spot_img

Kristín Jóhannesdóttir undirbýr nýja kvikmynd

Hverju sinni er fjöldi verkefna á mismunandi stigum vinnslu í bransanum, ekki síst á hugmynda- og skriftarstiginu. Maður heyrir af mörgum þessara verkefna á skotspónum, í óformlegu spjalli, eða á vef Kvikmyndamiðstöðvar (41 verkefni fengu t.d. handritsstyrki á síðasta ári) en það er bæði sjálfsagt og eðlilegt að geyma umfjöllun fyrr en þau eru komin á einhverskonar framkvæmdastig.

Mig langar þó að gera undantekningu varðandi eitt slíkt verkefni sem ég frétti af nýlega. Kristín Jóhannesdóttir leikstjóri undirbýr nú gerð nýrrar bíómyndar í samstarfi við Guðrúnu Eddu Þórhannesdóttur framleiðanda hjá Duo Productions. Verkið ber vinnuheitið Þá og þegar, elskan. Stefnt er að tökum á næsta ári, en líkt og gerist með flestar kvikmyndir er það háð fjármögnun frá Kvikmyndasjóði og fleiri aðilum.

Þrátt fyrir þennan fyrirvara eru þetta ánægjuleg tíðindi, ekki síst vegna þess að Kristín hefur ekki gert bíómynd í yfir tvo áratugi, en síðasta mynd hennar í fullri lengd, Svo á jörðu sem á himni, var frumsýnd 1992. Síðan þá hefur Kristín að mestu starfað innan leikhússins og sett upp fjölmargar sýningar sem vakið hafa mikla athygli, t.d. Utan gátta, Svartur hundur prestsins, Einhver í dyrunum, Beðið eftir Godot, Rautt, Hús Bernörðu Alba og Karma fyrir fugla.

Þá og þegar, elskan mun vera örlagagasaga ungrar konu, Ölmu, sem er lokuð inni á réttargeðdeild eftir að hafa játað á sig morð á kærastanum án þess þó að muna eftir þeim atburði. Eftir sjö ár berast þær fréttir að kærastinn sé sprellifandi og á leið til landsins. Hún ákveður að drepa hann þar sem hún er hvort sem er búin að afplána dóm fyrir glæpinn.

Kristín hefur einstakt sjónarhorn á tilveruna eins og sjá má í kvikmyndaverkum hennar. Þetta eru vissulega ekki gallalaus verk en bera með sér listrænan kjark og sterka myndræna sýn; vogaðar tilraunir með miðilinn og möguleika hans. Ég tel hana hafa verið í hópi framsæknari leikstjóra Evrópu á sínum tíma og vil ganga svo langt að fullyrða að það sé menningarlegt slys að henni hafi ekki auðnast að gera fleiri myndir hingað til. Um leið hef ég fulla trú á að það verði mikill fengur að nýrri bíómynd frá henni.

Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson er kvikmyndagerðarmaður og ritstjóri Klapptrés.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR