“12 Years a Slave” miðlungsmynd?

Steve McQueen hoppar hæð sína í öllum herklæðum eftir að mynd hans 12 Years a Slave hlaut Óskarinn í gærkvöldi sem besta myndin.
Steve McQueen hoppar hæð sína í öllum herklæðum eftir að mynd hans 12 Years a Slave hlaut Óskarinn í gærkvöldi sem besta myndin.

“Verðuga” myndin vann, segir Egill Helgason í umfjöllun sinni um Óskarsverðlaunin sem afhent voru í nótt.

Egill segir meðal annars um 12 Years a Slave, sem hlaut Óskarinn sem besta myndin:

“Þetta er miðlungsmynd – eftir nokkur ár eiga menn eftir að furða sig á því að hún hafi verið verðlaunuð. Það er reyndar mjög algengt þegar Óskarsverðlaunamyndir eiga í hlut. Hún nýtur þess hins vegar að fjalla um mál sem öllum finnst skelfilegt og vekur enn skömm – að því leyti fer hún í flokk mynda sem eru taldar „verðugar“.

Mynd Tarantinos, Django, fjallar um þrælahald. En hún gerir það á miklu glannalegri hátt, leyfir sér meira að segja að hæðast að ýmsum hliðum þess. En hún er miklu betra kvikmyndaverk.”

En Egill er ánægður með ýmislegt:

“Þá er komið að þeim sem áttu algjörlega skilið að fá verðlaun. Þar er leikarinn Matthew McConoughey í hlutverki eyðnisjúks kúreka í Dallas Buyer’s Club. Hann hefur breyst úr fallega sólbrúnu vöðvatrölli í stórleikara. Og svo er það Cate Blanchett í Woody Allen myndinni Blue Jasmine. Blanchett er mesta kvikmyndaleikkona samtímans.

Það er reyndar fáránlegt að sú kvikmynd hafi ekki verið tilnefnd, því í henni er að finna snilldarlega skarpa greiningu á stéttaskiptingunni í Bandaríkjunum á tíma vaxandi ójöfnuðar og hvernig það leikur fólk að reyna að klifra stéttastigann en hrapa svo niður hann.

Ég nefni líka La Grande Belezza, Fegurðina miklu, ítölsku myndina sem vann Óskarsverðlaun sem besta erlenda myndin. Það er heilbrigðismerki að Ítalir séu farnir að gera kvikmyndir þar sem þeir skoða innihaldsleysi Berlusconi-tímans. Kannski efnahagshrun þeirra verði til blessunar eftir allt? Það er áberandi að myndin er líkt og í beinu framhaldi af tilraununum sem Fellini og Antonioni voru að gera á sjöunda áratugnum. Sumt í henni virkar eins sprikl miðað við dýpt meistaranna, en þó er þetta athyglisverð mynd.

En besta myndin vann ekki neitt í gærkvöldi, nefnilega Nebraska.”

Sjá nánar hér: „Verðuga“ myndin vann « Silfur Egils.

Óskarsniðurstöður má sjá hér: The Oscar Goes To… 

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR