Doris Film: nafnlaus handritasamkeppni ætluð konum

doris_headerSérstakt samstarfsverkefni WIFT í Noregi og á Íslandi, Doris Film, býður íslenskum og norskum konum til handritasamkeppni fyrir stuttmynd en verkefnið hlaut styrk úr Framkvæmdasjóði til jafnréttismála. Frestur til að senda inn tillögur er til 1.maí næstkomandi.

Samkeppnin er opin öllum konum og er beðið er um 1 A4 síðu tillögu að stuttmyndahandriti. Umsækjendur þurfa ekki að hafa reynslu af kvikmyndagerð né vera reyndir handritshöfundar. Fagnefnd velur síðan úr hugmyndum sem komast áfram og fara í gegnum þrjú þróunarstig þar til fimm handrit í hvoru landi eru tilbúin til framleiðslu.  Allar myndirnar verða að vera með a.m.k eina konu í aðalhlutiverki.

Verkefnið Dorisfilm miðar að því að rannsaka hvernig sögur líta dagsins ljós þegar konur bera ábyrgð á öllum lykilhlutverkum í kvikmyndagerð og þegar konur eru í aðalhlutverki sem söguhetjur.

Verkefnið er aðlögun að sænsku Dorisfilm verkefni, sem hóf göngu sína árið 1999 og gekk mjög vel. Í Svíþjóð komu inn 406 tillögur í keppnina sem fór þvert á það sem kvikmyndamiðstöð þar í landi hafði haldið fram; að konur bara skrifi ekki.  Þaðan eru reglurnar komnar en þær eru eftirfarandi:

  • Öll handrit skulu skrifuð af konum
  • Allar myndirnar eiga að vera með í það minnsta eina konu í aðalhlutverki
  • Allar listrænar ákvarðanir og aðalábyrgðarstöður eiga vera í höndum kvenna
  • Öll frumsamin tónlist á að vera samin af konum.

Markmiðið er að rannsaka og stuðla að fjölbreyttari kynjahlutverkum og hlutföllum í myndrænum miðlum þ.e. kvikmyndum, sjónvarpi og öðrum myndrænum miðlum.

Samkeppnin er nafnlaus í fyrstu umferð og hægt er að sækja um á wift.is.

Dögg Mósesdóttir formaður WIFT á Íslandi er verkefnastjóri Doris Film á Íslandi.

WIFT hefur nýverið opnað nýja heimasíðu þar sem einnig má finna lista yfir konur í kvikmyndageiranum og á Íslandi auk annars fróðleiks og frétta um konur í greininni.

WIFT eru alþjóðleg samtök kvenna í kvikmyndum og sjónvarpi en Íslandsdeild WIFT var stofnuð árið 2006. Aðalmarkmið samtakanna eru að stuðla að fjölbreytni í myndrænum miðlum með því að virkja og fræða konur og auka þátttöku þeirra í öllum hlutverkum innan framleiðslu kvikmynda, sjónvarps og annarra myndrænna miðla.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR