spot_img

FK gert að stéttarfélagi

fk-logoBreyta á Félagi kvikmyndagerðarmanna (FK) í stéttarfélag og mun félagið verða hluti af Rafiðnaðarsambandi Íslands (RSÍ). Sérstakur félagsfundur verður haldin í kvöld kl. 18 þar sem drög að nýjum lögum félagsins verða kynnt og rædd. Lögfræðingar félagsins og RSÍ mæta til að svara spurningum félagsmanna.

Að sögn Hrafnhildar Gunnarsdóttur formanns FK er hugmyndin að ganga síðan frá endanlegum lagatexta og bera hann upp á aðalfundi félagsins sem haldinn verður innan nokkurra vikna. Hugmyndin er gefa út viðmiðunartaxta í framhaldinu og munu félagsmenn þá greiða hlutfall af launum sínum til félagsins, líkt og tíðkast hjá öðrum verkalýðsfélögum og með þeim réttindum sem í því felast. Einnig verður boðið uppá almenna félagsaðild og í framhaldi, gangi áætlanir eftir, verða gerðir heildarsamningar við Samtök atvinnulífsins

Óhætt er að kalla þetta tímamót, en rætt hefur verið um þessi mál í vel á annan áratug. FK, sem stofnað var 1966, hefur ávallt verið hagsmunafélag en ekki samið fyrir hönd félagsmanna sinna um kaup og kjör. Ekkert slíkt félag hefur verið til, en þó eru margir starfsmenn sjónvarpsstöðvanna í félögum á borð við Rafiðnaðarsambandið og Bandalag háskólamanna.

Þá má og geta þess að Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda (SÍK) gerðist aðili að Samtökum iðnaðarins – og þá um leið Samtökum atvinnulífsins – á síðasta ári.

 

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR