Hver græðir á niðurhali?

download iconÞórður Snær Júlíusson ritstjóri Kjarnans fjallar um þær breytingar sem eru að eiga sér stað í neyslu tónlistar og myndefnis og bendir réttilega á að þeir sem mest hagnast á niðurhali eru fjarskiptafyrirtækin.

Þórður Snær segir meðal annars:

Neytendur eru vissulega að greiða lægra einingarverð fyrir tónlist og aðra afþreyingu en þeir gerðu áður. En þeir eru samt sem áður að greiða. Munurinn er sá að þeir greiða ekki útgáfufyrirtækjum. Þeir greiða fjarskiptageiranum með mánaðarlegri netáskrift.

Niðurhal Íslendinga hefur margfaldast á örskömmum tíma. Það gagnamagn sem við hlóðum niður í gegnum farsímanet þrefaldaðist til að mynda á einu ári fram að júnílokum 2013. Þær tæplega 115 þúsund ADSL- og ljósleiðaranettengingar sem eru í landinu eru síðan notaðar til að hlaða enn meiru niður. Með innleiðingu 4G og þeirri gríðarlegu hraðaaukningu sem henni mun fylgja er ljóst að gagnaniðurhalið í gegnum snjalltækin mun halda áfram að margfaldast.

Hver þarf 500 gígabæt?

Fjarskiptafyrirtækin eru líka nánast hætt að bjóða upp á nokkurra gígabæta niðurhal í áskriftarpökkum sínum. Nú er mánaðarlega gagnamagnið sem viðskiptavinir þeirra geta hlaðið niður allt að 500 gígabæt. Hvað hefur notandi að gera við 500 gígabæt í niðurhal ef hann er ekki að hlusta á tónlist eða horfa á þætti eða kvikmyndir? Ef miðað er við að ein plata sé um 100 megabæt, sem er rausnarlegt, getur slíkur áskrifandi hlaðið niður fimm þúsund slíkum á mánuði án þess að fara yfir hámarksniðurhal. Hann gæti náð sér í allt að þúsund bíómyndir og þrjú þúsund sjónvarpsþætti. Samt greiðir íslenski fjarskiptageirinn, sem veltir um 50 milljörðum króna á ári, ekki krónu til höfunda þess efnis sem hann sannarlega hagnast gífurlega á að miðla til notenda.

Það þjónar engum tilgangi að öskra á fortíðina að koma aftur. Lausnin liggur ekki í því að höfða til samvisku neytenda (sem eru þó alltaf að borga fyrir afþreyingu sína) með því að kalla þá glæpamenn. Það þarf að finna nýjar leiðir sem ríma við nútímann til að listamenn fái borgað fyrir vinnu sína. Þar þarf að horfa á þá sem græða mest. Og það eru fjarskiptafyrirtæki.

Sjá nánar hér: Hver græðir á niðurhali?.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR