunhil. Eftir inngöngu þeirra eru því nú 39 fyrirtæki aðilar að SÍK.

Ný stjórn var kosin á aðalfundinum. Í henni sitja Anton Máni Svansson hjá Join Motion Pictures sem er jafnframt formaður SÍK, Hilmar Sigurðsson hjá GunHil, Kristinn Þórðarson hjá Black Cliff Productions, Agnes Johansen hjá RVK Studios, Hanna Björk Valsdóttir hjá Akkeri Films, Inga Lind Karlsdóttir hjá Skot Productions og Heather Millard hjá Compass Films.

Á fundinum var því jafnframt fagnað að 10 ár eru liðin frá aðild SÍK að Samtökum iðnaðarins (SI) og var af því tilefni undirritað nýtt samkomulag SÍK og SI um áframhaldandi samstarf.

Anton Máni Svansson, formaður SÍK, segist spenntur fyrir  áframhaldandi uppbyggingu atvinnugreinarinnar í samvinnu við samtökin. „Samstarf okkar og SI verður sterkara með hverju árinu. Framundan er fjöldinn allur af mikilvægum og krefjandi verkefnum sem ég er bjartsýnn á að við munum leysa vel af hendi þar sem samstaða kvikmyndaframleiðenda hefur sjaldan verið jafn sterk og nú. Ég tel mikinn feng í því að fá þær Agnesi Johansen, Hönnu Björk Valsdóttur, og Heather Millard inn í stjórn SÍK, og á sama tíma vil ég þakka Hlín Jóhannesdóttur, Guðbergi Davíðssyni og Júlíusi Kemp fyrir þeirra mikilvæga framlag og mjög svo ánægjulegt samstarf.“

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, segir það hafa verið ánægjulegt að fylgjast með íslenskum kvikmyndaiðnaði vaxa og dafna á undanförnum árum. “Samstarf og samvinna Samtaka iðnaðarins og SÍK hefur gengið vel á síðastliðnum áratug og fögnum við því að fá inn enn fleiri félagsmenn í kvikmyndaiðnaði á þessum tímamótum þegar áratugur er liðinn frá aðild SÍK að SI.“

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR