“Salóme”, “Leitin að Livingstone”, “Málarinn”, “Hjónabandssæla” og “Megaphone” fulltrúar Íslands á Nordisk Panorama

Damon Younger og Sveinn Þórir Geirsson í Leitinni að Livingstone eftir Veru Sölvadóttur.
Damon Younger og Sveinn Þórir Geirsson í Leitinni að Livingstone eftir Veru Sölvadóttur.

Stuttmyndirnar Leitin að Livingstone eftir Veru Sölvadóttur, Hjónabandssæla eftir Jörund Ragnarsson, Málarinn eftir Hlyn Pálmason og Megaphone eftir Elsu Mariu Jakobsdóttur og heimildamyndin Salóme eftir Yrsu Rocu Fannberg, sem á dögunum hlaut áhorfendaverðlaun Skjaldborgarhátíðarinnar, verða fulltrúar Íslands á Nordisk Panorama hátíðinni sem fram fer í Malmö í Svíþjóð dagana 19.-24. september næstkomandi.

Salóme er heimildamynd sem fjallar um Salóme Herdísi Fannberg veflistakonu. Salóme hætti að búa til list til að geta sinnt lífinu. Núna er það listin sem heldur henni lifandi. Myndin mun taka þátt í keppni heimildamynda.

Leitin að Livingstone er stuttmynd sem segir frá Þór og Denna, en þeir leggja af stað í leiðangur um Suðurlandið í leit að tóbaki en allt tóbak í borginni er uppurið vegna verkfalls opinberra starfsmanna. Áhorfandinn kynnist þessum kláru en klaufalegu félögum á ferðalaginu og örvæntingarfullri leit þeirra að tóbaki, sem þeir trúa stöðugt að sé handan við hornið. Myndin mun taka þátt í keppni stuttmynda.

Megaphone er stuttmynd um einnar nætur gaman sem hefur ófyrirséðar afleiðingar. Myndin mun taka þátt í keppni stuttmynda.

Hjónabandssæla er stuttmynd er segir frá tveimur körlum á sjötugsaldri sem búa á Patreksfirði og deila lífi sínu með hvorum öðrum í blíðu og stríðu. Ævilöng vinátta þeirra á undir högg að sækja þegar aðlaðandi kona á þeirra aldri birtist óvænt í heita pottinum þeirra. Myndin verður hluti af New Nordic Voices keppninni.

Málarinn er stuttmynd um vinsælan myndlistarmann sem lifir mjög einangruðu lífi. Myndverkin eru hans drifkraftur í lífinu og hann veit ekki hvernig hann á að taka á því þegar sonur hans kemur óvænt í heimsókn. Skyndilega er hann í miðjunni á óreiðukenndu ástandi, sem setur bæði hann og verk hans úr jafnvægi. Myndin mun taka þátt í New Nordic Voices keppninni.

Sjá nánar hér: Nordisk Panorama – Docs in Competition 2014.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR