„Þrestir“ Rúnars Rúnarssonar í tökur 14. júlí

Rúnar Rúnarsson leikstjóri og handritshöfundur.
Rúnar Rúnarsson leikstjóri og handritshöfundur.

Tökur hefjast 14. júlí á nýjustu mynd Rúnars Rúnarssonar, Þröstum (Sparrows). Tökur munu að mestu leyti fara fram á Vestfjörðum. Danska framleiðslufyrirtækið Nimbus framleiðir ásamt Nimbus Iceland og í samvinnu við Pegasus og MP Films í Króatíu.

Þrestir er ljóðrænt drama sem fjallar um Ara, 16 ára pilt, sem sendur er á æskustöðvarnar vestur á firði til að dvelja hjá föður sínum um tíma. Samband hans við föður sinn er erfitt og margt hefur breyst í plássinu þar sem hann ólst upp. Ari endurnýjar kynnin við Láru, æskuvinkonu sína og þau laðast að hvort öðru.

Atli Óskar Fjalarsson, sem meðal annars fór með hlutverk í stuttmynd Rúnars Smáfuglar, mun leika aðalhlutverkið. Rakel Björk Björnsdóttir leikur Láru og Ingvar E. Sigurðsson leikur föðurinn.

Tökumaðurinn Sofia Olsson, klipparinn Jacob Schulsinger og framleiðandinn Mikkel Jersin eru öll skólafélagar Rúnars úr Danska kvikmyndaskólanum, en tvö þau fyrrnefndu gegnu sömu hlutverkum við gerð Eldfjalls, fyrstu bíómyndar Rúnars.

Rúnar segir í spjalli við Screen að hann hafi af einhverjum ástæðum þörf fyrir að gera myndir um sjálfan sig og fólkið sem hann þekki og þyki vænt um. „Það er lykilatriði fyrir mig að vinna innan kunnuglegs ramma. Að sameina reynslu af fyrstu og annarri hendi sem grunn sögunnar. Þessum kjarna úr raunveruleikanum breyti ég svo og blanda saman við skáldskap. Vestfirðir með sínu stórbrotna landslagi og veðruðu bæjum sem berjast fyrir tilveru sinni er heillandi sögusvið fyrir frásögn um fólk á tímamótum og staður sem ég tel vera mitt annað heimili.“

Í sömu frétt segir framleiðandinn Mikkel Jersin myndina vera þroskasögu ætlaða fullorðnum en ekki börnum. Kostnaðaráætlun hljóðar uppá 232 milljónir króna. Verkefnið er styrkt af Kvikmyndasjóði, Dönsku kvikmyndastofnuninni og Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðnum.

 

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR