spot_img

Viðhorf | Lök staða fjármögnunar leikins sjónvarpsefnis mikið áhyggjuefni

Björn B. Björnsson.
Björn B. Björnsson.

Björn B. Björnsson fyrrum formaður FK flutti stutta tölu á 50 ára afmæli Félags kvikmyndagerðarmanna þann 9. nóvember 2016 sem birtist nú hér. Í ræðunni fer hann yfir hlutverk FK og víkur einnig að stöðu mála varðandi fjármögnun leikins sjónvarpsefnis.

 

Kæru félagar og aðrir góðir gestir.

Ég heiti Björn B. Björnsson og var formaður FK í átta ár og síðasta árið mitt var einmitt fyrir 10 árum þegar við héldum upp á 40 ára afmæli félagsins.

Eins og við höfum öll orðið áþreifanlega vör við heldur Sjónvarpið upp á 50 ára afmæli sitt á þessu ári og það er ekki tilviljun að Félag kvikmyndagerðarmanna varð til á sama tíma.

Flestir af stofnfélögum FK voru starfsmenn Sjónvarpsins og félaginu var ætlað að vera stéttarfélag kvikmyndagerðarmanna í samningum þeirra við Sjónvarpið.

En í félaginu voru líka menn sem voru sjálfstætt starfandi og á næstu árum fjölgaði þeim þegar kvikmyndagerð í landinu óx fiskur um hrygg.

FK þróaðist því smám saman frá hlutverki stéttarfélagsins – og starfsmenn Sjónvarpsins gengu í önnur félög sem sinntu því hlutverki – en FK varð fagfélag allra kvikmyndagerðarmanna og kom fram fyrir þeirra hönd gagnvart opinberum aðilum.

Barátta fyrir hagsmunum greinarinnar í heild hefur alla tíð verið hryggjarstykkið í starfsemi félagsins með samningum við hið opinbera um fjármögnun kvikmyndasjóða, útgáfu blaðs og síðar vefs og fræðslu og félagsstarfin innan greinarinnar.

Með myndbandavæðingunni komu höfundagreiðslur til kvikmyndagerðarmanna vegna ólöglegrar fjölföldunar og þá stofnuðu framleiðendur og leikstjórar sérstök félög um hagsmuni sína.

Margir félagsmanna þeirra félaga voru þó áfram í FK sem leit á sig sem fagfélag sem opið væri öllum sem störfuðu innan greinarinnar.

Hugmyndir um að gera FK að stéttarfélagi voru oft ræddar á þessum árum en sú tillaga var jafnan felld því ekki var vilji til að breyta félaginu í þessa átt og mestu réði sú hugsun að til þyrfti að vera félag innan greinarinnar sem gæti sameinað alla kvikmyndagerðarmenn á faglegum forsendum hvort sem þeir væru launþegar eða ekki.

Þörfin fyrir stéttarfélag var þó sannarlega til staðar og á síðasta ári tók FK svo ákvörðun um að stíga þetta skref og þá má segja að hringurinn, sem hófst með stofnun félagsins árið 1966 hafi lokast.

Ekki er vafi á að mikil þörf er fyrir stéttarfélag í greininni og félagsins bíða mörg mikilvæg verkefni á þeim vettvangi.

Þegar FK tók þetta skref var jafnframt ákveðið að félagið yrði bæði stéttarfélag og einnig fagfélag þeirra sem ekki vilja vera í stéttarfélagshluta félagsins.

Hvernig og hvort félaginu tekst að samneina þessi tvö hlutverk er ekki gott að segja. Kannski er betra þegar frá líður að hlutverk félagsins verði skýrara og afmarkaðra og það einbeiti sér að þeim mikilvæga þætti að vera stéttarfélag.

Einn möguleiki er að Íslenska kvikmynda og sjónvarpsakademían sem heldur Edduverðlaunin og er í eigu allra fagfélaganna taki smám saman við því hlutverki að vera félag allra kvikmyndagerðarmanna þegar FK hefur markað sér þessa nýju stöðu.

En hvernig sem þau mál þróast er klárt að bæði þessi hlutverk eru mjög mikilvæg fyrir framtíð kvikmyndagerðar á Íslandi.

Í dag horfum við á mikil tækifæri sem við getum því miður ekki nýtt sem skyldi vegna takmarkaðs skilnings og þekkingar stjórnmálamanna á þeim sóknarfærum sem eru í framleiðslu og sölu kvikmynda.

Árið 2012 ákvað þáverandi ríkisstjórn að bæta 500 milljónum í Kvikmyndasjóð á hverju ári næstu þrjú árin, en aðeins ári síðar hætti núverandi ríkisstjórn við þessa áætlun og kvikmyndasjóðir eru nú langt frá þeim markmiðum sem sett hafa verið.

Sérstaklega er lök staða sjóðs fyrir leikið sjónvarpsefni mikið áhyggjuefni því núna er mikil eftirspurn um allan heim eftir slíku efni frá Íslandi og öðrum Norðurlöndum. Við erum að kasta frá okkur tækifæri til að byggja hér upp öfluga framleiðslu á íslenskum sögum sem geta ferðast um allan heim.

Það er kannski óþarfi að predika hér yfir sanntrúuðum – en þetta er grátlegt að horfa upp á – og minnir okkur á hversu mikilvæg sú barátta er sem FK hefur háð í hálfa öld.

Að lokum vil ég minna á að allt það mikla starf sem þetta félag hefur unnið undanfarna áratugi er unnið af fólki sem ekki fær krónu fyrir þær þúsundir og aftur þúsundir vinnustunda sem það leggur á sig fyrir okkur hin.

Ég vil því biðja formann félagsins og stjórn að koma hér upp og taka við litlu lófaklappi. Ég held að fimmfalt húrrahróp eigi vel við á þessum tímamótum.

FK lengi lifi – Húrra, húrra, húrra, húrra, húrra.

Björn B. Björnsson
Björn B. Björnsson
Björn B. Björnsson er kvikmyndagerðarmaður.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR